Hrafn Magnússon fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, setti færslu á Facebook þar sem hann sagði að ef hann yrði sendur á eyðieyju og gæti tekið með sér tvær bækur úr fornritunum þá yrði valið auðvelt. Í fyrsta lagi myndi hann taka með sér Sturlungu, amk Íslandssögu Sturlu Þórðarsonar og í öðru lagi Fóstbræðrasögu, yndislega háðsádeilu á hetjudýrkun. Hann spurði svo „Hvaða bækur mundir þú taka með þér á eyðieyju?“
Nokkuð margir svöruðu og voru margar bækur tilnefndar. Njála, Íslandsklukkan, Fjallamenn Guðmundar frá Miðdal og Úrvalsbók HKL „eftir“ Halldór Guðmundsson. Salka Valka, En dag í Österbotten eftir Antti Tuuri. Bekkjarbróðir Hrafns frá Samvinnuskólanum að Bifröst spurði Hrafn. „Hvað með öndvegisritið „Íslenskir samvinnumenn“ eftir Jónas Jónsson, útg. 1939? Gleymdirðu því? – og Hrafn svaraði – „Ég held kæri vinur að ég tæki þá bók alls ekki með mér. Ég mundi deyja úr leiðindum“.
Fleiri bækur voru nefndar til sögunnar svo sem „Ég elska þig stormur, ævisaga Hannesar Hafstein, og Passíusálmarnir. „Á maður ekki að halda sig við fornritin? Þar á ég flest ólesið. Þetta er svo leiðinlegt, nema kannski Grettissaga“, sagði einn þeirra sem svaraði. Hrafn ráðlagði honum að lesa Fóstbræðrasögu og Gerplu strax á eftir, hann yrði ekki svikinn. En þá kom í ljós að hann hafði gefist upp á Gerplu „Held ég reyni ekki aftur“, sagði hann.
Bækurnar Bör Börsson, Góði dátinn Svejk og Stríðsárin 1938-1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson voru nefndar – og svo Anna í Grænuhlíð og Lína langsokkur – Sú sem vildi taka þær með bætti við. „Eins alla sænska Krimma sem ég gæti fundið. Ekki gleyma Shakespeare!“ Menningarsaga Guðmundar Sveinssonar var líka tínd til af manni sem sagðist hafa tekið hana með sér til Ítalíu, Grikklands, Egyptalands og Kína. „Ætli ég haldi ekki áfram að taka hana með til framandi landa? Svo tók ég Ljósvíkinginn/Heimsljós með mér til Krítar og las í skugganum. Ég þarf að lesa hana aftur“.
Líklega telja menn að þeir myndu þurfa að elda mat á eyðieyju því einn þeirra sem tjáði sig, sagðist myndu taka matreiðslubókina Lærið af Helgu Sigurðardóttur og bætti við. „Síðan finndi ég mér einhverja ógurlega leiðinlega, sem entist mér út ævina“.
„Óttaleg forneskja er þetta, Ipad og Storytel myndu duga mér…“ sagði annar. Og enn annar sagði. „Ég tók nú Ofvitann með mér í hjartaaðgerðina í London fyrir margt löngu, það gafst vel. En gæti vel unað mér við ýmsar ritsmíðar Laxnes“.
Svo mörg voru þau orð á Facebooksíðu Hrafns Magnússonar, en hvernig sem blaðamaður Lifðu núna veltir vöngum, á hann óskaplega erfitt að velja bara tvær bækur til að taka með á eyðieyju.