Játning 58 ára konu: Nú er ég loks byrjuð að lifa lífinu.

Ég byrjaði loks að lifa 58 ára gömul.

Þangað til hafði ég aldrei trúað því að lífið gæti verið öðruvísi – án fastrar rútínu heimilisverka, innkaupa, þvotta, matargerðar og þagnar.

Frá barnæsku hafði mér verið kennt að það mikilvægasta fyrir konu væri að setjast að, giftast, eignast börn og vera með fjölskyldunni. Ekki mótmæla. Ekki rífast. Ekki kvarta.

Og ef þig dreymir – gerðu það hljóðlega, því að dreyma er gagnslaust.

Ég giftist ung og átti tvö börn. Ég var móðir, eiginkona, húsmóðir. Ég þvoði, straujaði, eldaði – á þönum allan daginn.

Maðurinn minn vann. Hann kom þreyttur heim, borðaði í þögn og sat fyrir framan sjónvarpið. Þá fór hann að gagnrýna: að ég væri leiðinleg, að hann hefði skilið mig eftir eina of lengi, að ég hefði ekkert til að tal um.

Hann sagði mér að með konum eins og mér lifir maður ekki lífinu – maður lifir af.

Og hvað gerði ég? Ég þagði.
Vegna þess að „fjölskyldan er heilög“.

Vegna þess að „þú verður að vera þolinmóð.“

Vegna þess að mamma sagði alltaf: „Vertu þolinmóð/ur. Þú ert eiginkona, þú ert móðir.“

Og þess vegna var ég þolinmóð. Ég beið eftir þeim degi sem börnin mín yrðu fullorðin, sjálfstæð og þá – kannski – gæti líf mitt byrjað.

En, svo einn daginn fór hann. Hljóðalaust. Engar skýringar. Hann pakkaði niður í ferðatösku og kom aldrei aftur. Lét sig bara hverfa. Ég var ein. Og undarlega róleg, það fyrsta sem ég fann var ekki sársauki. Það var þögn. Sönn þögn, djúp og ókunnug – en í þeirri þögn, í fyrsta skipti, heyrði ég sjálfa mig.  Í fyrstu var ég týnd. Ég vissi ekki lengur hver ég var. Ég gat ekki munað hvað mér líkaði eða hvað ég vildi. Ég gekk um einmanalegt húsið mitt eins og gestur. Ég spurði sjálfa mig hvenær ég hefði síðast hlegið frjálslega, eða vaknað án þess að flýta mér í eldhúsið til að búa til kaffi handa öllum. Einn morgun vaknaði ég – og bjó ekki um rúmið. Ég lagaði kaffi bara handa sjálfri mér og settist í hægindastól og fór að horfa í kringum mig. Ég tók eftir sólarljósinu smeygja sér á milli gluggatjaldanna. Lítill, einfaldur hlutur… en samt horfði ég á undrandi. Vegna þess að það var mitt. Eitthvað breyttist í mér þennan dag. Ég skráði mig í enskunámskeið – einfaldlega vegna þess að ég vildi það. Ég lærði að nota snjallsímann minn til að kaupa lestarmiða. Ég fór í ferðalag. Ein. Í fyrsta skipti á ævinni. Svo fór ég enn lengra. Ég sá hafið að vetri til – hið raunverulega haf, ekki það sem sést á myndunum. Það lyktaði af salti, hvasst og lifandi. Þann dag skildi ég frelsið. Ég tók af mér skóna, settist á blautan sandinn og hugsaði: „Af hverju beið ég svona lengi?“

Nágrannakona mín spurði mig: „Ertu rugluð? Ertu að ferðast ein, næstum sextug?“ Ég brosti. Því kannski var ég loksins ekki lengur týnd. Ég hafði fundið sjálfa mig.  Nú bý ég ein. Ekki vegna þess að enginn elski mig – heldur vegna þess að, í fyrsta skipti, elska ég sjálfa mig.  Ég hef engar áætlanir, aðeins valkosti. Ég eyði ekki dögunum mínum lengur í eldhúsinu. Í staðinn eyði ég klukkustundum á söfnum, í svæðislestum, í bókabúðum eða hringa mig undir teppi með skáldsögu sem ég lét ósnerta í mörg ár vegna þess að „ég hafði aldrei tíma.“ Stundum lít ég í spegilinn. Hrukkurnar eru ennþá til staðar. En augun mín eru öðruvísi. Það er nýtt og fallegt blik í þeim. Því 58 ára gömul hætti ég að lifa af. Og ég byrjaði að lifa.

Greinin birtist upphaflega á breskri vefsíðu. Viðar Eggertsson leikari og leikstjóri þýddi fyrir Lifðu núna.