Hugræn atferlismeðferð í stað svefnlyfja?

„Miðað við notkun íslendinga á svefnlyfjum má telja líklegt að þúsundir þjáist af svefnleysi hér á landi. Hvort sem um er að kenna streitu eða vitlaust stilltri klukku miðað við hnattstöðu skal ósagt látið,“ þetta kemur fram í grein á vefnum hjartalíf.is Þar er rætt við Hauk Sigurðsson sálfræðing á Heilsustöðinni í Skeifunni. Hann segir:

Rannsóknir síðasta einn til tvo áratugina hefur skilað gríðarlegum framförum í meðferð við svefnleysi og er óhætt að segja að um tímamót sé að ræða varðandi meðferð við þessu algenga heilsuvandamáli. Niðurstöður rannsókna á árangri hugrænnar atferlismeðferðar við svefnleysi hafa margítrekað sýnt að meðferðin er árangursríkasta meðferðin við langvarandi svefnleysi. Sem dæmi sýndu niðurstöður þriggja stórra rannsókna sem hafa birst í Journal of the American Medical Association og Archives of Internal Medicine að hugræn atferlismeðferð var árangursríkari en svefnlyf.

Að meðaltali bætir hugræn atferlismeðferð svefn hjá um 80% af þeim sem ganga í gegnum slíka meðferð og um helmingur þeirra sem nota svefnlyf nær að hætta að taka lyfin.Mikill kostur hugrænnar atferlismeðferðar við svefnleysi er að sá meðferðin hefur engar aukaverkanir og fólk lærir aðferðir sem nýtast til að viðhalda betri svefni til framtíðar. Meðferðin tekur að öllu jöfnu skamman tíma, eða 5 til 8 vikur.

Ólíkt hugrænni atferlismeðferð valda svefnlyf lítilli eða miðlungs bætingu á svefni og oft fylgja svefnlyfjatöku óþægilegar aukaverkanir, sérstaklega hjá fólki sem er 60 ára eða eldra. Meðal aukaverkana eru minnisleysi, róandi áhrif að degi til og lyfjafíkn. Auk þess er vert að taka skýrt fram að langtímanotkun á svefnlyfjum er að öllum líkindum gagnslaus og getur verið hættuleg.Niðurstöður rannsókna benda til að aukinnar dánartíðni þegar um reglulega langtímanotkun svefnlyfja er að ræða.

Greinina í heild er hægt að lesa hér.

Ritstjórn nóvember 10, 2016 13:04