„Ég er fullkomlega sátt við hætta sem formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Þetta er búinn að vera ánægjulegur tími, mér hefur aldrei leiðst í vinnunni, ekki einn einasta dag. Maður þarf að hafa í huga að allt sem á sér upphaf á sér líka endi. Þrátt fyrir að mér finnist ágætt að hafa eitthvað að glíma við og láta heyra í mér ætla ég að taka mér gott hlé enda komin á lífeyrisaldur. Nú er kominn tími til að rækta sjálfa mig, manninn minn, börnin, barnabörnin og 2 tilvonandi langömmubörn,“ segir Kristín Á Guðmundsdóttir fráfarandi formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Fékk ekki tækifæri til að mennta sig
Kristín hefur verið einn farsælasti verkalýðsleiðtogi þjóðarinnar síðustu áratugina. Undir hennar forystu hefur Sjúkraliðafélagið blómstrað og náð fram mörgum af baráttumálum sínum. Kristín er fædd og uppalin á bænum Mið-Grund undir Vestur -Eyjafjöllum. Faðir hennar lést þegar hún var 12 ára, þá stóð móðir hennar 38 ára gömul, ein uppi með sjö börn á framfæri. „Við elstu börnin höfðum ekki tækifæri til að mennta okkur. Það var þörf fyrir starfskrafta okkar í búskapnum. Við fórum snemma að vinna, ég man eftir mér í dráttarvélinni þegar ég er sjö ára að keyra á milli úti á túni. Þegar mamma var orðin ein með barnahópinn varð þetta enn erfiðara. Hún hafði engin tök á því að senda okkur í heimavistarskólann á Skógum. Hún hafði ekki fjárhagslega burði til þess og hún mátti heldur ekki missa okkur af búinu, það var þörf fyrir starfskrafta okkar þar. Við elstu systurnar þrjár gengum því ekki menntaveginn. Það var ekki fyrr en það kom að yngri systkinum mínum sem hún hafði fjárhagslega burði til að senda þau í heimavistarskóla. Mig langaði hins vegar mjög mikið til að mennta mig. Þetta mótaði mig og lagði grunninn að pólitískum skoðunum mínum. Mér fannst þetta allt vera menntamálaráðherra að kenna sem þá var Gylfi Þ. Gíslason. Ég var komin á fremsta hlunn með að skrifa honum og biðja hann um að leiðrétta þetta óréttlæti. Ef einhver hefði skorað á mig að gera það hefði ég að öllum líkindum látið verða að því. Mömmu tókst nú samt sem áður að halda saman fjölskyldunni sem var meira en margir gátu gert á þessum árum. Ég held að ástæða þess hafi verið sú að við bjuggum í sveit.“
Kynntist manninum í sláturhúsi
Eins og mörg önnur sveitabörn fór Kristín snemma að vinna í sláturhúsi. Þangað fóru sveitakrakkar og unnu sér inn peninga á haustin. Þar kynntust krakkarnir líka þvert á hreppa og sveitir, þetta var svona ákveðinn markaður fyrir einhleypa unglinga. „Í sláturhúsinu í Djúpadal hitti ég Diðrik Ísleifsson frá Hvolsvelli. Með okkur tókust svo enn nánari kynni á réttarballi í Gunnarshólma í Landeyjum. Ég var nú ekki nema 16 ára þegar þetta var, hann fjórum árum eldri. En síðan höfum við verið saman. Diðrik flutti með foreldrum sínum til Reykjavíkur stuttu eftir að við kynntumst. Þá var ég farin að vinna á Landspítalanum sem gangastúlka en spítalinn útvegaði mér herbergi í Engihlíð og við héldum áfram að hittast. Ég varð ófrísk að elstu dóttur okkar, átti hana í október 1967 og við Diðrik fluttum svo saman í febrúar árið eftir. Þetta er því orðin löng vegferð sem við höfum átt saman,“ segir Kristín.
Diðrik lærði bílamálun og starfaði við hana um hríð. Hann hafði hins vegar áhuga á smíðum og lærði til þeirra starfa. Hann vann svo hjá Ístak í um 30 ár. „Hann er eins og ég starfar lengi á sama stað,“ segir Kristín og skellihlær. Kristín hélt áfram að vinna á Landspítalanum en þar kom að Diðrik langaði að breyta til og þau fluttu til Svíþjóðar. Þá voru börnin orðin þrjú. „Við fluttum til Kristianstad og þar fór ég að vinna sem ófaglærður starfsmaður á geðdeild sjúkrahússins. Þegar ég kom heim fór ég að vinna á Hrafnistu og ákvað þá að drífa mig í námið. Ég hafði ekki aðra menntun en barnaskólaprófið svo ég fór í gegnum Námsflokka Reykjavíkur og þegar ég útskrifaðist þaðan lá leiðin í sjúkraliðanámið. Ég var því orðin 32 ára þegar ég útskrifaðist en sá aldrei eftir því, af því mér þótti námið svo áhugavert og skemmtilegt,“ segir Kristín.
