Tengdar greinar

Menningarbærinn Ísafjörður

Ísafjörður hefur löngum verið menningarbær og í seinni tíð hefur matarmenningin eflst þar enn frekar. Íslendingar í veitingahúsaflóru staðarins hafa staðið sig vel og nýta hráefni úr sjó og landi meistaralega og með tilkomu erlendra íbúa bæjarins hefur matarmenningin eflst enn frekar. Erlendir borgarar landsins hafa komið með matarhefðir frá heimalandinu til Ísafjarðar svo nú geta sælkerar þessa lands gert sér ferð  vestur og notið dýrlegrar matargerðar heimamanna sem bæði eru af íslensku og erlendu bergi brotnir.

Tjöruhúsið á Ísafirði fjölskyldufyrirtæki

Samhenta fjölskyldan á Tjöruhúsinu lögðu land undir fót í tilefni af sextugsafmæli Ragnheiðar 2018.

Gífurlegur áhugi á matargerð er í báðum ættum eigenda Tjöruhússins á Ísafirði en það eru hjónin Magnús Hauksson og Ragnheiður Halldórsdóttir. Börnin þeirra þrjú hafa svo  verið viðriðin reksturinn eftir því sem þau hafa komið því við. Um þessar mundir er Haukur, elsti sonur þeirra, og eiginkona hans Shayan að vinna hjá þeim enda búið að opna fyrir sumarið og ekki vanþörf á aðstoð. Shayan er frá Indlandi og er meistarakokkur svo nú svífa indversk áhrif yfir vötnum á milli þess sem Magnús stendur föstum fótum í íslenskri matarhefð en hann er yfirkokkur veitingahússins. Hann sér um að elda fiskrétti úr eðalhráefni sem landað er daglega í bænum. Haukur og Ragnheiður sjá um að sinna gestum staðarins og búa til stemmningu sem gestir muna eftir. Að sögn Jóhanns, bróður Magnúsar, hefur hann alltaf verið mjög afkastamikill maður og alltaf að iðja eitthvað. Þegar Jóhann kemur til Ísafjarðar á ferðum sínum tekur hann alltaf til hendinni hjá bróður sínum því þar sé alltaf mikið að gera. Jóhann segir  um Magnús að hann sé sífellt í einhverjum snúningum, ýmist að sækja eitthvað, útvega fisk í Bolungarvík eða að landa úr fiskiskipum en það hafi hann gert lengi með harðsnúnu gengi löndunarstráka. Fiskhlaðborð kvöldsins sé ævinlega tilbúið kl 19:00 og þá verði allt að vera tilbúið, byrjað á rómaðri fiskisúpu. Jóhann segir að Magga sé mikið í mun að hafa fiskinn ævinlega ferskan og stundum fái hann fiskinn beint úr bátunum og þá eigi eftir að flaka. Iðulega grípi um sig paník í eldhúsinu rétt fyrir kl 19:00 á kvöldin og spurt er: „Hvar er Maggi“. Fiskurinn sem sagt ókominn og pönnurnar bíða heitar. Klukkan verður 19:00 og fólk byrjar á súpunni og ekki næst í Magga. En þá birtist kappinn á síðustu stundu í gluggalúgunni með allan fisk flakaðan og fínan beint á pönnurnar. Þannig hafi orðið til máltækið „hvar er Maggi“ þegar eitthvað vantar og alltaf sé tilhlökkun að koma í fjörið á Ísafirði.

Vissi ekki að hægt væri að elda vondan mat

Magnús að slægja fisk beint úr sjónum.

Haukur segir hlæjandi að það megi sjá á vaxtarlagi þeirra feðga að áhugamál númer eitt sé matargerð. “Frá því ég man eftir mér hefur alltaf verið rosalega góður matur á boðstólum alls staðar sem við höfum komið í fjölskyldunni. Báðar ömmur mínar eru til dæmis listakokkar. Það er einhver grunnmetnaður að kasta ekki til höndum þegar hráefni til matargerðar er annars vegar. Ég man sérstaklega eftir því þegar ég var líklega 16 ára gamall og var boðið að borða hjá félaga mínum og fékk í fyrsta skipti vondan mat. Ég var svo undrandi því mér fannst steikin hafa verið soðin en ekki steikt og spurði félaga minn undrandi: “Af hverju suðu þau steikina”. Ég vissi bara ekki að það væri hægt að elda vondan mat,” segir Haukur hlæjandi.

Haukur var mikið hjá móðurömmu sinni og -afa þegar hann var yngri því Magnús og Ragnheiður voru mikið í vinnunni þar sem þau voru að byggja upp veitingahúsareksturinn. “Mér leið auðvitað mjög vel hjá ömmu og afa og naut þess að láta ömmu dekra við mig. Afi var meira í að sjóða siginn fisk en amma hefur alltaf húsmóðir með stóru H. með stórt heimili og er meistarakokkur. Amma var ein af þessum ofurkonum en hún var ein af þeim fyrstu sem fékk sér tölvu og notar hana mikið í dag.”

Sjómannastofan varð til

Matarmenning heimamanna könnuð á ferðalagi. Í ferðinni voru Thailand, Kambódia og Vietnam heimsótt og heimildum safnað.

