Hjartaáfallið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti

„Það hafði snjóað um nóttina og ég fór út að moka tröppurnar uppúr klukkan 10 um morguninn. Þá fór ég að finna fyrir óþægindum í handarkrikanum, sem breyttust smátt og smátt í óþægilega stingi. Þegar ég kom aftur inn var þetta liðið hjá.  Ég hafði eins og aðrir heyrt um það sem gerist þegar menn eru að fá hjartaáfall. Atriði eins og að menn fái brjóstverk og að verkurinn geti leitt út í handlegg, jafnvel niður í maga,  undir bringspalirnar og út í kjálkana.  En ég hafði aldrei heyrt um að menn fengju sting í handarkrikann.“, segir Guðmundur Arnaldsson viðskiptafræðingur sem fékk kransæðastíflu í upphafi ársins.

Fékk verk í handarkrikann

Guðmundur hefur alla tíð hreyft sig mikið. Hann var alltaf á iði og hefur alltaf haft mikið fyrir stafni.  Var mikið í íþróttum sem barn og unglingur og hélt því áfram eftir að hann varð fullorðinn, var til dæmis bæði í blaki og badminton. Kenndi blak og þjálfaði blaklið í fjölda ára, þó ekki færi hann út í atvinnumennsku.  Hann taldi sig við góða heilsu þegar hann fékk hjartaáfallið.  Hann hélt að verkurinn í handarkrikanum myndi bara líða hjá og fannst ekkert vera að sér. En þegar hann fór í gönguferð ásamt konunni sinni seinna um daginn kom verkurinn aftur. Þá fann hann líka pirring í handleggnum og einhvers konar náladofa.  „Konan vildi að ég talaði við lækni, eða færi niður á Hjartagátt“.  Af því varð ekki og morguninn eftir var Guðmundur mættur til að spila badminton við barnabörnin sín og tengdasyni, en annar þeirra er læknir. „Ég byrjaði að spila við barnabörnin, en fór svo að spila við tengdason minn. Þá fór ég að taka meira á og fékk aftur sama verkinn í  handarkrikana. Svo ég spyr hann hvort þetta gæti verið eitthvað út frá hjartanu. Hann sagði að það gæti verið, en væri samt óvenjulegt.  Þá finn ég að það fer að draga af mér, ég fer fram til að fá mér vatn og hann kemur með mér.  Það dregur áfram af mér og ég segi „Ég ætla að halla mér hérna“.  Heyrðu Mummi spyr þá tengdasonur minn, treystir þú þér til að keyra niður á sjúkrahús. Ég sagði að ég treysti mér ekki til þess og um leið og ég sagði það, varð mér ljóst að eitthvað var að, því undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði ég treyst mér til að keyra.

Sendur í hjartaþræðingu

Tengdasonur Guðmundar hringdi á sjúkrabíl, sem var kominn á staðinn fimm til tíu mínútum síðar og þá var strax farið að huga að honum, taka blóðþrýstinginn, gefa lyf og þess háttar. „Mér var ekið niður á Borgarspítala, þar sem tengdadóttir mín sem er hjúkrunarfræðingur tók á móti mér, og þar var tekin blóðprufa, en grunurinn beindist að hjartanu.  Ég var settur í TNT mælingu, sem er mæling á hjartaensímum, en þau hækka þegar hjartað fær ekki nægt súrefni“. Eftir þrjár slíkar mælingar, þá síðustu hjá Hjartagáttinni niður á Landsspítala, var ljóst að magn hjartaensímanna hjá Guðmundi hafði tífaldast, farið úr 500 í fyrstu mælingunni  í 5000 í þeirri þriðju.  Guðmundur var því drifinn í hjartaþræðingu um kvöldið og aðra þræðingu nokkrum dögum síðar því  vinstri slagæðin reyndist lokuð og sú hægri lokuð að 90 prósentum.

