Minnka við sig eftir 40 ár á sama stað

Mynd af Þráni og Elínu tekin fyrir þremur árum.

Skilaboðin, sem Þráinn Þorvaldsson rekstrarhagfræðingur vill gefa jafnöldrum sínum, eru að bíða ekki of lengi með að minnka við sig húsnæði. Annað mikilvægt atriði segir hann að sé varast að ætla að reyna að taka allt með sér. Þráinn og eiginkona hans, Elín G. Óskarsdóttir viðskiptafræðingur, hafa bæði náð 78 ára aldri og eru um þessar mundir að flytja úr stóru  raðhúsi í Fossvoginum þar sem þau hafa búið í 40 ár og eru að fara í 100 fm íbúð í blokk við Skógarveg. Raðhúsið er á einni hæð en undir því er kjallari sem nýttist vel þegar börnin þrjú voru enn heima og síðar varð allt það pláss ein allsherjar geymsla. Þótt húsið sé ekki stórt segir Þráinn að ótrúleg vinna sé við að pakka öllu þeirra dóti. Og nú standi hann frammi fyrir því hvað eigi að taka með og hvað ekki en sem betur fer segist hann hafa haft vit á að fá aðstoð við þá ákvarðanatöku. ,,Ég hef í gegnum tíðina pakkað niður í kassa ýmsu sem ég hef ekki viljað henda og sett niður í geymslu í þeim tilgangi að fara í gegnum síðar,“ segir Þráinn. ,,Þetta er vandamál sem margir standa frammi fyrir þegar kemur að því að flytja eftir langan tíma á sama stað,“ segir hann og brosir. ,,Ég er alveg örugglega ekki einsdæmi og þess vegna ráðlegg ég fólki að flytja sig um set á meðan það er enn við góða heilsu og getur gengið sjálft frá öllu sínu dóti. Nú þjáist Elín mín af alzheimer sjúkdómnum svo hún er ekki mikið með í flutningunum. Nú gæti svo farið að kassarnir sem ég ætlaði alltaf að fara í gegnum færu óskoðaðir á haugana og fyrst ég hef ekki saknað neins, sem í þeim er, getur það varla verið merkilegt,“ segir Þráinn og brosir en er samt ekki alveg sannfærður. ,,Reyndar held ég að ég muni vilja fara í gegnum þá síðar og læt flytja mikið yfir í geymslu sem við fáum á nýja staðnum. Á þann hátt fer ég rólegri héðan. Það allra tímafrekasta í flutningum er sannarlega þegar minningarnar hellast yfir þegar farið er í gegnum gamla dótið. Þá kemst maður ekkert áfram. Börnin okkar vilja að við einbeitum okkur að þeim hlutum sem eiga að fara með okkur á nýjan stað og svo skuli þau fara í gegnum rest. En ég held að það sé betra að ég sé nálægur,“ segir Þráinn og brosir.

Alzheimer sjúkdómurinn gerði vart við sig

Fyrir um 10 árum fór að bera á heilabilun hjá Elínu og nú segir Þráinn að sjúkdómurinn sé kominn á það stig að á henni hafi orðið persónuleikabreytingar. ,,Ég get alveg munað fyrir okkur bæði en það er verra með ranghugmyndirnar sem fylgja þessum sjúkdómi. Það krefjist gífurlegrar þolinmæði fyrir aðstandendur að fást við heilabilun ástvinar og í okkar tilfelli eru árin orðin 10 síðan  ég varð var við fyrstu einkennin. Við höfum nú átt 56 yndisleg ár. Líf okkar saman hefur mest snúist um mig og mín störf. Hún átti því inni hjá mér að ég sæi um hana nú þegar heilsu hennar hrakaði.“

Elín er því ekki til stórræðanna í flutningunum en Þráinn segir að börnin þeirra hjálpi eins og þau geta. ,,Þau standa dyggilega við bakið á okkur. Ég hef fengið mikla hjálp hjá Alzheimersamtökunum þar sem manni er gerð grein fyrir að heimurinn sem Elín lifir í sé að miklu leyti lokaður og ekki dugi að leiðrétta hana eða býsnast yfir að hún muni ekki. Nú er Elín  komin inn í Maríuhús þar sem hún fær góða þjálfun.“

Innanhússhönnuður kom að málum

Þráinn í garðinum við raðhúsið.

Þráinn ráðleggur öllum eindregið að fá aðstoð innanhússhönnuða þegar sest er að á nýjum stað. Þegar hann og Elín fluttu í raðhúsið, sem þau eru nú að flytja úr, fengu þau innanhússhönnuð til liðs og það hafi reynst heilladrjúgt. Og núna þegar næsti áfangastaður bíður þeirra gerði Þráinn það líka. ,,Ég fékk góðan hönnuð til að velta upp hugmyndum með mér og svo tókum við ákvörðun eftir tillögum sem hún lagði til. Eitt af því sem við eigum í okkar fórum eru til dæmis tveir stólar frá því þegar við Elín tókum saman árið 1966 en þá vorum við í viðskiptafræðinni. Fyrir algera tilviljun áttum við eins ruggustóla og þeir hafa fylgt okkur allar götur síðan. Innanhússhönnuðurinn setti þá strax inn á fyrstu teikningarnar sem við fengum frá henni þar sem hún raðaði inn því sem hún sá að myndi fara vel á nýja staðnum. Þannig gerði ég mér  svo miklu betur grein fyrir því hvað borgar sig að taka með á nýjan stað og hvað ekki.“

