Innlit í „Hrútakofann“ – leshring karla

Hrútakofinn er leshringur á vegum Borgarbókasafnsins ætlaður karlmönnum sem þar kynnast nýju lesefni og deila lestrarreynslu sinni. Fundir Hrútakofans, undir stjórn Gunnars Þórs Pálssonar, eru haldnir síðdegis fyrsta miðvikudag í mánuði á Borgarbókasafninu Spönginni í Grafarvogi.

Í nýjasta fréttabréfi U3A er að finna frásögn af tilurð og starfsemi Hrútakofans. Þar segir upphafsmaðurinn Gunnar Þór frá því að hann hefði alist upp á bókaheimili þar sem mikið var lesið og rætt um bækur. Hann hefði kynnzt leshring sem frönskumælandi eiginkona hans heldur utan um fyrir frönskumælandi fólk á Reykjavíkursvæðinu og Gunnar Þór ákvað að finna leshring við sitt hæfi, en það reyndist ekki svo einfalt. Starfandi leshringir á vegum bókasafnanna tækju flestir ekki við fleiri meðlimum og einungis hægt að skrá sig á biðlista. Leshringir sem Gunnar fann á Facebook gera ráð fyrir að allir lesi sömu bókina, nánast eingöngu skáldsögur og það hugnaðist honum ekki.

Annað sem Gunnar uppgötvaði í leit sinni að „rétta“ leshringnum fyrir sig var að þetta voru yfirleitt mjög kvenlægir leshringir. Gunnar var fullviss um að það hlytu að vera til fullorðnir karlar sem lesa sér til skemmtunar og hefðu hugsanlega áhuga á því að hittast til að ræða bækur af ýmsum toga, þar með talið fræðandi bækur (non-fiction) en ekki eingöngu skáldsögur.

Dag einn rakst Gunnar Þór á auglýsingu frá bókasafninu í Spönginni að verið væri að leita að fólki til að stofna sína eigin leshringi og sjá um þá, en að bókasafnið byði upp á aðstöðuna. Deildarbókavörðum í Spönginni  leist vel á þá hugmynd að draga lesandi karlmenn uppá yfirborðið og Hrútakofinn varð til.

Þema valið fyrir hvern leshringsfund

Blaðamaður Lifðu núna leit inn á fund Hrútakofans í byrjun marz – einmitt þann daginn var hlákan og hálkan mest. Sem kannski átti þátt í að skýra lakari mætingu en vanalega. Aðeins „harðasti kjarni“ leshringsins var mættur í þægilegan sófakrókinn á annarri hæð bókasafnsins í Spönginni að þessu sinni: Upphafsmaðurinn Gunnar Þór Pálsson, Þórir Hrafn Gunnarsson og Bjarni Eggertsson. Þema fundarins voru bækur með tölu í titlinum. Óhætt er að segja að þar voru gríðarlega ólíkar bækur sem hér komu til umræðu. Dæmi: Áttundi dagur vikunnar eftir Marek Hlasko, sem er stutt andófs-skáldsaga frá síðari hluta sjötta áratugarins í Póllandi sem Þorgeir Þorgeirson þýddi, og Þúsund bjartar sólir eftir Khaled Hosseini, en hún fjallar um örlög tveggja kvenna í Afganistan.

Um það hve fámennt og góðmennt það væri á fundi dagsins sögðu Hrútakofamenn að meðlimir væru misvirkir að mæta; oftast væru minnst fimm eða sex félagar á hverjum fundi þó. Gunnar Þór segir kíminn að hann hefði sett sig í stellingar að taka við flóðbylgju nýrra liðsmanna eftir umfjöllunina í fréttabréfi U3A, en þeirrar flóðbylgju hafi þó enn sem komið er lítið orðið vart. Skráðir félagar væru nú í kringum tíu manns. Aldursbilið er breitt – sá yngsti er tvítugur en sá elsti sjötugur.

Tilvalið fyrir karla á eftirlaunum

Einn harðkjarnamannanna sem blaðamaður hitti, Bjarni Eggertsson, er nýfarinn á eftirlaun, er að verða 68 ára. Hann sér því fram á að hafa enn betri tíma á komandi misserum til að lesa bækurnar sem hann hafi alla tíð ætlað sér einhvern tímann að lesa en hafði aldrei tíma til. Hann mælir sterklega með því að menn í svipuðum sporum  gangi til liðs við leshring eins og Hrútakofann; félagsskapurinn sé góður og hvatningin til að lesa áhugaverðar bækur mjög gefandi.

Hægt er skrá sig hér í leshringinn. Næsti fundur Hrútakofans verður í sófakróknum í Spönginni miðvikudaginn 6. apríl kl. 17:30. Þemað sem stýrir vali bóka til umræðu á aprílfundinum er að bókin sé samin fyrir árið 1922, þ.e. fyrir meira en einni öld. Þema hvers fundar er almennt ákveðið með góðum fyrirvara; þema hvers mánaðarlegs fundar Hrútakofans allt þetta ár liggur reyndar þegar fyrir. En er þó ekki greypt í stein – m.ö.o. gætu t.d. nýir liðsmenn stungið upp á nýju þema og aldrei að vita nema áður ákveðið þema yrði látið víkja fyrir nýjum uppástungum, að því er harðkjarnamenn upplýsa.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn mars 9, 2022 07:57