Tengdar greinar

Hamingjusamar og óhamingjusamar ömmur

„Það eru margar hamingjusamar ömmur til, þið þekkið ugglaust margar. Þær leika við barnabörnin og segja vinum sínum sögur af þeim, hvað þau eru yndisleg og skemmtileg og almennt teljum við flest að barnabörnin geri líf okkar ríkara. En það eru líka til óhamingjusamar ömmur, sem sjá ekki mikið af barnabörnunum sínum, jafnvel ekkert. Heimsókir til barnabarnanna geta jafnvel verið erfiðar vegna fjölskylduaðstæðna. Skoðum nánar hvað getur valdið því að ömmur eru ekki glaðar. Þannig hefst grein á vefnum sixty and me um óhamingjusamar ömmur. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Barnabörnin búa í fjarlægum löndum

Stundum búa barnabörnin einfaldlega langt í burtu. Fólk er svo hreyfanlegt nú á tímum og finnst það ekki tiltökmál að ferðast um heiminn þveran og endilangan ef því býðst nýtt og spennandi starf. Eftir sitja ömmur í sárum. Konur í Kaliforníu eiga kannski barnabörn í New England og konur í London geta átt barnabörn í Ástralíu – og svo framvegis.

Það er náttúrulega hægt að mæla sér mót á Zoom og nota tæknina til að fylgjast með barnabörnunum vaxa og dafna úr fjarlægð. Það er hægt að ræða reglulega við þau, fylgjst með gæludýrunum þeirra, leikföngunum og hárklippingunni sem þau eru með. En það er bara ekki það sama og að halda á þeim í fanginu og fá að knúsa þau.

Það er líka hægt að leggja í langferðir til að hitta barnabörnin, eða að fá þau til að koma í heimsókn. Flugvellirnir eru stútfullir af eldra fólki, oft konum, sem rogast með alls kyns gjafir á leiðinni út, en koma tárvotar úr fluginu aftur heim.

Erfiðar fjölskyldur

Það er mun erfiðara mál, þegar fjölskyldur standa í deilum vegna gamalla væringa og amman er ekki velkomin á heimili barnabarnanna. Stundum er henni algerlega meinað að hitta þau, til dæmis ef hatrammar deilur hafa risið vegna skilnaðar.

Stundum mega ömmur og afar koma í heimsókn, en það er erfitt að heimsækja fjölskyldur barnanna, ef erfiðleikar eru í samböndum sona eða dætra við maka sína.Það getur verið virkilega óþægilegt að heimsækja barnabörnin á slíkum heimilum. Þótt ömmur langi að gera það, þá njóta þær ekki heimsóknarinnar  annars vegar vegna rifrilda eða hins vegar ískaldrar þagnar. Hvernig er hægt að njóta barnabarnanna við slíkar aðstæður?

Ömmur sem passa of mikið

Það er líka til í dæminu að ömmur taki að sér svo mikla barnapössun að þær ráði hreinlega ekki við það.  Það að vera of mikið með barnabörnunum en ekki of lítið, er svo annað mál sem mætti taka alveg sérstaklega fyrir.

Leiðin fram á við

„Ég vildi að ég gæti boðið uppá auðveldar lausnir“, segir höfundur greinarinnar að lokum.. „Ég vildi óska að ég gæti gert sambönd fólks auðveldari, hvort sem það býr nálægt eða fjarri hvert öðru, Það eina sem ég get sagt er að hverjir sem erfiðleikarnir eru, þá ertu ekki einn  eða ein um þá. Það eru margir að glíma við svipaðan vanda og það er ástæða til að leita til fagmanna um aðstoð, ef einhverjir slíkir starfa í næsta nágrenni við heimili þitt“.

 

Ritstjórn september 12, 2023 07:00