Skáldið sem þjóðin slaufaði

Óttar Guðmundsson

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar

Nítjánda öldin var öld mótsagna í íslensku samfélagi. Öld stöðnunar og umbreytinga, öld þjóðernishyggju og erlendra áhrifa, öld mikilla breytinga. Rótgróið sveitasamfélag leið undir lok þegar fólk fluttist til Ameríku eða í lágreist þorp við sjávarsíðuna. Bókmenntirnar tóku heljarstökk framávið. Vinsælasta listgreinin, rímurnar liðu undir lok og erlendir straumar umbyltu forminu.

Vinsælasta skáld aldarinnar var konungur rímnanna, Sigurður Breiðfjörð. Hann var af alþýðuættum frá Rifgirðingum, fæddur rétt fyrir aldamótin 1800. Snemma fór hann að yrkja enda ótrúlega hagmæltur. Sigurður var talandi skáld sem hentaði vel rímum eða söguljóðum. Hann var alls staðar aufúsugestur, mikill kvennamaður og skemmtilegur í viðkynningu. Sigurður hafði þó einn stóran djöful að draga. Hann var alkóhólisti frá unga aldri sem markaði allt hans líf.

Eftir margvísleg ævintýri í Kaupmannahöfn, Ísafirði og Reykjavik flutti hann til Vestmannaeyja. Hann kvæntist en undi sér illa í fámenni og fátækt Eyjanna og flúði uppá land. Breiðfjörð fór til náms í Kaupmannahöfn en drakk frá sér allar sínar framtíðarvonir. Um nokkurra ára skeið var hann á Grænlandi. Kom aftur til Íslands í sama baslið og fylleríið. Frameftir öldinni var Sigurður höfuðskáld þjóðarinnar sem orti rímur og tækifærisljóð eftir pöntun. Hann var atvinnuskáld í þjónustu þess sem best borgaði hverju sinni.

Árið 1837 gifti hann sig öðru sinni Kristínu Illugadóttur. Sá hængur var á að hann var ekki skilinn við eiginkonuna í Vestmannaeyjum. Þetta var stórglæpur í hinu lúterska kirkjusamfélagi og yfirvöld kærðu hann fyrir tvíkvæni og heimtuðu dauðarefsingu. Sigurður sýndi ótrúlegt kæruleysi og dómgreindarbrest í þessu máli sem sennilega má rekja til alkóhólismans.

Sjaldan er ein báran stök. Þegar Sigurður barðist fyrir lífi sínu við hin hálfdönsku íslensku yfirvöld varð hann fyrir árás úr annarri átt. Ungur yfirstéttarstúdent frá Kaupmannahöfn réðist með miklu offorsi að íslenskri alþýðumenningu, Sigurði Breiðfjörð og rímunum og taldi þeim allt til foráttu. Ungi stúdentinn var prestssonur að norðan, Jónas Hallgrímsson, skáld. Vettvangur hans var tímaritið Fjölnir. Sigurður tók til varna en vopnin snerust í höndum hans. Skaðinn var skeður. Hann réði ekki við að berjast á þremur vígstöðvum samtímis, við Jónas, við íslensk yfirvöld og við alkóhólismann. Brátt hallaði undan fæti. Hann var dæmdur til smánarlegrar hýðingar sem var snúið upp í sekt. Fyrir honum fór eins og mörgum sem lenda í útistöðum við lögin. Allar eigur og fé fara í lögfræðikostnað. Drykkjan jókst og vinsælasta skáld þjóðarinnar fór á vergang ásamt konu sinni og ungum syni. Sagan fékk illan endi. Sigurður Breiðfjörð skáld dó úr sulti og vesaldómi hálffimmtugur í húsi við Aðalstræti sumarið 1846.

