Vill styrkja stöðu eldra fólks á vinnumarkaði

Össur Skarphéðinsson

Össur Skarphéðinsson

„Á tímum slaka í hagkerfinu og skorts á atvinnu verða 60 ára og eldri, ekki síst konur, verst úti á vinnumarkaði. Aldurstengdar ívilnanir um tryggingagjald myndu því styrkja stöðu hópsins og stuðla að auknu jafnrétti milli aldurshópa og kynja,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögu  um lækkun tryggingagjalds vegna 60+ sem Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu er fyrsti flutningsmaður að. Lagt er til að  settur verði á laggirnar starfshópur sem kanni kosti þess að beita aldurstengdum lækkunum á tryggingagjaldi sem efnahagslegum hvata til að ýta undir aukna þátttöku aldurshópsins 60 ára og eldri á vinnumarkaði.

Margir vilja halda áfram að vinna

Í greinargerðinni segir að kannanir sýni að margir í þeim hópi vilja halda áfram þátttöku á vinnumarkaði meðan starfsgeta leyfir, ýmist í fullu starfi eða í hlutastörfum. Ástæðurnar eru margvíslegar, svo sem bætt lífsgæði, aukin félagsleg tengsl og sú lífshamingja sem fylgir heilladrjúgri þátttöku í atvinnulífinu. Aðrir þurfa á tekjum að halda til að ná endum saman. Einstaklingar sem tilheyra aldurshópnum 60 ára og eldri búa yfirleitt yfir dýrmætri starfsreynslu, fjölbreyttri þekkingu og lífsreynslu sem gerir þá ákjósanlega í margvísleg hlutverk á vinnumarkaði.

Styrkir stöðu hópsins

Aldurstengdar ívilnanir um tryggingagjald mundu því styrkja stöðu hópsins og stuðla að auknu jafnrétti milli aldurshópa og kynja. Þegar stríkkar á hagkerfinu og eftirspurn eykst gæti aukin atvinnuþátttaka 60 ára og eldri mætt vaxandi þörf fyrir vinnuafl og dregið úr spennu á vinnumarkaði. Samfélagið hefur því margvíslegan ávinning af því að ýta undir aukna þátttöku 60 ára og eldri á vinnumarkaði. Landlægir og gamalgrónir aldursfordómar valda því hins vegar að síst er horft til 60 ára og eldri þegar fyrirtæki ráða í laus störf.

Ritstjórn apríl 7, 2015 15:54