Hvernig upplifir gamalt fólk ellina?

Aukinn aldur hefur oft í för með sér krefjandi breytingar sem erfitt getur verið að undirbúa sig undir og sumar hverjar geta haft í för með sér strembnar afleiðingar. Hvenær slíkar breytingar verða á lífsgæðum er mismunandi eftir kynjum, þjóðfélagshópum og samfélagsgerð. Nýlega var gerð könnun í Noregi sem leiddi í ljós áhugaverðar staðreyndir varðandi það hvernig fólk upplifir aldur og það sem hann hefur í för með sér. Niðurstöðurnar voru bornar saman við svör úr sambærilegri langtímarannsókn og margt má læra af því hvað fólk hafði að segja um aldursskeiðið eftir fimmtugt.

Katharina Herlofson hjá Velferðarrannsóknarstofnuninni NOVA, OsloMet sagði í viðtali við Vi over 60 að konur upplifi fleiri breytingar en karlar og að eldra fólk með litla menntun sem eigi ekki miklar eignir upplifi fyrr umskipti á kjörum sínum en hinir. Rannsakendur á vegum NOVA, Akershus háskólasjúkrahúsinu og Lýðheilsustofnun Noregs skoðuðu sérstaklega hvaða breytingar á lífsstíl og lífsaðstæðum eru dæmigerðar á efri árum. Meðal þess sem tekið var með í rannsókninni voru starfslok, breytingar á heilsu og minnkuð virkni, missir náinna fjölskyldumeðlima og flutningar. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvað breytingarnar geta þýtt fyrir lífsgæði á efri árum.

Til að kortleggja breytingarnar notuðu vísindamennirnir gögn úr norskri rannsókn á lífsskeiðum, öldrun og kynslóðum (NorLAG). Niðurstöðurnar sýndu að konur höfðu gengið í gegnum fleiri breytingar en karlar fyrr og einnig að kynjamunur jókst með aldri. Þessi kynjamunur stafar að mestu leyti af mismunandi heilsufari og dánartíðni, sem stuðla að því að konur þurfa að takast á við minnkaða virkni og missi maka oftar en karlar. Aldraðir með litla menntun voru einnig líklegri til að hafa gengið í gegnum fleiri breytingar en þeir með mikla menntun. Ólíkt kynjamuninum hélst menntunarmunurinn nokkurn veginn sá sami með hækkandi aldri.

Ýmsar breytingar á lífinu geta valdið einmannaleika.

Sumir standa frammi fyrir breytingum snemma á efri árum

Breytingar sem gjarnan fylgja aldri áttu sér stað tiltölulega snemma hjá nokkrum þátttakendum. Meðal yngri aldurshóps eldri borgara, til dæmis, greindu 10 prósent frá takmörkunum á daglegum athöfnum jafnvel áður en þeir urðu 60–64 ára. Önnur 9 prósent voru háð slíkum takmörkunum á því tíu ára tímabili sem þeim var fylgt eftir. Meðal breytinga voru minnkuð hreyfigeta, verri sjón, heyrnarmissir og léleg tannheilsa. Margir glímdu við sjúkdóma eins og gigt og í sumum tilfellum voru stoðkerfisvandamál tilkomin vegna þess að fólk var í umönnunarhlutverki gagnvart ástvini.

Missir maka eða náinna tengsla við aðra er samkvæmt könnuninni talsvert algeng áskorun. 34 prósent svarenda í NorLAG höfðu misst einn náinn fjölskyldumeðlim á því tíu ára tímabili sem þeim var fylgt eftir, 12 prósent höfðu misst tvo eða fleiri. Þrátt fyrir missinn héldust lífsgæði almennt há á tímabilinu eða að stór hluti náði að endurheimta þau að stórum hluta. Á kvarða frá 1 til 10 var meðaltalið 8,5. Þetta átti sérstaklega við um þá sem nutu góðrar heilsu og ræktuðu sambnad við nána vini eða eignuðust annan maka. Fyrir þá sem misstu maka án þess að nokkuð kæmi í staðinn voru lífsgæðin hins vegar nokkuð skert.

Þegar maki deyr skapar það sálrænar áskoranir. Einn af hverjum fjórum átti á hættu að þjást af  þunglyndi eftir að hafa orðið ekkja eða ekkill, samanborið við einn af hverjum tíu meðal þeirra sem enn áttu maka á lífi. Áhrifin komu verst niður á þeim sem hafa litla menntun og rannsakendur töldu að skýringuna á því væri að finna í að þeir hefðu ekki sömu möguleika á að nýta sér aðstoð og þekktu ekki eins vel þau úrræði sem samfélagið býður til aðstoðar.

Hvað telja aldraðir sjálfir mikilvægt til að njóta góðrar elli?