Skáldið unga sem tók hann af lífi í Fjölni dó reyndar líka úr alkóhólisma og ræfildómi árið áður í Kaupmannahöfn. Smám saman sigruðu ferskar bókmenntastefnur samtímans og rímunum var kastað fyrir róða. Sigurður var persónugervingur þeirra svo að honum var slaufað í bókmenntasögunni. Það er mikill missir því að margt af kveðskap Sigurðar eru tærar ljóðperlur. Jónasi Hallgrímssyni var á hinn bóginn lyft til hæstu hæða. Þetta síblanka skáld fékk mynd af sér á tíuþúsundkallinum og stytta af skáldinu stendur í skemmtigarði. Hann er orðinn þjóðskáld en Sigurður Breiðfjörð er að gleymast ásamt öllum rímunum.

Sigurður var fórnarlamb stéttastríðs í bókmenntunum þar sem hin menntaða yfirstétt bar sigurorð af alþýðuskáldinu og alþýðumenningu. Embættismannastéttin snerist öll gegn honum enda var hann annálaður fylliraftur, kvennamaður og lögbrjótur. Jónas er á hinn bóginn orðinn dýrlingur. Í hugum heitustu aðdáenda sinna er hann stakur reglumaður og mikið valmenni. Þetta held ég reyndar að hefði komið Jónasi sjálfum verulega á óvart.

Í dauðanum er hlutskipti þeirra ólíkt. Sigurður hvílir undir fallegum en máðum steini innan um ýmsa skáldbræður og þjóð sína í Hólavallagarði. Á síðustu öld sátu stundum menntaskólapiltar og drukku á leiðinu og helltu brennivínstári ofan í gröfina. Jónas hvílir á Þingvöllum í tilgerðarlegum þjóðargrafreit ásamt Einari Benediktssyni sem reyndar var mikill aðdáandi Sigurðar. Enginn kemur nokkru sinni að leiðinu og aldrei sést þar drykkfelldur námsmaður sem vill minnast skáldsins. Jarðarför Sigurðar var sorgleg og fámenn. Eiginkonan veðsetti giftingarhringinn fyrir kostnaði. Presturinn neitaði henni um ræðu. Endurtekin jarðarför Jónasar á Þingvöllum árið 1946  var þó enn dapurlegri. Helstu stjórnmálamenn landsins gengu undir kistunni. Allir vildu blóðmjólka minningu þessa óhamingjusama skálds í eigin þágu og gera það að flokksbróður sínum.

Þeir Jónas og Sigurður áttu margt sameiginlegt þótt ýmislegt bæri á milli. Þeir voru báðir alkóhólistar og drekktu hæfileikum sínum í ölglasi. Báðir voru þeir síblankir og ósáttir við ævi sína. Sigurður naut ásta við ótal konur en Jónas náði aldrei lengra en yrkja um draumadísir sem sennilega voru aldrei til. Sigurður var hokinn af lífsreynslu og basli en Jónas lifði verndaðri tilveru Kaupmannahafnarstúdentsins. Sigurður elskaði þjóð sína og dáðist að henni í ljóðum sínum. Jónas leit niður á landa sína sem bjuggu á Íslandi og taldi þá sofandi liðleskjur og vesalmenni. Þeir voru báðir ágæt skáld en örlögin gerði þá að svörnum andstæðingum. Jónas er skilgreindur sigurvegari í bókmenntasögu þjóðarinnar en Sigurður laut í lægra haldi. Kannski eru það alltaf örlög lítilmagnans að bíða ósigur þegar snobbið og pólitíkin taka höndum saman. Þjóðin sjálf ákvað að snúast á sveif með skáldinu sem fyrirleit  hana á sama hátt og danskir embættismenn gerðu.

Nú er kominn tími til að endurmeta kveðskap Sigurðar og hann fái þann sess sem hann á skilið. Hann var breyskur og óheiðarlegur alkóhólisti en enginn unni landi og þjóð meira en hann. Hann var hroðvirkur og mistækur en margar vísur hans og kvæði eru með því besta sem ort hefur verið á íslensku. Slaufun á skáldskap hans er mikið tjón fyrir íslenskar bókmenntir.

 

Óttar Guðmundsson september 11, 2023 06:20