Hversdagsmenn í sínu hvunndagslífi

Synir himnasmiðs eftir Guðmund Andra Thorsson fjallar um tólf venjulega íslenska karlmenn sem allir tengjast með einhverjum hætti. Þeir eiga það sameiginlegt að vera komnir af Ólafi himnasmið Jónssyni sem fæddur var árið 1713. Ólafur var lögréttumaður og bjó að Lundum í Stafholtstungum, hagur maður bæði á málma og tré. Hann taldi líklegt að afkomendur hans myndu erfa þá hæfileika hans á einn eða annan hátt.

Og þeir eru vissulega allir hæfileikamenn þessi tólf afkomendur himnasmiðsins sem við kynnumst. Þeim gengur þó misjafnlega að nýta og njóta listfengi síns og glíma hver og einn við að finna sér stað í tilverunni, finna tilgang með eigin viðleitni og striti. Þeir eru á mismunandi aldri, sumir horfa fram á eftirlaunaárin meðan aðrir eru komnir vel á veg með starfsferilinn. Sorgin hefur bankað upp á hjá sumum, ástin tekið öll völd af öðrum en skapað nokkrum lífsfyllingu og hamingju.

Já, eiginlega er þetta bók um hversdagsmenn í sínu hvunndagslífi. Við fáum að kynnast þeim öllum, væntingum, þrám, hugsunum og innri hvötum. Það er sjaldgæft að boðið sé upp á sögur af þessu tagi. Venjulega drífa stórir atburðir sögur áfram og eitthvað verður til að senda söguhetjuna í einhvers konar ferðalag, annað hvort til þroska, sátta eða afreka. Grár hversdagsleikinn er sjaldnast til þess fallinn, og þó. Guðmundi Andra tekst að minnsta kosti að gera hann áhugaverðan. Vekja samúð með þessum mönnum, skilning á kjörum þeirra og ósk um að þeim farnist vel.

Þetta er vel unnin og notaleg bók. Í henni er einhver tregafullur tónn, einhver eftirsjá eftir því sem aldrei varð eða skilningur á hvernig lífið einhvern veginn tekur yfir og beinir mönnum áfram án þess að þeir grípi stýrið styrkum höndum og geri einmitt það sem þeim langaði mest og hentaði þeim best. Þannig er bara lífið. Brauðstrit og barnastúss, hlýjar og kaldar hjónasængur og stundum ástríða og gleði.

Guðmundur Andri er skemmtilegur höfundur. Hann kann að segja sögur og byggja upp texta. Það er ekki hægt að segja að textinn hans sé einfaldur eða skrautlaus því Guðmundur Andri hefur frábær tök á íslensku máli en hann kýs að segja frá án þess fela allt í undirtextanum eða koma með flóknar og óljósar vísanir. Þess vegna rennur þessi bók svo vel og þau efnistök hæfa svo afskaplega vel lífshlaupi mannanna sem hann er að segja frá. Synir himnasmiðs umhugsunarverð og grípandi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 29, 2024 08:42