Upplifði mig ekki sem veikan en var fárveikur

„Ég er kannski ekki gott dæmi“, segir Guðmundur „vegna þess að ég verð aldrei veikur og ég upplifði mig alls ekki sem veikan, það var bara eitthvert vesen með hjartað. En auðvitað var ég fárveikur og eftir á að hyggja skynja ég að ég var við dauðans dyr. Ef ég hefði verið staddur upp í sumarbústað eða einhvers staðar annars staðar, hefði ég kvatt þetta líf.  Það var ótrúlegt hvernig þetta atvikaðist“.  Hann segist oft hafa verið spurður að því eftir hjartaáfallið  hvort hann hefði aldrei orðið var við neitt áður en þetta gerðist. „Það eina sem kemur örlítið upp í hugann, er að ég hef alltaf verið mikið í sumarbústaðnum mínum á sumrin og unnið mikið þar. Sumarið fyrir áfallið hafði ég verið að hlaða stóran grjótvegg, sem var mikil vinna og reyndi mikið á. Ég fór gjarnan í pottinn þegar vinnunni lauk á kvöldin og hafði orð á því að ég væri þreyttari en ég var vanur að vera. Ég afgreiddi það þannig að ég væri að nálgast sjötugt og ekki í jafn góðu formi og áður“.

Einn dagur getur ráðið úrslitum

Guðmundur segist halda að  þreytan hafi veri vísbending um æðaþrengingu.“Ég myndi vilja segja við fólk sem finnur fyrir þreytu eða mæði, að það ætti að fara niður á Hjartagátt og láta tékka á sér. Einn dagur getur ráðið úrslitum um líf eða dauða. Ég var heppinn að sleppa í gegnum þetta, en það var ekki mér að þakka, heldur hrein tilviljun. Ég er einn af þessum körlum sem er aldrei neitt að. Auðvitað var mér ljóst að ég gæti lent í ýmsu eins og annað fólk, en að ég fengi hjartaáfall kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég hugsaði einhvern veginn eins og svo margir, að þetta kæmi bara fyrir aðra“.

Maður er ekki ódauðlegur eða eilífur

Eftir hjartaþræðinguna fór Guðmundur í endurhæfingu á Reykjalund í 5 vikur. „Þessi endurhæfing undir stjórn Magnúsar R. Jónssonar  er alveg mögnuð.  Mér fannst ég kominn aftur í MA og var í íþróttum allan daginn. Fræðslan var einnig góð. Það var ótrúlegt að vera þarna, ég fór að heiman frá mér í Hafnarfirðinum klukkan rúmlega sjö á morgnana og var búinn klukkan fjögur og fór þá heim aftur.  Um áhrif þess að fá hjartaáfall segir hann:„Já þetta voru ákveðin skilaboð, sem höfðu áhrif að því leyti að maður skynjaði að maður er ekki ódauðlegur eða eilífur eins og maður hélt. Ég veit að ég er kransæðasjúklingur og verð það ævilangt. Svarið sem flestir búast við, er að maður hafi farið að meta lífið meira, en ég hef alltaf elskað lífið og kunnað að meta það sem ég hef. En kannski hefur sá skilningur dýpkað enn við þetta áfall. Ég umbylti ekki lífi mínu útaf kransæðastíflunni. Ég get þrátt fyrir allt gert allt sem ég vil gera, en þarf að passa mig á ákveðnum hlutum. Ég finn ekki fyrir því að ég sé veikur, en veit að ég er það“.

Ekki láta hægindastólinn og rúmið hafa forgang

Guðmundur fer núna tvisvar í viku í æfingaprógramm hjá HL stöðinni og mælir eindregið með því. „Maður er ekki að hreyfa sig nóg alla daga þó maður haldi það“, segir hann og bætir við að það sé erfiðast að setja reglulega þjálfun inn í sitt daglega líf. „Ég er sannfærður um það eftir þetta áfall að maður á að hreyfa sig daglega. Þó menn séu hættir að vinna, eiga þeir ekki að sofa til 10 á morgnana og vera sama um hvenær þeir fara á fætur. Það er algert „möst“ að koma hreyfingunni inn í daglegt líf. Þegar upp er staðið skipta hreyfing og mataræði gríðarlegu máli.  Það má alls ekki láta hægindastólinn og rúmið hafa forgang þegar fólk hættir að vinna“.

 

 

Ritstjórn október 6, 2016 11:04