Ísólfur Gylfi Pálmason er einn af þeim Íslendingum sem allir vita hverjir eru enda var hann áberandi í samfélaginu í mörg ár. Það var á meðan hann var í hringiðu stjórnmálanna en í nokkurn tíma hefur ekki mikið til hans sést opinberlega. Þeir, sem til stjórnmálastarfa þekkja, vita að það er ekki hlutastarf heldur er um að ræða vinnu allan sólarhringinn ef fólk sinnir starfinu af ástríðu líkt og Ísólfur gerði. “Það má segja að póitíkin verði lífsstíll en það á nú við um mörg önnur störf. Ef við leggjum okkur ekki fram gerist lítið,” segir Ísólfur. Hann segist því taka rólegri tímum fagnandi og sé nú orðinn “alvöru sveitamaður”. Hann er reyndar ekki orðinn löglegur eldri borgari ennþá en segist njóta þess sem aldurinn hafi upp á að bjóða og sé svo lánsamur halda heilsu og sjá húmorísku hliðar lífsins og tilverunnar. “Það er dásamleg guðs gjöf,” bætir hann við.
Ísólfur er kennari að mennt og lauk líka íþróttakennaraprófi á Laugarvatni og við Idrætshöjskolen í Sönderborg í Danmörku. Hann segir að Vinir Dóra í Vesturbæjarlauginni, gömlu sundfélagar hans í borginni, haldi því fullum fetum fram að hann hafi fengið íþróttakennaraprófið í Bréfaskóla SÍS og ASÍ. “Ég er löngu farinn að trúa því af því þeir segja aldrei ósatt þessir menn. Verst er að unga fólkið veit ekkert hvað bréfaskóli er,” segir Ísólfur og hlær. Þegar hann bjó í Ólafsvík kenndi hann líka eldra fólki að synda – og líka á Hvolsvelli eftir að hann varð þingmaður. Margir sundnemenda hans hugsa eflaust hlýtt til hans þegar þeir taka sundtökin. Ísólfur kenndi því bæði íþróttir og bókleg fög á meðan hann starfaði sem kennari, bæði í Ólafsvík og Mosfellsbæ. Eftir þann tíma réð hann sig á Bifröst í Borgarfirði þar sem hann kenndi í 6 ár. “Kennslan átti afar vel við mig og ég eignaðist marga lífstíðarvini sem voru nemendur mínir,” segir Ísólfur. Síðan flutti hann sig um set og tók að sér starfsmannastjórastöðu hjá Kron í Miklagarði. Eftir það tímabil var komið að stjórnmálunum og Ísólfur réði sig sem sveitarstjóri á Hvolsvelli 1990 og var svo kosinn á Alþingi 1995. Því starfi sinnti hann til 2003 og þá tók hann að sér að verða sveitarstjóri í Hrunamannahreppi með aðsetur á Flúðum og svo á Rangárþingi eystra frá 2010 til 2018. Þá ákváðu Ísólfur og eiginkona hans, Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, að venda sínu kvæði í kross og gerast alvöru sveitafólk.
Ísólfur og Steinunn áttu hús á Hvolsvelli en seldu það í fyrra og byggðu sér hús í á Uppsölum í Fljótshlíð þar sem þau búa núna. “Þetta er himnaríki á jörð,” segir Ísólfur ánægður með ákvörðunina að gerast sveitamaður. Þar eru þau orðnir skógarbændur og geta þess vegna kallað sig „alvöru sveitafólk.“ Þau byrjuðu að planta trjám í landið fyrir 20 árum og hafa nú plantað þar u.þ.b. 160.000 trjám. Ísólfur segir að vinnan sjálf sé gríðarlega gefandi og ekki sé verra að geta lagt sitt af mörkum varðandi kolefnissporið margumrædda. Hann segir að þau hjónin ferðist þess vegna með verulega góðri samvisku sem sé gott því þau ferðist töluvert.
“Það þarf þrjár kynslóðir til að árangurinn af skógrækt geti farið að skila sér fjárhagslega,” segir Ísólfur og er alveg sáttur við hægan vöxt trjánna sinna. Það sé ekkert um að ræða að verða óþolinmóður þegar trjárækt sé annars vegar en náttúran kenni manni hins vegar að njóta og það sé dýrmæt reynsla.
Ísólfur er hættur fastri vinnu en Steinunn starfar enn sem verkefnisstjóri hjá fræðsluneti Suðurlands og starfsemin nær yfir allt Suðurland. Starfsstöð hennar er að mestu leyti á Hvolsvelli en þangað eru aðeins fjórir kílómetrar frá heimili þeirra að Uppsölum. Ísólfur nýtir sér það óspart en hann sækir sundlaugina á Hvolsvelli daglega. Þar syndir hann og fer í heitan og kaldan pott og segir þann lúxus vera óviðjafnanlegan. Áður en hann fer í ræktina segist hann alltaf lesa kafla í bók sem hann hafi fengið í jólagjöf sem nefnist Dagur í senn og sé eftir Karl Sigurbjörnsson. Í bókinni segir hann að sé að finna góða speki á trúarlegum nótum fyrir hvern dag. Þetta lesi hann og velti fyrir sér áður en hann leggi af stað út í daginn.
Ísólfur er í ákveðnum félagsmálum en hann er formaður Fagráðs umferðarmála, er í stjórn Votlendissjóðs og síðan er hann forseti Rotaryklúbbsins á Hvolsvelli og hefur gaman af. Hann segir að þau hjónin sé svo rík að eiga 8 barnabörn og að fjögur þeirra séu í grenndinni svo að þau fái oft að gæta þeirra og njóti þess ríkulega. “Þetta eru forréttindi lífsins,” bætir hann við.
Í ljós kemur að Ísólfur hefur tekið mikinn þátt í tónlistarstarfi þar sem hann hefur verið um ævina. Hann hefur verið í kórum, m.a. karlakór Hreppamanna þegar hann var á Flúðum og nú í vetur byrjaði hann í karlakór Rangæinga. “Það er víst út af sviðsframkomunni en ekki röddinni sem ég hef verið fenginn í þessa kóra,” segir hann og hlær.
Ísólfur spilar auk þess á hljóðfæri og segist gutla á ýmislegt. “Uppáhaldshljóðfærin mín eru samt gítar og bassi og þegar við komum saman á æfingar nokkrir úr sveitinni er ég látinn spila á trommur ef trommuleikarann vantar. Ég á nefnilega líka trommur,” segir hann kíminn og líklegt er að lesendur heyri rödd Ísólfs þegar hann slær þessum fullyrðingum fram. Eitt aðalsmerki þessa skemmtilega manns er nefnilega kátínan sem hann er þekktur fyrir. Að lokum segist Ísólfur vera búinn að finna út að það sé líf eftir vinnu.
Þegar ég bjó í Ólafsvík kenndi ég eldra fólki að synda – einnig á Hvolsvelli eftir að ég varð þingmaður. Ég veit að margir hugsa hlýtt til mín sem ég kenndi þegar þeir taka sundtökin.