Hún gnæfir yfir Hverfisgötunni, hamraborgin. Óhagganleg og glæsileg með sínum stuðlabergstindum en það er þegar inn er komið að töfrarnir raunverulega byrja. Þetta er nefnilega álfahöll, björt, fögur og full af ævintýraverum. Öll eigum við minningar um að ganga í fyrsta sinn upp þessi svörtu þrep í fyrstu spariskónum, svolítið feimin – svolítið hreykin vegna þess að smellur í skóhælunum þegar þeir skella á steinflísunum. Já, ég er að tala um Þjóðleikhúsið.
Leikhúsið er töfraveröld, einstakur heimur og þar hef ég upplifað reiði, sorg, gleði, von og tapað allri von, náð að endurnýja trúna á mannkynið og fyllst baráttuhug, farið út þess albúin að kreppa hnefann og berjast gegn öllu óréttlæti en líka brotin og leið yfir þeirri illsku og miskunnarleysi sem býr innra með manninum. Einmitt þess vegna gekk ég svolítið tvístígandi upp breiðu tröppurnar. Ég var á leið á námskeið á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands, Þjóðleikhúsið á bak við tjöldin.
Það getur nefnilega verið hættulegt að vera sviptur tálsýnum sínum. Kannski yrði það sem gerðist á sviðinu héðan í frá hversdagslegt og óraunverulegt fyrir mér þegar ég hefði fengið að vita allt um sjónhverfingarnar, tækin, tólin og brögðin sem leikhúsið beitir til að skapa þann blekkingarheim sem birtist áhorfendum.
Margar hagar hendur
Þau Pétur Ármannsson arkitekt, Melkorka Tekla Ólafsdóttir leiklistaráðunautur, Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri og Ásdís Þórhallsdóttir leikstjóri og leiksviðsstjóri tóku á móti hópnum og um leið og Pétur hóf mál sitt varð mér ljóst að ég þurfti engu að kvíða. Hann sagði frá ástríðunni, hugsjónunum, hugmyndunum og trúmennskunni sem Guðjón Samúelsson lagði í verkið. Hann var ekki einn, hver einasti handverksmaður, iðnaðarmaður og tæknimaður sem að byggingunni kom lagði allt í að gera hana eins vel úr garði og hægt var. Vita allir að stuðlabergshvelfingin í lofti salarins er til staðar til að bæta hljóðvistina? Að hún er úr massívri steinsteypu og verkfræðilegt undur? Að hún var vandlega hönnuð og hver einasti stuðull útreiknaður og þess vegna treysti Guðjón engum nema föður sínum, Samúel Jónssyni byggingameistara og listasmið til að smíða steypumótin í hana?
Ósvald Knudsen málarameistari yrjaði veggina og þeir eru ekki allir eins. Yrjurnar lýsast eftir því sem ofar dregur til að skapa líf og fegurð. Og vegna þess að byggingin var úr steinsteypu ætlaði Guðjón að láta flytja inn granít frá Noregi til að steina húsið. Það var of dýrt og þá lögðu þeir saman snilligáfur sínar, Guðjón, Kornelíus Guðmundsson múrarameistari og Guðmundur frá Miðdal og fundu leið til að steina húsið með íslenskri hrafntinnu, silfurbergi og kvarsi. Bæjarbúar urðu svo frá sér numdir þegar stillansarnir voru teknar utan af húsinu að stór hluti bygginga í bænum var uppfrá því steinaður með þessari blöndu. Ýmsar tafir urðu á byggingunni en Guðjón var orðinn heilsuveill áður en henni lauk. Hann gekk mjög nærri sér þegar hún var á lokastigi og gat ekki verið við vígsluathöfnina vegna þess. En sagt er að hann hafi fengið að heyra á sjúkrabeði óminn af fagnaðarlátunum þegar fyrstu sýningu leikhússins lauk. Hann dó viku síðar.
Leikhúsmaðurinn ánetjaðist ungur
Magnús Geir Þórðarson steig mjög ungur sín fyrstu skref í Þjóðleikhúsinu. Hann var þar tíður gestur og lék líka á sviðinu. Þar varð hann heltekinn af leikhúsbakteríunni en segist enn vera fullur lotningar og þakklætis þegar hann kemur til vinnu sinnar. Í miðju hvers leikhúss þarf, að hans mati, að vera stór staður, suðupottur, þar má viðra alls konar hugmyndir, gera rannsóknir og taka áhættu. Ekki allt ratar á sviðið en allt er hluti hins skapandi ferlis.
Næst tók Ásdís við en hún er dóttir Þórhalls Sigurðssonar leikara svo rétt eins og Magnús var hún bitin af bakteríunni ung og getur ekki hætt. Hún útskýrði alla þá flóknu þræði eða kannski frekar kaðla og lóð sem enn stýra leiktjöldum og leikmyndum í Þjóðleikhúsinu. Þessu litla húsi sem er samt svo stórt og magnað.
Að síðustu heimsóttu þátttakendur á námskeiðinu æfingasalinn, búningadeildina og hár og förðun. Þar leggja líka margar hagar hendur hönd á plóg og sauma vandaða búninga, búa til skegg, hárkollur og skapa gervi. Á leiðinni var auðvitað gægst inn í búningsklefa lesið á silfurskildi hver og hverjir þar hafa setið og búið sig undir að fara á svið. Að lokum var kíkt undir sviðið, í rýmið sem kallað er millidekk. Þangað hverfa sumir af misjöfnum ástæðum í ýmsum sýningum en aðrir birtast óvænt að neðan og oft nokkuð snöggt. Þetta var fróðlegt, skemmtilegt, ævintýralegt og spennandi og þarna, eins og alltaf í leikhúsi, var ótal sögur að finna. Sumar harmrænar, aðrar gleðilegar en allar merkar og minnisverðar. Ótti minn um að ástin á leikhúsinu minnkaði væri hulunni svipt af leyndardómum þess hvarf strax á fyrstu mínútunum og mikið ofboðslega hlakka ég til að fara í Þjóðleikhúsið í vetur. Það er nefnilega mikið og verðmætt fóður á eldinn að vita hversu dásamlegt fólk hefur verið og er að tjaldabaki í leikhúsinu okkar allra.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.