Dagur B. Eggertsson 1. sæti á lista Samfylkingarinnar
Ellert B. Schram 41. sæti listans Samfylkingarinnar skrifa:
Öllum er ljóst að aldur okkar lengist og þeim fjölgar sem tilheyra þriðju kynslóðinni, sextíu ára og eldri. Við viljum stuðla að því að eldri borgarar búi við heilsuvæna borg og áhyggjulaust en athafnasamt ævikvöld.
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, og þar með einnig Samfylkingin, hefur kynnt stefnu sína um vellíðan, heilsueflandi umhverfi, stuðning við heimili, heilsukort og endurhæfingu í heimahúsum, velferðarþjónustu og aðgengilega þjónustu, svo fátt eitt sé nefnt. Samfylkingin leggur sérstaka áherslu á að koma til móts við þá sem búa við fátækt og einangrun og tryggja öllum nauðsynlega þjónustu, tækifæri til virkni og þátttöku og innihaldsríks lífs.
Við undirritaðir, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ellert B Schram, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, viljum síðan leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi málefni:
1) Eldri borgarar eiga að geta búið heima, svo lengi sem heilsa og aðrar aðstæður leyfa. Reykjavíkurborg í samvinnu við Félag eldri borgara mun útvega lóðir og stuðla að byggingu húsnæðis til þeirra eldri borgara sem vilja minnka við sig í húsrými, annað hvort til leigu eða kaupa. Áhersla verður lögð á samvinnu við byggingafélög sem ekki byggja í hagnaðarskyni.
2) Þjónusta verður efld við eldri borgara í heimahúsum jafnframt því að þróa endurhæfingu á heimilum, matarþjónustu og aðra aðstoð. Reykjavík bjóðist til að efla enn frekar heimahjúkrun með samningum við ríkið.
3) Reykjavíkurborg og önnur bæjarfélög hafa sett sér reglur um niðurfellingar og/eða lækkanir á fasteignagjöldum að því er varðar eldri borgara. Reykjavíkurborg hefur fellt niður fasteignagjöld hjá þeim sem lægstu tekjurnar hafa og lækkað fasteignagjöld hjá öðrum, ýmist um 80% eða 50% eftir tekjum. Fasteignagjöld almennt voru lækkuð um 10% í október s.l. og ofangreindir afslættir hækkaðir þannig að þeir næðu til fleiri í samráði borgarinnar og Félags eldri borgara í Reykjavík. Því verður haldið áfram til að stuðla að því hækkun fasteignaverðs hafi ekki íþyngjandi áhrif á kjör tekjulágra eldri borgara.
4) Samskipti milli Reykjavíkurborgar og FEB í þágu eldri borgara hafa verið mikil og góð en verða aukin enn frekar í ljósi þess að FEB er málsvari og talsmaður vaxandi hóps borgarbúa sem komnir eru til efri ára.
5) Öldungaráð borgarinnar er nýr og öflugur vettvangur sem þarf einnig að nýta til fulls í samstarfi og umræðum milli borgarinnar annars vegar og borgarbúa á efri árum hins vegar.
6) Eldri borgarar fá afslætti á notkun strætisvagna og áfram ókeypis aðgang að sundlaugum, menningarstofnunum og bókasöfnum frá 67 ára aldri, líkt og nýverið var samþykkt og veita má frekari afslætti á annarri þjónustu, s.s. líkamsrækt, í samvinnu Reykjavíkurborgar og FEB.
7) Lögð verður áhersla á að ná samkomulagi við ríkisstjórnina að hraða uppbyggingu og notkun á þjónustu- og hjúkrunarheimilum í samræmi við nýgefin fyrirheit og að flýtt verði fjölgun rýma í Reykjavík í samræm við stefnu Samfylkingarinnar og yfirlýstan vilja Reykjavíkurborgar.
8) Sérstök áhersla verði lögð á heilsueflingu eldra fólks og aðgang að hreyfingu og virkri þátttöku í margvíslegu og fjölbreyttu frístundastarfi, þar með talið innan íþróttafélaga í hverfum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismaður og formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, skipar 41. sæti listans.