Margir eiga erfitt með skilja hið dularfulla samband sumra kvenna við handtöskuna sína. Þeir hneykslast á því ótrúlega magni af smáhlutum sem konur bera með sér og hafa enga samúð þegar ný og dásamlega falleg taska birtist innan sjónsviðs konunnar.
Flóknir þræðir tengja konur og handtöskur og reyndar er þetta samband líka ævafornt. Kventöskur hafa þróast með tímanum likt og önnur fyrirbæri úr þvi að vera einfaldir pokar í fjölbreytilega grein kventískunnar þar sem mismunandi útgáfur hafa sinn tilgang og sitt notagildi. Alla jafna ganga flestar konur með töskur og þessar hversdagstöskur eru svo lýsandi að margir geta nánast bent á tegundina og skilgreint persónuleikann sem mun velja hana. Og svo er það innihald töskunnar, hver taska er nánast eins og askja Pandóru nema margt annað en vonin leynist á botninum.
Lágstéttakonur báru til að byrja með grófgerða poka meðan yfirstéttin bar silkituðrur. Oft var aleigan í poka fátæku konunnar en danskortið, ástarbréf og blævængur í tuðru hinnar ríku. Síðar urðu þessar tuðrur ómissandi og oft hannaðar í stíl við kjólinn. Þá báru konur vasaklúta, ilmsöltin sín og ef til vill þurrkað blóm frá elskhuganum í tuðrunni. Konur þess tíma gengu ekki með peninga eða lykla á sér. Eiginmaðurinn sá um fjármálin og borgaði reikninga hennar í búðunum einu sinni í mánuði. Vinnukonan sá svo um að hleypa húsmóðurinni inn þegar hún sneri aftur að aflokinni bæjarferð.
Með tösku í hanskaklæddri hönd
Tuðrur urðu að töskum sem konur hengdu á úlnliðinn eða héldu á í hanskaklæddri hönd. Þá voru púðurdósir og varalitir farnir að slæðast ofan í þær líka þótt það væri ekki algilt. En axlataskan kom ekki fyrr en heimstyrjöld hafði skekið heiminn og hún varð til af illri nauðsyn. Konurnar þurftu að bera á milli sjúkragögn og hafa hendurnar lausar til að aka bíl eða sinna særðum og þá var gott að geta ýtt töskunni aftur á bakið. Þegar konur höfðu á annað borð uppgötvað hagræðið af því að hengja töskuna á öxlina var ekki aftur snúið. Og nú fór taskan að síga í. Auk vasaklútsins, varalitarins og púðurdósarinnar voru komnir lyklar, buddur, snyrtiveski, minnisbækur, slæður, hanskar, ilmvatnsglös og ýmislegt fleira í töskuna.
Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar rann upp sannkallað vaxtar- og blómaskeið kventöskunnar. Ekki var nóg með að fleiri gerðir og stærðir væru til en nokkru sinni fyrr heldur fengu töskurnar fleiri og fleiri hlutverk. Þær urðu að skólatöskum, sundtöskum, barnatöskum og ótal önnur gervi tóku þær á sig. Konur sem ólust upp á þessum árum minnast þess að ömmur þeirra og mömmur tóku til í handtöskum sínum einu sinni á ári eða um það bil og iðulega leyndist hitt og þetta á botninum. Hver kona átti líka margar töskur og ef tekin var fram aftur taska sem ekki hafði verið notuð lengi kom hugsanlega upp úr henni ógild mynt, húslykill að fyrra heimili eigandans og þriggja ára gamall miði frá skósmiðnum. Ilmurinn upp úr þessum töskum var einnig allsérstæður en anganin af Chanel no: 5 eða Worth sat oft í fóðrinu. Það var líkt og að hitta á töfrastund að vera viðstaddur þegar mamma eða amma tóku til í töskunni sinni og stundum áskotnaðist barninu þá gamall varalitur, tóm púðurdós eða smáaurar fyrir nammi.
Hippinn og hispursmeyjan
Hippastúlkan með risatöskuna (sem leit út eins og hún væri gerð úr gamaldags gólfteppi) gekk skökk því svo vel seig taskan í. Ef kíkt væri í tösku hennar kenndi þar án efa margra grasa. Við sæjum ábyggilega mussu til skiptanna, bók um sjálfbæra ræktun eða kommúnur, kommúnistaávarpið, hárband, blóm, hárbursta og eitthvað sem tengdist henni einni. Nútímakonan á margar töskur af ótal stærðum og engu er líkara en að sumar séu alltaf að flytja búferlum því töskurnar þeirra eru á stærð við þær sjálfar. Konur í dag bera dagbækur, snyrtiveski, hárgreiður, pappírsþurrkur, tölvur, farsíma, nafnspjöld, varasalva, hanska, húslykla, sólgleraugu og peningabuddur í handtöskum sínum. Sumum fylgja auk þess bleiur, Baby Wipes, hálstöflur, ofnæmislyf, naglsnyrtisett og fleira og fleira.
Öll tískuhús sem eitthvað kveður að senda frá sér handtöskulínu árlega. En flest þeirra hafa einnig náð að skapa klassískar töskur sem allar konur þrá. Nefna má Birkin-töskuna frá Hermes sem kemur alltaf aftur og aftur og er til í ótal litum. Nokkrar af helstu stjörnum Hollywood eiga hana í fleiri en einum lit og nota þá útgáfu sem passar best við klæðnað þeirra þann daginn.
The Muse eða músan frá YSL er annað dæmi um tösku sem alltaf stendur fyrir sínu og mörg konan væri tilbúin að grípa til óyndisúrræða til að eignast eina slíka. Sú klassíska frá Chanel eða the Classic er alltaf falleg og passar við allt. The Fendi B er dásamleg taska og það er Marc Jacobs Stam líka. The Paddington frá Chloé er ein sú allra sætasta og The Novak eftir Alexander McQueen var nefnd eftir hinni glæsilegu Kim Novak. The Gaucho frá Dior er aftur kennd við suður-ameríska kúreka og ekki að ástæðulausu. Nýjustu fréttir úr töskuheiminum herma svo að handtaska eins og Margaret Thatcher bar njóti nú gríðalegra vinsælda en sennilega kemur fæstum á óvart að hún er mjög íhaldssöm í útliti.
En hvernig sem taskan lítur út og hvort hún er dýr eða ódýr veldur hún karlmönnum jafnmiklum heilabrotum. Þeir skilja ekki til hvers konur þurfa allt þetta dót og eru á því að margt mætti verða eftir heima. En karlmenn hafa heldur aldrei og munu líklega aldrei geta metið til fulls það flókna og dularfulla samband sem kona á við handtöskuna sína.
Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.