Magnús stofnaði myndbandaleigu á þeim tíma sem mesti uppgangurinn var á þeim leigum og hagnaðist ágætlega af þeim viðskiptum. Hann ákvað síðan að nota hagnaðinn af myndbandaleigunni til að stofna veitingahús sem hann kallaði Sjómannastofuna sem var staðsett í Hafnarhúsinu, á glæsilegum stað með útsýni yfir fjörðinn. Þau hjónin ætluðu fyrst að ráða starfsfólk á veitingahúsið en Ragnheiður sá fljótlega að það dæmi gekk ekki upp svo þá var ekki um annað að ræða en að standa vaktina sjálf. Þau réðu kokka og Magnús lærði enn frekar að elda af þeim og með tímanum varð hann sjálfur yfirkokkur staðarins.

Pólitískur þrýstingur

Þegar Magnús og Ragnheiður höfðu rekið Sjómannastofuna í nokkur ár varð úr að tekin var pólitísk ákvörðun að annar tæki við veitingarekstrinum á Sjómannastofunni. Þetta var 1993 og þá hættu þau hjónin

Ragnheiður og Magnús á Tjöruhúsinu.

veitingarekstri í bili og yngri börnin þeirra urðu þá til og Ragnheiður var heima með þau í nokkurn tíma og notaði tímann til að klára menntaskólann. Það kom sér vel að bæta við fjölskylduna því yngri börnin tvö hafa verið mjög liðtæk í vinnu hjá foreldrum sínum eftir að þau eltust. Haukur fór í nám til Ameríku eftir menntaskóla og  minnist þess að þegar hann fékk Magnús og Ragnheiði til sín þangað í heimsókn hafi yngri systkini hans rekið veitingastaðinn á meðan. Þá voru þau 16 og 18 ára. “Bróðir minn er mikill listakokkur og hefur verið duglegur að læra af pabba og gera tilraunir sjálfur og systir mín er framlenging af mömmu með stemmninguna og kósíheitin.

Magnús nýtti aðstæðurnar

Magnús kom upphaflega til Ísafjarðar af því hann vildi stunda nám í návígi við besta skíðasvæði landsins eins og hann orðar það. Hann kynntist Ragnheiði á þeim árum og úr varð gott teymi. Sagan segir að þau hjónin hafi í gegnum árin verið með nokkurs konar félagsþjónustu á Ísafirði og hjálpað mörgu ungu fólki sem hafi átt erfitt.

Magnús er sannkallaður landsbyggðamaður en hann er alinn upp austur á héraði en hefur búið allt í kringum landið. Ragnheiður, eða Ranka eins og hún er alltaf kölluð, er borinn og barnfæddur Ísfirðingur. Að sögn Hauks eru foreldrar hans fyrst og fremst rosalega iðið og duglegt fólk með góðan matarsmekk.

“Þegar þau hættu með Sjómannastofuna vann pabbi við akstur og löndun því hann átti vörubíl. Hann fór með fiskinn á markað og í slægingu og það er í rauninni þá sem hann tók til við að elda fisk því hann er með aðgang að öllu þessu dýrlega hráefni. Á þessum tíma voru mamma og pabbi beðin um að taka við Tjöruhúsinu en þar hafði verið rekin kaffisala með vöfflum og stundum boðið upp á súpu.

Tveir heimar mætast í ungu fólki.

Amma bakaði kökur

Mamma bakaði vöfflur í gríð og erg og amma bakaði kökur fyrir okkur og svo bættist fiskisúpa pabba við. Hægt og rólega bættust við réttir eins og fiskipönnur og eitt sumarið þegar ég kom heim í sumarfrí var allt sprungið og þau höfðu ekki undan að afgreiða mat. Þetta var 2005 og þá átti  ferðamannastraumurinn eftir að springa út fyrir alvöru. Það var orðið þannig að ef vinir og ættingja ráku inn hausinn voru þeir gripnir í að aðstoða og það jók bara á stemmninguna. Mamma er stemmningsmeistarinn á staðnum og hefur séð um að öllum líði vel hjá þeim. Ég man eftir atviki þegar franskur viðskiptavinir var fúll af einhverjum ástæðum og hún vildi ekki sendan hann neikvæðan út frá þeim. Hún hætti þá ekki fyrr en hún fékk manninn inn í eldhús þar sem pabbi var að slægja fisk og þessi franski maður fór alsæll út því hann hafði upplifað eitthvað alveg einstakt í þessum litla bæ á Íslandi.”

Fjölskyldufyrirtæki þar sem hver hefur hlutverk

Shaya við indversku réttina sína.

Haukur sér Tjöruhúsið sem sambland af þeim öllum í fjölskyldunni. “Mamma kemur með stemmninguna og kósíheitin og systir mín er framlenging af henni og mótar þjónustuna, ég kem með gleði og einhverja músík og pabbi og Gummi bróðir með matinn. Svo kemur Shaya með sína stemmningu og er enn meira skraut á Tjöruhúsið sem stendur föstum fótum í íslenskri matarmenningu.

Létt stemmning og góður matur er uppskrift að skemmtilegri upplifun og nú geta Íslendingar sannarlega upplifað ævintýri heima í sumar. Við þurfum ekki að fara til útlanda til þess!

 

 

 

 

Ritstjórn maí 22, 2020 07:41