Í þágu lýðræðisins

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Upplýsingar eru forsendur lýðræðis og fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í því samhengi. Þó þetta liggi í augum uppi og sé væntanlega flestum ljóst þá haga sér ekki allir í samræmi við þessi sannindi. Það kemur fram með ýmsum hætti. Kannski spilar þar inn í hvað margt virðist vera eitthvað súrt og laskað í samfélaginu, eins og fram kemur í átökum um nánast allt og ekkert. Ástæðan er þó líklega ekki síður sú, að sumir þeirra sem beinlínis gegna störfum sem eiga að heita að vera í þágu almennings, virðast einfaldlega ekki hafa þann skilning á hlutverki sínu, að þeir eigi að spila með og veita upplýsingar um hin ýmsu mál sem upp geta komið og varða almenning. Þetta snýst eitthvað svo mikið um sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna.

Ég hef ekki hugmynd um hvað forstjóri ríkisstofnunar nokkurrar er að hugsa, þegar hann hunsar óskir fjölmiðla um viðtal svo dögum skiptir í tilefni af máli sem varðar stofnunina og almenning. Í stað þess að veita upplýsingar þá vísar forstjórinn þess í stað á eitthvað almannatengslafyrirtæki úti í bæ. Svona mál kom upp nýlega. Svo skemmtilega vill til að ég starfaði fyrir nokkrum árum hjá sambærilegri ríkisstofnun og þeirri sem þetta tiltekna dæmi á við um. Forstjórinn á þeim tíma hafði fasta símatíma nánast á hverjum degi, og beina viðtalstíma einnig. Þetta taldi hann ganga fyrir í störfum sínum, enda náðu flestir ef ekki allir sambandi við hann. Og þetta átti reyndar ekki bara við um forstjórann, því þetta gilti um flesta aðra starfsmenn einnig. Þessi þjónusta hefur verið að breytast í samfélaginu almennt en ekki bara hjá þeirri ríkisstofnun sem hér um ræðir.

Ýmsar opinberar stofnanir eru óaðgengilegri nú en margar þeirra voru áður, þó það eigi ekki við um þær allar. Það er stundum eins og það sé verið að verja starfsmennina fyrir ágangi frá þeim sem þeir eiga að vera að vinna fyrir. Þetta getur auðvitað verið nauðsynlegt í einhverjum tilvikum, en næsta víst er að þetta þarf ekki að vera regla. Almannatenglar úti í bæ eru að minnsta kosti ekki lausnin í þessum efnum.

Ríkisforstjóri sem lætur fjölmiðla ekki ná í sig sýnir almenningi lítilsvirðingu. Svipað má segja um ráðherrann, hvort sem hann er núverandi eða fyrrverandi, sem handvelur þá fjölmiðla sem hann ræðir við, og sniðgengur gjörsamlega fjölmiðil í eigu almennings en mætir reglulega í viðtöl hjá einkafjölmiðlum þar sem kraftlitlar spurningarnar flokkast stundum frekar undir smjaður en fjölmiðlun eða blaðamennsku. Fjölmiðlarnir eru bara að sinna upplýsingahlutverki sínu til hagsbóta fyrir lýðræðið í landinu. Því miður er svona framkoma gagnvart fjölmiðlum ekkert einsdæmi. Þá geta upplýsingalög komið að góðum notum. Það er hins vegar nánast furðulegt að það þurfi yfir höfuð að reyna á þau lög.

Þegar stjórnendur stofnana, stjórnmálamenn eða einhverjir aðrir láta ekki ná í sig, eða velja úr þá sem þeim þóknast að ræða við, þá eru þeir að sýna okkur öllum lítilsvirðingu, og vinna gegn lýðræðinu. Slíkt fólk ætti að fá sér eitthvað annað að gera en að sækjast eftir störfum sem er ætlað að vera í þágu almennings. Við höfum tækifæri til að losa okkur að minnsta kosti við stjórnmálamennina sem falla undir þessa skilgreiningu í komandi kosningum. Þannig virkar lýðræðið.

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson september 19, 2016 10:29