Innihaldsrík og falleg bók

Sunna Dís Másdóttir hefur getið sér gott orð á bókmenntasenunni bæði fyrir starf sitt með Svikaskáldunum og eigin bókum. Í fyrra kom út eftir hana skáldsagan Kul en í ár sendir hún frá sér ljóðabókina Postulín. Öðrum þræði fjalla ljóðin um flutninga út á landi, nálægðina við náttúruna og hinum um fósturmissi.

Hér er byrjar allt á réttum stað, á hreiðurgerð, vinnunni við að skapa heimili og læra á nýjan vinnustað. Finna fótunum stað á gömlum gólffjölum og læra að hella upp á kaffivélina. Hvernig dreymir mann í nýju húsi eða gömlu húsi sem er þér nýtt? En svo ryðst fjallið fyrir ofan þorpið inn og ber dauðann í fangi sér. Þessi kafli heitir Postulín eftir þessu hvíta kalda efni sem er í senn svo brothætt og sterkt, gagnsætt og viðkvæmt en einnig fráhrindandi og egghvasst. Fósturmissir verður líka oft inn í baðherberginu, í nágrenni við gólf- og veggflísar og klósettið sem svo oft er kallað postulín svo þetta er sérlega vel valin mynd hjá höfundi.

Mjög margar konur missa fóstur að minnsta kosti einu sinni en lítið er talað um þá reynslu. Sennilega hefur það hingað til þótt óþarfi, manneskja varla farin að tengjast barni sem ekki er orðið til nema sem bláber, hænuegg eða lítil dúkka allt eftir því hvenær á meðgöngu það deyr. En þetta hefur áhrif og hér leitast Sunna Dís við að færa þá reynslu í orð. Sá kafli bókarinnar sem ber heitið Fjall er ekki fjall er einnig ákaflega áhrifaríkur og vel unninn. Það skapast þessi hugrenningatengsl við þá ógn sem fjöll á Íslandi búa yfir, snjóflóð og aurskriður sem geta farið af stað og ekkert fær stöðvað þær, ekki frekar en ótímabæra fæðingu og það þarf að kveðja fjöll. Þegar fólk flytur burtu þarf það að skilja eftir lífið undir hlíðum fjallsins og hrista af sér heimþrána. Konur þurfa að kveðja barnið sem ekki varð barn.

Þetta er sannkölluð kvennabók því leyti að hún lýsir reynslu og upplifunum kvenna. Hana þarf að lesa í rólegheitum. Fá tíma til að velta vöngum og lesa aftur sumar setningar og ígrunda þær myndir sem þær skilja eftir, máta jafnvel við eigin upplifun og fá loks að orðin yfir það sem kom fyrir og réttinn til að kveðja, Það er dásamlegt að lesa svona fallega og innihaldsríka bók.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.