Á að fela gráu hárin?

Það eru að verða breytingar á viðhorfi fólks til þess að eldast. Það þykir ekki lengur sjálfsagt mál að konur sem eru farnar að grána láti lita hár sitt, það er val hverrar og einnar. Þrátt fyrir það kemur samfélagið til með að dásama æsku og fegurð þar sem grá hár eiga ekki heima jafnvel þrátt fyrir að nokkrir frægir af yngri kynslóðinni hafi látið lita hár sitt grátt, segir á vef Huffington Post. Á síðunni er rætt við nokkrar venjulegar konur sem hafa átt í mis flóknu sambandi við gráu hárin og þær hafa ekki allar verið sáttar við að eldast.

 Samantha Feldman 57 ára segist nýlega hafa ákveðið að hætta að lita hár sitt eftir að hafa litað það árum saman. „Ég hef ávallt fagnað hverju aldursskeiði, hverjum afmælisdegi, hverjum áratug, hverjum áfanga sem ég hef náð. Ég hef aldrei verið hrædd við að eldast. Dóttir mín hvatti mig til að halda áfram að lita á mér hárið því henni finnst ég líta eldri út en ég er í raun með mín gráu hár. Þetta snýst hins hins vegar ekki um útlit mitt heldur hvernig mér líður. Og mér finnst ég alltaf jafn ung.“

Ann Lapin 41 árs segir að gráu hárin hafi farið að láta sjá sig í kjölfar fósturláts. „Ég varð satt að segja mjög undrandi þegar ég sá þau. Manninum mínum finnst grátt hár fallegt svo stöku sinnum leyfi ég gráu rótinni að sjást. Yfirleitt lita ég rótina svo hárin sjáist ekki, mér geðjast ekki að gráu hári. Í mínum huga er ég ekki gráhærð kona, það er ekki sú sem ég er.“

„Ég fann fyrstu gráu hárin þegar ég var 18 ára og litaði á mér hárið í áratugi,“ segir Patty Lang 53 ára. Patty segist hafa litað á sér hárið þegar hún var ófrísk að börnum sínum en hún á fjögur. „Ég velti því samt fyrir mér í hvert skipti sem ég litaði á mér hárið þegar ég var ófrísk hvort það væri í lagi,“ segir hún og bætir við að hún hafi litað á sér hárið því henni leiddist að vera gráhærð. „Ég var orðin nokkuð fullorðin þegar ég átti börnin mín. Þegar yngsta dóttir mín var lítil átti fólk til að koma að máli við mig og segja. „En gaman, að þú skulir eyða tíma með barnabarninu þínu.“ Þetta fór óskaplega í taugarnar á mér. Það breyttist hins vegar allt þegar ég fékk slag þegar ég var 43 ára. Þá varð það allt í einu ekki svo mikilvægt að vera stöðugt að lita á sér hárið. Ég setti líka hlutina í annað samhengi. Föðuramma mín var fallega gráhærð kona. Hún var bæði ákveðin og sterk. Mig langar að líkjast henni og taka hana mér til fyrirmyndar. Ég fékk annað slag fyrir nokkrum árum síðan en hef ákveðið að láta ekkert stoppa mig. Ég ætla að verða eins og amma mín.“

Ritstjórn apríl 4, 2018 13:28