Hvenær er aldursmunurinn of mikill?

Þessa áhugaverðu fyrirspurn fann blaðamaður Lifðu núna, á bandaríska vefnum aarp, en þar eru margir sérfræðingar sem svara spurningum lesenda um margvísleg mál sem tengjast aldri.

Ég er 63 ára gamall maður og hef verið fráskilinn í 19 ár. Ég hef hitt nokkrar konur á þessum árum og átt mjög góð sambönd en þau hafa ekki enst. Mín spurning er: Á hvaða aldri eru konur orðnar of ungar fyrir mann á mínum aldri? Ég hitti yndislega unga konu og við eigum margt sameiginlegt og mörg sameiginleg áhugamál. En hún er bara árinu eldri en dóttir mín sem er 37 ára. Er það of ungt fyrir mig? Kveðja BK

Kannski ástarævintýri aldarinnar

Dr. Swartz, sem svarar svona fyrirspurnum fyrir aarp segir:  Þú veist svarið við þessari spurningu sjálfur. Hugsaðu málið, hvað getur þú veitt konu sem er svona miklu yngri en þú? Veistu hvað vakir fyrir henni? Þá á ég ekki við hvernig hún hegðar sér, heldur hvað hún vill fá út úr lífinu? Þetta samband gæti verið ástarævintýri aldarinnar, það eru alltaf undantekningar. Ég þekki dæmi um frábært samband þar sem aldursmunurinn er 24 ár. Að því sögðu, eru yfirleitt einungis tvær ástæður fyrir því að kona kýs að vera með manni sem er svona miklu eldri en hún. Öryggi og peningar.

Hvað fyndist þér um 75 ára konu?

Já ég veit að þetta hljómar harðneskjulega og stundum er vissulega ást með í spilinu. En hugsaðu málið. Myndir þú vilja vera með konu sem er níræð? Hvað um yngri konu, segjum 75 ára? Það eru margar yndislegar konur á þessum aldri á lausu, klárar og skemmtilegar. En þú hefur ugglaust ekki verið að svipast um eftir eldri dömum af alveg ákveðnum ástæðum. Ef 75 ára kona virðist of gömul, mundu að eftir 10 ár verður þú kominn á þennan aldur, en konan sem þú ert hrifin af núna verður þá innan við fimmtugt. Hversu líklegt er að hún muni elska þig þegar árunum fjölgar og þú verður að horfast í augu við allar þær breytingar sem fylgja aldrinum. Sérðu fyrir þér að hún muni eyða öllum sínum tíma í að annast þig í ellinni, ef þörf krefur?

Orðinn gamall en makinn í fullu fjöri

Persónulega finnst mér gott að makinn minn skilji og finni til með mér þegar ég er með eymsli í bakinu. En þó hann hefði alveg sérstaka hæfileika til að hjúkra, elska og fórna sér fyrir mig, myndi ég hafa af því áhyggjur að ég yrði látinn róa, eða að hann færi að halda fram hjá mér, ef ég væri orðinn gamall en hann væri enn í fullu fjöri. Það er líka hægt að orða þetta öðruvísi. Ef ég elskaði einhvern myndi ég vilja að hann nyti lífsins á meðan hann gæti, en væri ekki bundinn yfir mér og mínum vandamálum þegar ég væri væri kominn um áttrætt og þar yfir.

 

Ritstjórn mars 1, 2023 07:00