Tengdar greinar

Svona vernda sólgleraugun augun

Margir finna fyrir því að augun verða viðkvæmari fyrir birtu með aldrinum. Sólgleraugun eru smart en líka ómetanleg til að vernda augun fyrir skaðsemi útfjólublárra geisla sólarinnar. Nokkurn veginn svona hefst grein um sólgleraugu á vefnum aarp.org í Bandaríkjunum. Greinin fylgir hér í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Við notum sólarvörn til að vernda okkur gegn því að últrafjólubláir geislar skaði húðina. En þegar við teygjum okkur í sólgleraugun hugsum við kannski meira um hvernig við lítum út með þau, en um  mikilvægi þess að þau verndi augun.

Margir vanmeta það hversu skaðlegir útfjólubláir geislar geta verið fyrir augun, segir augnlæknir sem rætt er við í greininni. Samkvæmt niðurstöðu bandarískrar rannsóknar Samtaka augnlækna þar vestra, var það einungis tæplega helmingur þeirra sem keypti sólgleraugu sem athugaði hversu mikla vernd þau veittu gegn skaðlegu sólarljósi (UV).

Hvernig sólin skaðar augun

Útfjólubláir geislar berast í augað í gegnum hornhimnuna eða „glerið“, sem þekur framhlið augans. Þeir geta valdið skaða á ýmsan hátt.

Þegar til skamms tíma er litið, getur of mikil sól í augun valdið því að þau verða blóðhlaupin, bólgna og verða ofurviðkvæm fyrir ljósi. Það er einnig hægt að fá sólbruna í augun.  Það veldur mjög miklum óþægindum og menn verða rauðeygir, finnst þeir finna korn í augunum og verða enn viðkvæmari fyrir sólarljósinu. Það  getur líka valdið því að  tár fara að renna viðstöðulaust úr augunum. En þessi áhrif vara yfirleitt í stuttan tíma.

Aðrir áhættuþættir

Minnst er á fleiri áhættuþætti í greininni, til að mynda verða augun viðkvæmari fyrir sólarljósi ef fólk hefur farið í aðgerðir til dæmis til að fjarlægja ský á auga eða  í augasteinaskipti. Gerviaugasteinar veita ekki jafn mikla vörn gegn sólarljósi og eðlilegir augasteinar. Margir fara í slíkar aðgerðir milli fimmtugs og sjötugs. Eftir þannig aðgerðir er enn meiri ástæða en ella fyrir fólk, að nota góð sólgleraugu.

Leiðir til að verja sjónina

Notkun sólgleraugna minnkar líkurnar á að sjónin skaðist, segir sérfræðingur sem leitað var til í þessari grein og hérna fyrir neðan eru nokkur ráð sem má horfa til þegar fólk velur sér sólgleraugu.

UV vörn sólgleraugnanna. Athugið hversu mikla vörn sólgleraugun veita gegn UVA og UVB geislum sólarinnar.

Form gleraugnanna. Ef sólgleraugun hafa kúpt gler og falla vel að andlitinu, gefa þau meiri vörn en gleraugu með alveg sléttu gleri.

Liturinn á glerinu. Ekki láta hann blekkja ykkur. Gleraugu með ljósu gleri geta veitt jafn mikla vörn og þau sem eru með dekkra gleri.

Sólgleraugu ekki bara á sólríkum sumardögum. Sérfræðingar mæla með því að fólk noti sólgleraugu, jafnvel þegar það er skýjað. Einnig er bent  á að sólargeislarnir geta líka verið skaðlegir á veturna, þegar þeir endurkastast til dæmis frá snjó eða ís.

Kaupið gæði frekar en merki. Margir eru tilbúnir til að greiða tugi þúsunda fyrir sólgleraugu frá frægum hönnuðum. En er það sniðugt? Þá er oft verið að borga hærra verð fyrir útlit gleraugnanna en virkni. En yfirleitt nota hönnuðirnir einnig gler sem uppfylla helstu gæðakröfur. Ódýrari sólgleraugu uppfylla líka stundum þær kröfur sem gera þarf til sólgleraugnanna, en það þarf að athuga mjög vel hvort svo er.

Að nota sólgleraugu þó menn séu með linsur.  Þó margar linsur hafi vörn gegn UV geislum er mælt með því að fólk noti samt sólgleraugu með linsunum til að tryggja hámarksvörn.

Ekki gleyma börnunum.  það er mikilvægt að nota sólgleraugu snemma á ævinni og börn eru oft meira úti í sól en fullorðnir. Þannig er hægt að verja augun snemma, líka gegn augnskaða síðar á ævinni.

Ekki stóla eingöngu á sólgleaugun.  Það er hægt að setja sólarvörn umhverfis augun og setja á sig hatt  til að bæta vörn augnanna enn frekar. Það ásamt sólgleraugunum tryggir góða vörn.

Forðist að horfa beint í sólina. Ef fólk horfir beint í sólina getur það valdið tímabundnum eða varnlegum skaða á sjónhimnunni.

Ritstjórn ágúst 16, 2023 07:00