Tengdar greinar

Hverju á að fleygja og hverju ekki?

Maðurinn hefur tilhneigingu til að safna að sér alls konar hlutum og á heillri mannsævi getur það orðið yfirþyrmandi sem safnast upp. Margir taka sig reglulega til að fara í gegnum safnið, gefa, endurnýta og fleygja. En það er ekki sama hverju er fleygt og hvað er geymt. Ýmsir hlutir auka verðgildi sitt með árunum og eiga sögulegan sess.

Meðal þess sem aldrei á að henda eru gripir úr eðalmálmum, smápeningar, myndavélar, leikföng og postulín. Stundum eru til inni á heimilum erfðagripir eða gjafir sem eigandanum þykja ekki fallegir. Þá þvælast þeir bara fyrir og það er freistandi að koma þeim í Góða hirðinn eða leyfa ruslatunnunni að gleypa þá. Það ætti hins vegar aldrei að gera að óathuguðu máli. Söfnunarárátta er manninum eðlislæg en sumt er líklegra til að ná vinsældum meðal safnara en annað.

  1. Gömul ritföng. Pennar, blýantar og litir fyrir tíð kúlupennans og fjöldaframleiðslu eru í dag vinsæl á netmörkuðum.
  2. Hnífapör, silfurkönnur, bakkar, ker og bollar eru í þessum flokki. Koparmunir og brasshlutir eiga líka sín tímabil og þessir málmar koma og fara úr tísku.
  3. Gamlar reykjarpípur og kveikjarar. Þótt reykingarfólki fari fækkandi og neysla tóbaks verði sífellt minni eru margir sem safna ýmsu tengdu þessari fíkn sem eitt sinn var svo almenn.
  4. Skartgripaskrín. Þessar hirslur halda verðgildi sínu ótrúlega vel og sumar verða verðmætari með árunum.
  5. Myndavélar og búnaður tengdur ljósmyndun.
  6. Leikföng. Eitt af því sem er mjög vinsælt að safna eru leikföng frá ýmsum tímum og þau þurfa alls ekki að vera gömul. Í dag er vinsælt að selja He-man, Star Wars og Barbie-dúkkur á netinu. Leikfangabílar eru sömuleiðis klassískir og legókubbar. Lukkutröll voru mjög í tísku fyrir skömmu og þeirra tími mun áreiðanlega koma aftur.
  7. Postulín og glervara. Gamalt postulín ber í sér mikla sögu. Mjög hefur dregið úr framleiðslu postulíns í Evrópu og margar stórar verksmiðjur farnar að framleiða vörur sínar í Austurlöndum. Það gerir það að verkum að gamlir postulínsmunir frá evrópskum verksmiðjum verður mjög verðmætt. Hið sama má segja um glermuni frá virtum verksmiðjum eins og Holmgard, Kosta Boda, Murano og fleirum.
  8. Úr og skartgripir. Málmur og margir skrautsteinar í skartgripum geta haldið verðgildi sínu þótt það sé orðið gamalt og fegurð þess tekin að dofna. Sumt er hægt að fríska upp og hreinsa en annað má nota í nýsmíði. Auk þess njóta sumir hönnuðir og gullsmiðir mikillar virðingar og allt eftir þá þess vegna verðmætara.
  9. Gamlir peningar. Þótt margir smápeningar séu verðlitlir eða verðlausir leynast alltaf inn á milli aurar sem eru einhvers virði.

Skemmdir ekki fyrirstaða

Ef skrautmunir eða annað skemmist á heimilinu eru margir fljótir að fleygja því. Það er ástæðulaust. Leirmunir, postulín, glervara og listaverk geta haft sögulega þýðingu og í þeim liggur verðmæti þótt það sé skemmt. Vissulega væru gripirnir dýrari ef þeir væru óskemmdir en þótt eitthvað vanti á. Það ætti heldur aldrei að henda einhverjum hluta gamalla muna. Sum úr og skartgripir eru verðmætari í upphaflega boxinu en án þess.

Merkið skiptir máli

Merkjavara í fatnaði og fylgihlutum er likleg til að halda verðgildi sínu og jafnvel verða verðmætari ef vel er farið með hana. Ákveðnar handtöskur, belti, skór og skartgripir flokkast undir klassíska hönnun og eru mjög eftirsótt. Slíkir munir ganga kaupum og sölum á netinu og menn ættu alltaf að prófa að setja myndir af hlutunum þar inn áður en þeir ákveða að losa sig við þá.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 24, 2025 07:00