Þegar blaðamaður spyr Kristínu hvort henni hafi ekki fundist fýsilegt að setjast að í Svíþjóð fer hún að hlæja og segist alltaf hafa verið á móti því að flytja. „Diðrik langaði hins vegar að breyta til og þess vegna fórum við út. Ég sá fyrir mér að ef við myndum ílendast úti yrðu börnin mín Svíar og ég er svo mikill Íslendingur í mér að ég gat ekki hugsað mér það. Ég ætlaði ekki að fara að eignast einhvern sænskan tengdason. Svo þar kom að það var annaðhvort að taka ákvörðun um að flytja heim eða kaupa hús úti og við tókum þá ákvörðun að fara heim.“
Baráttan við BSRB
Eftir að Kristín útskrifaðist sem sjúkraliði fór hún að vinna á skurðstofu á Landspítalanum og vann þar næstu 15 árin. Fljótlega eftir að hún fór að vinna þar var hún beðin um að verða aðaltrúnaðurmaður á spítalanum og þar með var brautin mörkuð. Hún var kosin í stjórn Sjúkraliðafélagsins og varð varaformaður félagsins í tvö ár. „Þegar ég tók sæti í stjórn félagsins var félagið fagfélag sem hafði ekkert með kjara- eða réttindamál félagsmanna að gera. . Ég ákvað að gefa kost á mér til formanns og náði kjöri. Stóra verkefnið var að stofna stéttarfélag. Sjúkraliðar voru á þessum tíma í 32 félögum innan BSRB vítt og breitt um landið. Samkvæmt lögum þurftu tveir þriðju þeirra að samþykkja stofnun stéttarfélagsins. Það var því ekki hægt að kalla þá saman til fundar. Við brugðum því á það ráð að fara og hitta þá í eigin persónu og fá þá til að skrifa undir að þeir væru samþykkir því að ganga í hið nýja stéttarfélag. Það voru nú ekki allir parhrifnir af þessu því það var mikil blóðtaka fyrir félögin innan BSRB að missa sjúkraliðana út. Við fengum harða gagnrýni en létum það ekki á okkur fá þó baráttan væri oft á tíðum hörð innan BSRB vegna þessa. En félagið stofnuðum við og þá tók næsta skref við og það var að fá kjarasamning við fjármálaráðuneytið. Menn þar á bæ voru ekkert að flýta sér við semja við okkur. Þeir hummuðu það fram af sér í lengstu lög. En á endanum tókst það og fyrsti kjarasamningurinn sem við gerðum í lok árs 1991 gilti í tvo sólarhringa. Mér er allur þessi hasar mjög minnisstæður. En þegar samningar voru í höfn þá fengum við loksins einhverja peninga inn í verkfalls-, sjúkra- og orlofssjóð félagsins frá atvinnurekendum. Sjúkraliðarnir yfirgáfu allt sem þeir áttu þegar þeir fóru úr starfsmannafélögunum innan BSRB. Þaðan fenguþeir ekkert með sér inn í nýja félagið. Þess vegna er ég alltaf jafn stolt af því hvað þessi stétt var framsýn að leggja allt þetta á sig. Það var með ólíkindum hvað við höfðum fólkið á bak við okkur. Mér er líka mjög minnisstætt þegar við keyptum okkar fyrsta orlofshús Sigurhæð í Úthlíð í Biskupstungum.“
Hörð kjarabarátta
Kjarabarátta sjúkraliða hefur oft verið mjög hörð. Þær hafa farið í verkföll, sagt upp störfum og neitað að vinna yfirvinnu til að ná fram bættum kjörum. „Fyrir nokkrum árum náðum við því fram að laun sjúkraliða eru 80 prósent af launum hjúkrunarfræðinga. Það er nokkuð sem má ekki tapast. Menntun sjúkraliða er líka orðin allt önnur og betri en hún var og við erum með öfluga símenntun. Nú tekur grunnnámið sex til sjö annir en var þriggja mánaða nám í upphafi. Ég hef oft verið spurð að því hvers vegna sé ekki farið með menntun sjúkraliða upp á háskólastigið en ég er á móti því. Við eigum að hafa góða grunnmenntun öflugt sérnám á háskólastigi. Nú býðst sjúkraliðum að sérmennta sig í hjúkrun aldraðra, geðhjúkrun, til starfa á skurðstofum og á rannsóknarstofum sjúkrahúsanna og er sú menntun á leið á háskólastig Ég fór sjálf fyrir nokkru í sérnám í hjúkrun aldraðra, ekki af því að ég byggist við að fara að vinna við það, heldur vegna þess að ég vildi vita hvað í náminu fælist þegar ég þyrfti að svara fyrir það. Í dag rekur félagið öfluga símenntun fyrir sjúkraliða við símenntunararmiðstöðina Framvegis, en Framvegis er rekin í samvinnu við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og starfsmannafélag ríkisstofnana.
