Ertu verkefni?

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar  

gudrunsg@gmail.com            

Stundum heyrir maður fólk segja; ég verið að heimsækja mömmu eða þess vegna pabba, ömmu og svo framvegis. Þessi orðanotkun bendir til þess að heimsóknir til foreldra og ættingja séu í sumum tilvikum orðnar að verkefnum sem ber að sinna en eru kannski ekki það sem umrætt fólk vildi helst gera við tíma sinn.  Þetta finnst mér sorgleg niðurstaða á samvistum. Hvorki er skemmtilegt að „þurfa“ að heimsækja einhvern né heldur er skemmtilegt að vera orðinn „verkefni“ hjá öðrum – þótt náskyldur sé.

Eðlilega erum við öll verkefni í einhverjum skilning t.d. hjá kennurum, læknum, í banka, í verslunum og þannig mætti lengi, lengi telja. En það er afskaplega dapurlegt ef niðurstaða náskyldra er að þeir verði verkefni hver hjá öðrum. Þetta getur nefnilega líka verið á hinn veginn – stundum heyrir maður ömmur og afa og önnur skyldmenni tala um að þau „verði að fara“ og horfa á barnabarnið dansa, syngja, leika á hljóðfæri, leika í leikritum eða eitthvað annað sambærilegt.

Líka þreytist eldra fólk á að vera sífellt að halda uppi eða styðja börn sín langt umfram það sem eðlilegt má teljast og  á sama hátt þreytast fullorðin börn á að þurfa sífellt að aðstoða foreldra sína við verk sem þeir eru kannski fullfærir um að sinna sjálfir og hafa ekkert nema gott af að halda sér þannig „í formi“. Ef slíkt kemur upp og linnir ekki eðlilega þá er best að setjast niður og ræða málin án þess að upp komi leiðindi eða fólk móðgist.

En hvernig á maður að varast að verða að verkefni hjá einhverjum sér nákomnum? Sjálfsagt eru til margar aðferðir til þess, líklega er ein sú mikilvægasta, að vera og halda áfram að vera til í sjálfum sér. Aldrei að falla í þá gryfju að líta á sig sem ónýtt drasl. Leyfa ekki öðrum að telja það til góðverka að tala við þig eða sinna þér. Mikilvægt er á öllum aldri að halda góðri sjálfsmynd. Ekki láta aðra segja sér hvernig maður er heldur finna það inni í sjálfum sér.

Gott er að hafa í huga þá gullnu reglu að þeir eru með manni sem vilja vera með manni og það sama gildir um mann sjálfan – maður er með þeim sem maður vill vera með, burtséð frá skyldleika eða annarskonar tengslum.

Aldur er afstæður að sumu leyti. Sumir virðast vera „síungir fram í andlátið“, eins og það er stundum orðað, aðrir virðast „fæddir gamlir“ og hugsa jafnvel um sig á þann hátt. Á hvaða aldri sem fólk er þá ber að forðast að taka því að vera álitinn „verkefni“. Undanskildar eru þó aðstæður þar sem miklu viðvarandi heilsuleysi er til að dreifa, andlegu eða líkamlegu. En jafnvel við slíkar kringumstæður þarf að vera vakandi yfir hlutverkaskipaninni. Það er þýðingarmikið að leyfa sér ekki að verða „verkefni“ skyldmenna eða vina né heldur að líta á nákomna sem „verkefni. Það kann aldrei góðri lukku að stýra.

 

 

Guðrún Guðlaugsdóttir desember 2, 2019 07:56