Fataherbergið  

,,Af því við erum með fataherbergi í raðhúsinu hef ég geymt föt sem ég gekk í fyrir mjög löngu síðan,“ segir Þráinn. ,,Það er engu líkara en að föt í þá daga hafi verið úr mjög lélegu efni því þau hafa öll hlaupið mikið með tímanum,“ segir hann og hlær. ,,En af því ég hef geymt svo mikið hafa afkomendur getað notað einstaka flík eins og stúdentssmókinginn minn sem sonur okkar fermdist í. Og svo sýndi ég sonarsyni  mínum  þessi gömlu föt. Hann kom auga á þennan smóking og ætlar að nota hann á böllin í MH þar sem hann er núna við nám.“

Staðsetning skiptir máli 

Þráinn stundaði hlaup lengi og þá var staðsetningin í Fossvoginum tilvalin. Hann og Elín flytja reyndar ekki langt  því ný íbúð þeirra er við Skógarveg  skammt þar frá. Þráinn segir að Elín sé mátulega sátt við að flytja þótt hann sé ítrekað búinn að fara með hana í nýju íbúðina. Það eigi eftir að koma í ljós hvernig hún muni aðlagist nýjum stað en hann sé vongóður. Göngutúrar muni geta farið fram á gömlum slóðum.

Var sjötta í röðinni eftir tuttugu ár

Þau Elín og Þráinn kynntust fyrst 1964 þegar þau voru bæði í viðskiptafræði við HÍ. ,,Árið áður settust tvær stúlkur í deildina og Elín var oft spurð að því af hverju hún væri að velja viðskiptafræði en færi ekki í húsmæðraskóla eins og  aðrar stúlkur. Þegar við útskrifuðumst sem viðskiptafræðingar 1969 var Elín  aðeins sjötta konan sem hafði útskrifast frá upphafi úr viðskiptafræði. Nú, sextíu árum síðar er hlutfallið 65% konur.“ Elín var lengi framkvæmdastjóri Félags viðskipta- og hagfræðinga auk þess að eignast þrjú börn og sjá mikið um þau á meðan Þráinn var á ferðalögum vegna vinnu sinnar. Hann starfaði lengi hjá Hildu ullarútflutningsfyrirtæki og var síðar fyrsti framkvæmdastjóri Útflutningsráðs.

Þráinn og Elín bjuggu um tíma á Sauðárkróki þar sem Þráinn var í sínu fyrsta starfi  að vinna fyrir Pálma í Hagkaup við að koma sútunarverksmiðju á fót. Þá áttaði Þráinn sig á að vandinn var ekki að framleiða vöruna heldur að selja hana. Það leiddi til þess að þau Elín fluttu til Bretlands  þar sem Þráinn fór í masternám í markaðs- og sölufræðum. Þegar hann kom heim tók hann við framkvæmdastjórastarfi hjá Hildu hf. og ferðaðist mikið á þeim árum. Þegar Þráinn hætti í því stafi tók hann við sem framkvæmdastjóri hjá Útflutningsráði Íslands.

Þráinn og Elín hafa unnið mikið saman eins og þegar þau stofnuðu fyrirtækið Saga Medica ásamt Sigmundi Guðbjarnarsyni prófessor, mági Þráins og konu hans,  Steinþóri Sigurðssyni og fleirum. Þá var Þráinn framkvæmdastjóri en Elín sá um fjármálin. ,,Fyrirtækið tók sín fyrstu skref hér hjá heima hjá okkur og líka hjá Sigmundi í háskólanum og það var geysilega gaman að sjá fyrirtækið  verða til,“ segir Þráinn.

Góður tími til að selja

Fjölskyldumeðlimir er 16. Fyrir skömmu var Brautarlandið kvatt og myndin tekin við það tækifæri.

,Hvatning fyrir þá sem hafa hugsað að kominn væri tími til að minnka við sig er að nú er sannarlega góður tími til þess að selja og kaupa minna,“ segir Þráinn. ,,Nú er því hægt að losa peninga til að geta látið drauma rætast. Þegar ég var táningur ætlaði ég að verða fornleifafræðingur og uppáhaldsbækurnar mínar voru Fornar grafir og fræðimenn og Grafir og fornar rústir o.s.frv. Svo var það 60 árum síðar  að ég gat látið draum minn um að fara til Egyptalands rætast. Að komast inn í píramida var ótrúleg upplifun.  Svo fórum við til Suður Ameríku fyrir þremur árum. Við höfum einnig farið í siglingu um Indlandshaf.  Héðan í frá fer ég ekki lengur einn með Elínu  en nú ætlum við að fara með dóttur okkar og fjölskyldu hennar til Tenerife eftir flutningana og slaka á í sól og hita í svolítinn tíma. Við gerum auðvitað það besta úr því sem við höfum núna og yljum okkur við minningar eins og við getum,“ segir Þráinn og heldur áfram að pakka fortíðinni saman og hefja líf á nýjum stað, staðráðinn að búa þeim Elínu eins góðan tíma og kostur er.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 18, 2022 07:00