Tengdar greinar

Mest lesið á Lifðu núna árið 2017

Ef marka má mest lesnu greinarnar á Lifðu núna á árinu sem er að líða, er ljóst að réttindamál og breytingar á lífinu við starfslok eru ofarlega í huga lesenda síðunnar.

Langmest lesna greinin var þannig Seldu húsið og búa um borð í skútu hluta úr ári, en þar lýsa þau Egill Ólafsson tónlistarmaður og Tinna Gunnlaugsdóttir fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri lífi sínu eftir að hún hætti starfi sínu sem leikhússtjóri. Þau fundu gamla skútu til kaups í Hollandi og Tinna lýsir því þannig í greininni sem lesa má í heild hér.

Egill spurði mig álits og ég svaraði: “Getur þú, ég meina getum við tvö siglt þessari stóru skútu?” Og hann svaraði með afdráttarlausu jái. Ég varð eiginlega kjaftstopp og það eina sem mér datt í hug að segja var að mér fyndist skútan “sæt”. Við fórum heim til Íslands og hugsuðum okkur um í nokkrar vikur, fengum menn til að taka ástand bátsins út og skoðuðum fjárhaginn. Við vissum bæði að nú var að hrökkva eða stökkva. Ég hafði stundum sagt að einhvern daginn langaði mig að eignast athvarf eða sumarbústað þar sem sæi til hafs og við sáum fyrir okkur að þarna gætum við sameinað drauma okkar. Eignast athvarf, ekki við sjóinn, heldur á sjónum með margbreytilega útsýn  Ég vissi ekki hvað ég var að fara út í þá, sá fyrir mér að ég yrði örugglega skíthrædd og sjóveik, algjör ónytjungur til sjós, en Egill var staðfastur og hvetjandi og mér fannst ómögulegt að fara að guggna svona fyrirfram,” svo Tinna og Egill stukku og sjá ekki eftir því.

Greinin í öðru sæti heitir Verið að hafa af manni hverja krónu Þar segir Eysteinn H. Nikulásson frá því þegar hann og eiginkona hans seldu sumarbústaðinn sinn, og ætluðu að fara að njóta efri áranna. En þá kom á daginn að málið var alls ekki svona einfalt. Sjá alla greinina hér.

Maður er í hálfgerðu áfalli eftir að maður fór að rýna í þetta. Við vorum ekkert að pæla í þessu fyrr en við vorum búin að ákveða að selja og bústaðurinn farinn. Þá kom í ljós að það eru ekki bara greiðslur til okkar hjónanna frá Tryggingastofnun sem falla niður í ár heldur margfaldast fasteignagjöld af einbýlishúsinu á sama tíma. Um leið og við urðum eldri borgarar og vorum hætt að vinna fengum við niðurfellingu á fasteignagjöldum líkt og allir eldri borgarar fá. Gjöldin lækkuðu úr um 30 þúsund krónum á mánuði í 6 til 7 þúsund. En við söluna á bústaðnum hækka fasteignagjöldin aftur upp í það sama og þau voru áður en við hættum að vinna.“

Það er þitt að hafa samband við barnabörnin var í þriðja sæti, en þetta er þýdd grein sem vakti mikla athygli og voru ekki allir sammála um ágæti hennar. En í greininni sem hér má sjá í fullri lengd, segir meðal annars.

Það er sama hvort börnin eru í leikskóla eða komin í framhaldsskóla, algengasta umkvörtun frá öfum og ömmum er að börnin hafi aldrei samband. Svona eru börn og hafa líklega alltaf verið. En sama hvers kyns er, það er á þína ábyrgð að vera í sambandi. „Lykillinn að góðu sambandi við barnabörnin er að halda öllum leiðum opnum til að ræða vð þau“, segir Jodi M. Webb rithöfundur og bætir við að til að það gangi, þurfi að nota aðferðir sem börnin þekkja og svara. Lærið að senda sms og vera á samfélagsmiðlunum. Hringið stöku sinnum. Spyrjið þau um áhugamál þeirra og haldið sambandinu á léttum og elskulegum nótum, segir Jodi.

