Kynning

Heillandi saga, ríkuleg matarhefð og einmunaveðurblíða í Almería á Spáni

Andalúsía er syðsta sjálfstjórnarsvæði Spánar og þekkt fyrir náttúrufegurð og ríkulega matreiðsluhefð. Almería er eitt átta héraða innan sjálfstjórnarsvæðisins og samnefnd borg er Íslendingum að góðu en þeir hafa heimsótt hana lengi. Í sumar býður Úrval Útsýn upp á ferðir þangað og þar tekur Helga Thorberg, garðyrkjufræðingur, leikkona og lífskúnstner á móti farþegum og kynnir þeim helstu perlur, áhugaverða afþreyingu og annað sem skapar ánægju.

Margir benda á að Spánn sé fjölbreytilegt land og ekki sama hver áfangastaðurinn þar er. Almería er borg á Íberíuskaganum, hvað er svona heillandi við þann stað?

„Almeria er sólríkasta borg Evrópu ! Hvergi skín sólin fleiri daga á ári en hér,“ segir Helga. „Hún er höfuðborg Almeríuhéraðsins og liggur við Costa de Almeria, við Miðjarðarhafsströnd Spánar. Þar búa um 200 þúsund manns. Í gamla bænum, Casco Antiguo, eru heillandi þröngar götur með spennandi verslunum, kaffihúsum og tapasbörum. Það sem er ekki síst heillandi við borgina er hve fáir erlendir ferðamenn eru hér. Hingað koma aðallega Spánverjar í frí enda eru hér frábærar sólarstrendur. Einn stærsti strandbærinn á svæðinu er Roquetas de Mar og þar held ég aðallega til.“

Márar voru við völd á mestöllum Íberíuskaganum frá 711 og fram til 1492. Flestir þekkja hve litrík og fjölbreytt menning þeirra var bæði hvað varðaði listsköpun og handverk en því sér víða stað. Á Almería sér einhverja slíka sögu?

„Almería á sér forna sögu frá stofnun árið 955 og enn stendur þar eitt stærsta virki á Spáni, Alcazaba sem þá var byrjað að reisa, aðeins Alhambra höllin í Granada er stærri. Borgin varð miðstöð viðskipta, menntunar og múslimskrar menningar. Almeria var endurheimt af krisnum hersveitum 1489. Borgin er því blanda af rómverksum, arabískum og kristnum áhrifum sem endurspeglast í arkitektúr, siðum og matargerð,“ segir Helga.

Íslendingar eru mismiklir sóldýrkendur, enda ekki vanir mjög sterku sólskini eða háu hitastigi. Er ekki alltof heitt þarna?

„Nei það er alls ekki of heitt. Á heitasta tímabilinum, júlí og ágúst, þá tekur maður bara upp siði innfæddra og tekur „síesta“ yfir heitasta tíma dagsins. Enda halda þeir enn í þann sið að taka sér hvíld frá klukkan 14-17 og margir staðir eru lokaðir þá. Síðan mætir maður endurnærður í þessi yndislegu heitu kvöld og fer léttklæddur í göngutúr eftir ströndinni, 10 km og fær sér hressingu á einhverjum strandveitingastaðnum og nýtur lífsins. Ég elska þessi heitu sumarkvöld. Að ganga léttklædd eftir fallegri strandlengjunni og horfa á sólarlagið, það er óviðjafnanlegt.“

Almería er í Andalúsíu. Hvað einkennir helst það hérað?

„Andalúsia er eitt merkilegasta svæðið á Spáni enda skartar það fjölbreyttri náttúru, Sierra Nevada fjallgarðinum þar sem hægt er að fara á skíði að morgni og síðan er hægt að fara í sólbað á einni af strandlengjunum um eftirmiddaginn, allt á einum degi,“ segir hún. „Héðan frá svæðinu kemur líka menning og saga sem einkennir Spán í okkar huga í dag, eins og flamengotónlistin, tapasmatarmenningin og hátíðahöldin, allt sem á sinn uppruna í Andalúsiu. Eftir 800 ára yfirráð múslima standa eftir stórkostlegar bygginar. Hér má sjá hvernig saga og menning frá ólíkum trúarbrögðum hefur blandast í byggingalist og sögu og áhrif þeirra á líf og lifnaðarhætti í dag.

Þetta svæði er einnig matarkista Evrópu. Hér er mikil gróðurhúsarækt og þeir rækta mest allt það grænmeti sem er á boðstólum í Evrópu. Síðan eru þessir fallegu strandbæir með langar strandlengjur sem lokka til sín ferðamenn yfir sumarið. Það er stutt í ósnortnar náttúruparadísir, rétt hér hjá er t.d. Nijar og Cabo de Gata þjóðgarðurinn, síðan er stutt upp í mörg fjallaþorp sem gaman er að heimsækja. Það er ekki langt til margra stórborga eins og Malaga og Sevilla og Granada er innan seilingar með stórkostlegu Alhambra-höllina. Stærstu ólífuakrar í heimi eru hér skammt undan í Jaén, sem kölluð hefur verið „höfuðborg ólífunnar“.“

En ekki hafa allir áhuga á gömlum byggingum og gönguferðum eftir ströndinni. Hvað er hægt að gera sér til afþreyingar í Almería?

„Það er ótal margt að sjá og gera. Skoðunarferðir um Almeria, með Alcazaba-virkið. Heimsækja nærliggjandi þorp og bæi. Allt sem strandlífið hefur upp á að bjóða, fara í siglingar, göngutúra og flatmaga á ströndinni. Hér eru líka söfn og skemmti- og sundlaugargarðar. Fara í vínsmökkunarferðir og skoða fjallaþorpin. Allt þetta og meira til mun ég bjóða upp á í sérstakri Úrvalsferð nú í september.“

Hvað finnst þér sjálfri áhugaverðast við staðinn?

„Fyrir utan veðurblíðuna, sem er unaður í sjálfu sér, þá eru það rólegheitin og nándin við sjóinn og fallegu ströndina. Hér er allt umhverfi svo öruggt, engin mannmergð og örtröð eins og á svo mörgum sólarstöðum. Hér er vingjarnlegt fólk og notarleg stemmning. Veitinga- og kaffihús á hverju strái og ekki má gleyma ísbúðunum ! Hér er bara verið að njóta og vera til. Enginn ærandi hávaði og læti. Verðlagið er líka mjög gott mun betra en á stærri stöðum. Hér er gott að vera,“ segir Helga að lokum en þeir sem hafa áhuga á að slást í hóp þeirra sem hyggast heimsækja hana í sumar og njóta með henni geta farið inn á vef Úrvals Útsýnar, https://uu.is/ferd/urvalsfolk-til-almeria/

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 17, 2025 07:00