Rætt hefur verið um hækkun eftirlaunaaldurs í fréttum síðustu daga. Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands segir að það sé til skoðunar að auka sveigjanleikann í lífeyrissjóðakerfinu vegna þess að menn lifi lengur og þannig lengist ár frá ári, sá tími sem þarf að borga fólki úr sjóðunum.
Við eigum fyrir eftirlaununum
„Þetta er ekkert öðruvísi en ef menn safna peningum inná bók þar til þeir eru 67 ára, þá er komin ákveðin upphæð inná bókina og því lengur sem fólk lifir, þeim mun lengur þurfa peningarnir að endast“, segir Gylfi. Hann segir að hjá þjóðum eins og Frökkum, Spánverjum og Ítölum sé þetta óleysanlegt vandamál, en þeir búa við svokallaða gegnumsteymissjóði sem ganga út á ákveðin loforð um lífeyri síðar meir. „En við eigum fyrir þessu“, segir Gylfi. „Við erum með svokallaða söfnunarsjóði sem eru þannig að hver einstaklingur safnar í sinn lífeyrissjóð, sem hann tekur svo af þegar hann kemst á eftirlaun. Því kerfi var komið á að fullu á íslenskum vinnumarkaði í kringum 1970 og þeir sem þá byrjuðu að greiða í lífeyrissjóði munu fá fullar greiðslur úr sjóðunum þegar þeir komast á eftirlaun“.
Eftirlaunaaldurinn hækki um ár á rúmum áratug
Fólk lifir í dag að meðaltali um þremur árum lengur eftir 65 ára aldurinn en það gerði fyrir um það bil 40 árum. Þessi þróun á sér stað alls staðar í Evrópu. Gylfi segir að þær hugmyndir sem nú séu til skoðunar séu að fara svipaða leið og aðrar Norðurlandaþjóðir, sem hafa ákveðið að hækka eftirlaunaaldurinn mjög hægt á næstu áratugum. „Verði eftirlaunaaldurinn hækkaður hér í 67,5 ár gæti hann hækkað um einn mánuð á ári næsta áratuginn og þá verið kominn í 68,5 ár“, segir Gylfi. Þá segir hann einnig rætt um að gera eftirlaunaaldurinn sveigjanlegri þannig að menn geti til dæmis farið á ½ lífeyri 65 ára, en hætt að vinna sjötugir. Sá kostur að hækka iðgjöldin sem menn borga í lífeyrissjóðina, muni hins vegar minnka ráðstöfunartekjur fólks.
Öllum tryggð ævilöng greiðsla úr sjóðakerfinu
Lífeyrissjóðakerfið stendur undir um 66% eftirlaunagreiðslna hér á landi, en ríkið um 34% í gegnum Almannatryggingakerfið. Eftir 15-20 ár er reiknað með að lífeyrissjóðakerfið muni standa undir 80-90% eftirlaunanna. Gylfi segir að öllum verði tryggð ævilöng greiðsla úr sjóðakerfinu, jafnvel þótt þeir verði 100 ára. En þegar menn lifi lengur, sé hugmyndin að tryggja fólki greiðslur úr lífeyrissjóðum í tiltekinn árafjölda. Eftir því sem meðalaldur fólks hækki, fari það því síðar á eftirlaun.