Heitir pottar

Óttar Guðmundsson

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar

Heitir pottar og laugar koma víða við sögu í Íslendingasögum og Sturlungu. Þeir frændur og fóstbræður Bolli Þorleiksson og Kjartan Ólafsson hittu glæsikvendið Guðrúnu Ósvífursdóttur í heita pottinum í Sælingsdal. Þeir voru báðir saklausir hreinir sveinar en Guðrún lífsreynd og fráskilin kona. Piltarnir biðu þess aldrei bætur að sitja með henni berbrjósta í lauginni enda varð það þeirra bani. Snorri frændi minn Sturluson sat löngum í lauginni að Reykholti og flækti líf sitt og annarra. Grettir Ásmundsson lagðist í heitan pott að Reykjum eftir Drangeyjarsundið. Hann fylltist slíkum fítonskrafti í baðinu að hann nauðgaði griðkonu stuttu síðar.

Þessi baðmenning hvarf að mestu eftir siðaskiptin enda taldi lúterska kirkjan að alls kyns siðleysi blómstraði í þessum heitu laugum. Þetta varð upphafið af miklu niðurlægingartímabili þar sem Íslendingar voru orðlagðir fyrir sóðaskap. Útlendingar gerðu sér tíðrætt um óhreinindi og ólykt í híbýlum fólks.

Á liðinni öld var farið að byggja sundlaugar víða um land með einum heitum setpotti. Smám saman urðu pottarnir mun vinsælli en sundbrautirnar. Stór sundlaug með rennibraut og heitum potti er í flestum bæjarfélögum á Íslandi. Svo mikið kapp hefur verið lagt í þessar sundlaugarbyggingar að heil sveitarfélög hafa farið í gjaldþrot vegna kostnaðar við vatnsknúin leiktæki. Stór hluti pólitískra hræringa í landinu á upptök sín í heitum potti.

Nú er risin upp hreyfing að byggja potta án sundlauga útum allt. Enginn þarf að synda heldur getur dembt sér beint í pottinn og setið þar í góðu yfirlæti. Þessir nýju staðir hafa vínveitingaleyfi svo að menn geta samtímis vökvað sinn ytri og innri mann. Þeir eru nefndir uppá ensku til að leggja áherslu á framandleikann, Skylagoon, Geosea, Blue Lagoon etc. Verðið er uppúr öllu valdi eins og vera ber. Þessir pottastaðir eru mun fínni en gömlu sundlaugarnar með nýjum möguleikum.

Nú geta íslenskir peningamenn gamnað sér í heitum potti ásamt erlendum vel stæðum ferðamönnum og bruggað launráð að hætti Sturlunga. Sennilega hefðu þau Kjartan, Bolli og Guðrún aldrei náð saman í þessum nýju pottum sakir peningaleysis. En það hefði sparað þeim ótaldar raunir.

Óttar Guðmundsson maí 31, 2021 08:00