Múrar á milli stétta
Fyrstu ár Kristínar á formannsstóli var hún í hálfu starfi á Landspítalanum og í hálfu starfi hjá félaginu. Hún segir að það hafi verið mjög gott að því leyti, að henni hafi fundist hún mun nær hinum almenna félagsmanni á meðan hún var enn á spítalanum. En svo hafi það ekki verið hægt lengur því störfin á skrifstofunni hafi stöðugt orðið umfangsmeiri. Hún segir að enn þann dag í dag séu miklir múrar á milli stétta á sjúkrahúsum. Þá þurfi að uppræta. „Þegar ég var í mínu sérnámi þá blasti við mér að hjúkrunarfræðingur er sérfræðingur í hjúkrun og það er hans að skipuleggja hverskonar hjúkrun sjúklingurinn þarf á að halda. Það er síðan sjúkraliðinn sem á að taka við og fylgja þeirri áætlun sem hjúkrunarfræðingurinn hefur lagt upp með. Þarna stendur hins vegar hnífurinn í kúnni, sjúkraliðar í dag eru að vinna þessi störf en það má ekki viðurkenna það. Mér finnst oft að hjúkrunarfræðingar vilji viðhalda þessari stéttaskiptingu með öllum tiltækum ráðum. Ég hef margoft ítrekað það við Félag hjúkrunarfræðinga að við eigum að vinna meira saman. En það hefur ekki verið nægjanlegur vilji til þess af þeirra hálfu. Þetta er sérstaklega nauðsynlegt í allri þeirri manneklu sem er á sjúkrastofnunum landsins. En það er eitthvert óöryggi og minnimáttarkennd gagnvart sjúkraliðum. Það er eins og það eigi helst alltaf að standa á öxlunum á þeim. Kannski er það vegna þess að hjúkrunarfræðingar eru kvennastéttir og vanhaldnar í launum sem slíkar.“
Diðrik er mér stoð og stytta
En nú er nýr kafli að hefjast í lífi Kristínar á næsta þingi Sjúkraliðafélagsins 15. maí nk. hættir hún sem formaður. „Ég kvíði ekki fyrir, ég ætlaði að vera hætt fyrir 2 árum síðan. En þá blasti við að halda upp á 50 ára afmæli félagsins og ég var beðin um að sitja sem formaður áfram til að skipuleggja afmælishátíðina. En ég tilkynnti á síðasta þingi að ég myndi hætta að því loknu. Ég hef því haft ár til að undirbúa mig og láta þetta malla og gerjast í kollinum á mér. Við Diðrik erum flutt út í sveit og þar uni ég mér vel. Þegar Diðrik fór á eftirlaun var hann mikið að velta því fyrir sér hvort það væri ekki einhver staður fyrir utan borgina þar sem við gætum sest að. Við fórum að leita og rákumst á fokhelt hús í Tjarnarbyggð sem er um það bil miðja vegu á milli Selfoss og Eyrarbakka. Það var slegið til og Diðrik ætlaði að hafa það sem áhugamál næstu árin að klára húsið en hann var svo áhugasamur að verkefnið kláraðist á stuttum tíma. Við seldum því húsið okkar í Kópavogi og fluttum austur. Ég er alin upp í sveit og kann mjög vel við mig á nýja staðnum. Við erum komin með vísi að búskap, hænur og hund. Diðrik byggði gróðurhús fyrir mig svo ég hefði eitthvað að gera þegar ég væri hætt hjá félaginu. Nú er ég farin að sá og rækta en ég hef alltaf haft mikla ánægju af gróðri. Það á örugglega eftir að heyrast í mér í framtíðinni. Ég er ekki þannig manneskja að ég geti setið þegjandi þegar óréttlæti blasir við. En næst á dagskrá eru það verkefnin í sveitinni og að sinna mér og manninum mínum sem hefur verið mér ómetanleg stoð og stytta í öll þessi ár.“