Önnur grein um það hvernig fólk breytir lífinu þegar það hættir launaðri vinnu, var í fjórða sæti yfir mest lesna efnið á árinu. Hún heitir Gerbreyttu lífi sínu við starfslok. Viðtalið við hjónin sem það gerðu, Gretu Önundardóttur fyrrverandi flugfreyju og Pál Halldórsson fyrrverandi yfirflugstjóra hjá Landhelgisgæslunni má sjá í heild hér.

Greta og Páll voru í stóru raðhúsi á tveimur hæðum í Kópavogi og voru búin að finna út að húsið var orðið of stórt og fannst auk þess orðið leiðinlegt að vera á tveimur hæðum. Til að losa skuldir hefðu þau getað selt húsið en þurft að kaupa íbúð á stöðum í borginni sem þau höfu ekki áhuga á að búa og sættu sig ekki við það. “Svo hryllti mér við hugmyndinni sem mér finnst allt of margir hafa eftir starfslok sem er að setjast fyrir framan sjónvarpið og bíða eftir einhverju,” segir Greta. “Palli átti hugmyndina að kíkja á húsnæði á Selfossi sem mér fannst mjög skrýtið til að byrja með því við þekktum engan í þessu bæjarfélagi. Hér þurftum við að komast inn í alveg nýtt samfélag en eftir að við fundum þetta fallega hús var valið auðvelt. Svo reynist hér vera sérlega gott samfélag og við njótum þess að vera hér.”

Páll og Greta ákváðu því að takast á við alveg nýtt líf og ekki var verra að frá Selfossi var helmingi styttra upp í sumarbústaðinn þeirra en úr bænum og þar dvelja þau löngun stundum. “Þar fyrir utan var húsnæðisverð á Selfossi mun lægra en í Reykjavík svo að við áttum nokkurn mismun sem kemur sér sannarlega vel,” segja þau alsæl með ákvörðun sína.

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlafræðingur hefur skrifað pistla fyrir síðuna sem hafa átt miklum vinsældum að fagna. Einn þessara pistla Að stíga út úr rammanum var í fimmta sæti fyrir mest lesna efnið á síðunni á þessu ári. Sjá pistilinn hér.  Í honum segir meðal annars.

Ég vaknaði í morgun við stolt hanagal, hundsgjamm og í bland við þetta sló kirkjuklukkan átta högg fyrir utan svefnherbergisgluggann. Við eigum augljóslega ekki að sofa frá okkur nýju tilveruna okkar. Eftir margra ára endalausa vinnu ákváðum við, sambýlingurinn og ég, að kaupa okkur flug aðra leiðina til Suður-Spánar. Við vitum ekki hvenær við ætlum heim aftur. Hér erum við nú í íbúð í einu af hvítu þorpunum í Andalúsíu og erum að læra að lifa upp á nýtt. Við skiljum enga og engin skilur okkur. Við höfum hitt tvær stúlkur sem skilja örlítið í ensku – aðrir tala spænsku. Er það ekki verðug áskorun?

Sjötta vinsælasta greinin er grein sem tengist greininni sem var númer tvö á vinsældarlista ársins. Seldu bústaðinn áður en þú ferð á eftirlaun.

Sú sjöunda á listanum er síðan Flóknara þegar fólk tekur saman á síðari hluta ævinnar.

Sú áttunda er Getur borgað sig að flýta töku lífeyris.

Pistill Wilhelms Wessman Greiddi reikninginn fyrir Engla alheimsins var í níunda sæti.

Greinin Fannst ég sjá hana fara var svo í tíunda sæti yfir mest lesna efnið á Lifðu núna árið 2017.

Til að lesa greinarnar sem voru á listanum í 6-10 sæti, þarf að smella á titil þeirra.

Ritstjórn desember 29, 2017 10:31