Í persónulegum djúpviðtölum við aldraða sem búa heima kom fram að flestir höfðu áhyggjur af umskiptunum úr því að vera í fullri vinnu yfir í að hætta alveg að vinna og fara á eftirlaun. Þeir töldu mikilvægt að tryggja samfellu í daglegu lífi og lögðu sig því sérstaklega fram um að viðhalda tengslum við samstarfsfélaga eða starfsumhverfi sitt og fag með því að viðhalda áunninni færni, tengslanetum og halda í rútínuna.

Fólk taldi til dæmis mikilvægt að vakna ætíð á sama tíma, fylgjast með hvað væri að gerast á vinnustaðnum og í faginu og halda sömu matmálstímum, hreyfingu og viðhaldi á heimilinu og áður.

Heimili og nærumhverfi verða að vera aldursvænt

Fólk skapar sér yfirleitt heimili snemma á ævinni og mjög mismunandi er hvort húsnæðið henti því jafn vel þegar aldurinn færist yfir. Þá er ekki nóg að líta bara til íbúðarinnar sem slíkrar heldur þarf nærumhverfið einnig að vera með þeim hætti að það henti ef heilsufarsvandi steðjar að eða aldurinn er tekinn að hamla færni. Langflestir vilja vera áfram á sínu heimili sem lengst en breytingar í hverfinu eða hjá þeim sjálfum geta gert það að verkum að þeir neyðist til að velja um að aðlagast eða flytja.

Margir lýstu óvissu um þarfir sínar hvað varðar framtíðarhúsnæði því þeir gerðu sér grein fyrir því að það gæti verið erfitt að vera áfram á heimili sínu. Þeir sem höfðu flutt í aldursvænni heimili fundu ekki fyrir óhamingju, en sumir upplifðu að ókunnugt umhverfi gerði þeim erfiðar fyrir að viðhalda virkni og tengslaneti. Það er mikilvægt að bæði heimilið og nærumhverfið styðji við virkt, öruggt og innihaldsríkt daglegt líf á efri árum.

Hvernig á að takast á við breytingar á efri árum?

Rannsakendur leggja áherslu á að það geti verið lykilatriði að viðhalda samfellu og stöðugleika í daglegu lífi, eins og kostur er, sérstaklega þegar staðið er frammi fyrir krefjandi og viðkvæmum breytingum. Til dæmis lögðu nokkrir viðmælenda áherslu á hversu mikilvægt það er að stunda reglulega eitthvert tómstundastarf utan heimilis eftir að vinnu er hætt. Þeir töldu að slík þátttaka stuðli að því að efla heilsu, vellíðan og félagsleg tengsl – og þar með leggja grunn að öruggri og hamingjusamri elli.

Vinir eru lykilstuðningsmenn þegar lífið sendir mönnum áskoranir og því er mikilvægt að rækta vináttubönd og önnur félagsleg tengslanet. En einstaklingar geta ekki borið alla ábyrgðina á að byggja upp hamingjusamt og innhaldsríkt líf. Rannsakendurnir í Noregi töldu að sveitarfélög yrðu að stuðla að því að aldraðir hafi tækifæri til að taka þátt í starfsemi utan heimilis og skapa sér afþreyingu og byggja upp vináttu því ekki allir hafi stórt tengslanet í kringum sig. Þeir hvetja sveitarfélög til að sjá til að huga að eftirfarandi:

Bjóðið upp á stuðning í sorg

Ekki loka félagsmiðstöðvum fyrir eldra fólk

Stuðlið að byggingu aldraðra húsnæðis

Byggið húsnæði fyrir aldraða á svæðum þar sem eldra fólki finnst það eiga heima, getur byggt upp samskiptanet og húsnæðisverð er á færi þeirra sem njóta eftirlauna.

Þeir benda einnig á að góð þekking á málefnum aldraðra er mikilvæg sem og miðlæg stjórnmálastefna til að stuðla að góðri virkni á efri árum. Einnig ætti að vera til staðar kerfi eða úrræði þar sem starfsmenn átti sig fljótt á mikilvægum lífsferilsbreytingum og geti hrint í framkvæmd markvissum aðgerðum sem stuðla að fleiri góðum lífsárum hjá viðkomandi einstakling.

Um rannsóknina

Rannsóknin byggir á gögnum frá norsku rannsókninni á lífsferill, öldrun og kynslóðir. (NorLAG) og Tromsø rannsókninni, tengdum skrám Hagstofunnar, sem og ítarlegum viðtölum við 71–87 ára gamla. NorLAG er þverfagleg og langtímarannsókn þar sem vísindamenn fylgja konum og körlum eftir tíma frá 40 ára aldri og upp úr. Hingað til hefur fjórum umferðum gagnasöfnunar verið lokið (2002, 2007, 2017 og 2024).

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.