Gömul speki – Óttar Guðmundsson geðlæknir

Óttar Guðmundsson

Óttar Guðmundsson geðlæknir

Fyrir um 30 árum kom út bókin Af örlögum manna eftir Jón Björnsson fyrrum félagsmálastjóra á Akureyri. Þessa bók hef ég lesið oftar öðrum bókum enda er hún sneisafull af skiljanlegu mannviti. Gamalt máltæki Sígauna eða Rómafólks er endurtekið nokkrum sinnum: “Leiðin sem liggur að ákvörðunarstaðnum skilur þig ekki frá honum, heldur er hluti hans.”

Lífið er eitt samhengi þar sem dagarnir verða að árum. Löng geðlæknisævi hefur kennt mér að eðli og persónuleiki mannsins breytist lítið og lengi býr að fyrstu gerð. Ég hef oft séð fólk flýja sjálft sig og vandamál dagsins en venjulega komast menn að því fyrr eða síðar að þeir fara alltaf með sjálfa sig í farteskinu.

Enginn kemst undan sjálfum sér. Lífið býður stöðugt uppá nýja erfiðleika sem þarf að yfirstíga. Áfallalaust kemst enginn gegnum lífið. Jafnvel prinsessan á bauninni varð að sætta sig við mótlæti. Mestu skiptir að mótlætið taki ekki öll völd og stjórni bæði lit daganna og nætursvefni. Veraldargengið ræðst af því hversu vel eða illa manni tekst að takast á við áskoranir daglegs lífs og sættast við fortíð sína.

Eðlileg endalok tilverunnar er dauðinn. Hann er tengdur lífinu óaðskiljanlegum böndum enda deyja flestir eins og þeir höfðu áður lifað. Í þessu samhengi er hollt að líta um öxl til frænda minna Sturlunga. Frægastir þeirra voru bræðurnir Þórður, Sighvatur og Snorri Sturlusynir Þórðarsonar frá Hvammi.

Þórður dó fyrstur. Hann var friðsamastur þeirra bræðra sem hélt sér að mestu til hlés í átökum aldarinnar. Þórður var trúaður maður í miklu vinfengi við Guðmund biskup Arason. Hann sendi Þórði kveðju frá banabeði sínu og sagði að fundum þeirra mundi bráðlega bera saman. Þórður taldi það vafasamt þar sem þeir væru gamlir menn og ekki ferðafærir. En þetta var fyrirboði. Guðmundur lést og nokkru síðar dó Þórður umkringdur börnum sínum með guðsorð á vörum. Hann ráðstafaði eigum sínum og sá til þess að óskilgetin börn sín yrðu ekki skilin eftir arflaus. Hann fór með andlátsorð Krists á krossinum með nærstöddum presti. Svo fékk hann hægt og friðsælt andlát og var jarðaður fyrir kirkjudyrum að Hallbjarnareyri.

Sighvatur Sturluson féll á Örlygsstöðum. Hann dó eins og hann hafði áður lifað, óhræddur og æðrulaus. Ekki bað hann sér griða heldur gekk greiðlega á fund skapara síns og sveiflaði axarskepti að óvinum sínum. Með honum dóu þennan dag gamlir liðsmenn úr Dölum og synir hans. Sighvatur kunni best við sig í margmenni og átökum og þannig dó hann. Böðlar hans vildu ekki heyra andlátsorð hans svo að þau eru um eilífð týnd. Sighvatur þoldi hvorki vol né væl og var fljótur að laga sig að breyttum aðstæðum.

Snorri dó einn og yfirgefinn í kjallara með þekktum misyndismönnum og föntum. Hann bað þá að höggva ekki en þeir gerðu það engu að síður. Hann var svikinn í tryggðum af mönnum sem hann treysti. Þrír fyrrum tengdasynir hans og stjúpsonur brugguðu honum launráð en skáldið áttaði sig engan veginn á svikum og vélabrögðum heimsins. Snorri var mikill bragðarefur og því við hæfi að hann skyldi vera blekktur og vélaður á banastundinni. Þessi mikli kvennamaður og barnakarl dó einn og hvíslaði útí tómið; Eigi skal höggva, en enginn lagði við hlustir. Hann var á banastundinni jafn einmana og hann hafði verið í lifanda lífi.

Dauði bræðranna rímaði fullkomlega við líf þeirra svo að enn og aftur sannast máltæki Sígaunanna: “Leiðin sem liggur að ákvörðunarstaðnum skilur þig ekki frá honum, heldur er hluti hans.”

 

Þessi grein er úr safni Lifðu núna.

Óttar Guðmundsson júní 12, 2023 07:00