Hreyfingarleysi, ofát og streita flýta fyrir öldrun

Enginn fær umflúið dauðann eða skattmann, þetta er það eina sem hægt er að ganga að sem vísu í lífinu. En það er eitt í viðbót sem við getum ekki umflúið sama hversu mikið við þráum það og það er Elli kerling, segir í grein á vefnum agingcare.com. Þar er vitnað til læknisins og rithöfundarins Larry Matson en hann er meðhöfundur bókarinnar Live Young, Think Young, Be Young… at Any Age.

Matson segir að fólk sé á hátindi líkamlegrar getu á aldrinum 30 til 35 ára. Fólki fari svo að hnigna líkamlega en við því sé hægt að bregðast. „Við teljum að það sé í lagi að vera í yfirvigt þegar við erum orðin fertug, komin með nokkra langvarandi sjúkdóma í kringum sextugt og orðin hrum þegar við erum sjötug,“ segir hann en bætir við að aldur sé mælieining á tíma ekki á það hversu gömul við erum í raun og veru.

En ef fólk hugar að heilsunni geti það gert ýmislegt til að finnast það bæði líkamlega og andlega hresst og þar með liðið eins og það sé mörgum,mörgum árum yngra en það er í raun og veru. Hér fylgja ráðleggingar Matsons.

Hreyfingarleysi. Fólk sem hreyfir sig ekki reglulega eldist mun hraðar en hinir sem stunda reglulega hreyfingu. Hreyfingarleysi orsakar líka marga af þeim langvinn sjúkdómum sem herja á fólk. Þó fólk komist ekki í líkamsræktarstöð á hverjum degi er hægt að gera ýmislegt annað í staðinn,  ganga, synda, dansa og svo framvegis. Finnið leiðir til að vera líkamlega virk á hverjum degi, segir hann.

Haldið huganum virkum. Að vanrækja heilabúið er einn þátturinn í því að okkur finnst við eldast hratt, segir Matson. Þegar við eldumst hættum við að nota heilann og tökum ekki einu sinni eftir því. Við erum kannski búin að vera í sömu vinnunni árum saman og sinnum starfinu vel. Á meðan lítill hluti heilans sinnir vinnunni er stærsti hluti hans ónotaður. Þegar við höfum átt erfiðan dag er ekkert sem okkur langar meira til en setjast fyrir framan sjónvarpið og meðtaka það sem borið er á borð fyrir okkur umhugsunarlaust. Fólk ætti að koma sér upp nýjum áhugamálum einhverju sem reynir á heilann, lesa bækur, ráða krossgátur eða sudoku eða læra nýtt tungumál. Eitthvað sem lætur heilann vinna á þann veg sem hann gerir ekki venjulega.

Vandið mataræðið. Ávextir, grænmeti, heilkorn, magurt prótein þið hafið örugglega heyrt allt um hollustu þessara matvæla. Takið mið af því og farið eftir ráðleggingum um mataræði.  En það er ekki nóg, fólk á að borða í núvitund. Borða hægt og rólega. Munið helmingareglunna. Helmingur ánægjunnar við að borða er þegar við tökum fyrsta bitann, ánægjan minnkar svo um helming við hverja munnfylli eftir það. Ofát færir okkur ekkert nema óhamingju.

Óþarfa streita. Langvarandi stress fer illa með fólk. Það getur valdið bólgum í líkamanum og efnaskiptasjúkdómum. Setjist niður og skilgreinið fyrir ykkur hvaða atriði eða aðstæður valda því að þið verðið stressuð. Reynið að forða ykkur frá þessu. Dragið djúpt andann, hugleiðið, farið í jóga reynið að hvílast og áttið ykkur á hvað það er sem færir ykkur hugarró.

Áfengi í hófi. Einhverjar rannsóknir sýna að áfengi í litlum skömmtum geti haft góð heilsufarsleg áhrif. En mörgum hættir að til að drekka allt of mikið og þá eru hin góðu áhrif fyrir bí og áfengið verður skaðlegt.

Óbeinar reykingar. Haltu þig frá fólki sem reykir. Fyrir þann sem reykir ekki er næstum jafn hættulegt að vera innan um reykingafólk og reykja sjálft. Settu þá reglu að það sé ekki reykt í návist þinni.

Að nota lyf í óhófi. Neyttu lyfja í hófi. Ekki taka pillur sem eiga að lækna allt. Fólki sem er að eldast hættir til að gera það. Aðgengi að allskonar lyfjum er allt of mikið að mati Matson. Óhóflegt lyfjaát skaðar fremur en gerir gagn segir hann. Fólk ætti alltaf að vita hvaða lyf það er að taka og við hverju og hverjar aukaverkanir geta verið af hverju lyfi. Margt af því sem verið sé að skaffa lyf við sé hægt að lækna með einföldum lífstílsbreytingum.

Genalotteríið. Þú stjórnar ekki genasamsetningu þinni. En reyndu að kynna þér hvaða sjúkdómar hafa herjað á fjölskyldu þína og ættingja. Rannsóknir benda til dæmist til að það sé hægt að seinka því að fá Alzeimer ef fólk hreyfir sig og endurnærir sálina reglulega. Einfaldar lífstílsbreytingar geta hægt á framgangi margra langvinnra sjúkdóma, segir Matson.

 

Ritstjórn júlí 27, 2022 07:00