Jeff Goldblum – sérvitur eða bara vitur?

Mörg orð hafa verið notuð til að lýsa Jeff Goldblum en líklega er sérvitur það orð sem hvað oftast er notað. Fyrir því eru nokkrar ástæður og sú fyrsta að hann hefur ávallt farið eigin leiðir í hlutverkavali og einkalífi og lítt látið sig varða álit frammámanna í kvikmyndabransanum. Hann þótti passa ágætlega í hlutverk fólks sem ekki batt bagga sína sömu hnútum og samferðamenn og var eftirminnilegur í The Fly. Nýjasta hlutverk hans er sjálfur Seifur í sjónvarpsþáttaseríunni Kaos sem sýnd verður á Netflix í lok ágúst og svo munum við sjá hann í hlutverki galdrakarlsins í Oz í kvikmynd gerðri eftir söngleiknum Wicked sem væntanleg er í haust.

Ekki margir vita að hann er mjög fær jasspíanisti og hefur mjög fallega barítónrödd svo hann ætti að njóta sín vel í söngvamynd. Jeff sagði nýlega í viðtali við the Guardian að það væri heimskulegt að reyna að leyna aldrinum mun skynsamlegra væri að sætta sig við hann. Hann segist ekki hafa farið í neinar lýtaaðgerðir og sé fyllilega sáttur við sínar hrukkur. Sumir gætu freistast til að hugsa að það sé auðvelt fyrir mann sem eldist jafnvel og Jeff Goldblum að segja slíkt en ekki eru allir jafnheppnir hvað það varðar. Helstu aldursmerkin eru að hann heyrir illa á öðru eyra og hefur allataf gengið með gleraugu.

Hann hefur verið að leika í fimmtíu ár og margir telja hann einn vanmetnasta leikara Hollywood. Máli sínu til stuðnings benda þeir á að hann hefur aðeins einu sinni verið tilnefndur til Óskarsverðlauna og þá fyrir hlutverk sitt í stuttmynd.

Jeff í hlutverki galdrakarlsins í Oz í kvikmynd gerðri eftir söngleiknum WIcked.

Kvikur og fljótur að hugsa

Hann þykir líflegur og er þekktur fyrir að standa upp í miðju viðtali við fjölmiðlamenn til að endurraða húsgögnum eða ganga um til að koma reiðu á hugsanir sínar áður en hann svarar spurningum. Hann er lipur í hreyfingum, óvenjulega hávaxinn eða 194 cm og andlitið er eftirminnilegt, ekki beint hægt að segja að hann sé laglegur en sannarlega myndarlegur. Auk þess er honum oft lýst sem greindarlegum. Hugsanlega er það þess vegna að hann hefur svo oft verið valinn í hlutverk vísindamanna. Hann var stærðfræðingur í Jurassic Park, gervihnattatæknifræðingur í Independence Day og eðlisfræðingur í The Fly. Sjálfur þykir hann fljótur að hugsa og honum verður sjaldan orða vant.

Jeff er einnig áhugamaður um tísku og hefur alla tíð skapað sér eigin stíl. Það er jafnan tilhlökkunarefni fyrir fjölmiðlafólk að taka hann tali á rauða dreglinum vegna þess að fatnaður hans er alltaf áhugaverður. Hann hefur hannað eigin línu af gleraugnaumgjörðum. Í þáttunum Kaos ber hann gullhring gerðan úr gömlum gullpeningi. Hann á sjálfur þennan hring en hann hefur fylgt fjölskyldu konu hans, Emilie Livingstone, í nokkrar kynslóðir. Hún er kanadísk og þau hafa verið gift í 10 ár. Emilie er fyrrum fimleikastjarna og keppti á Ólympíuleikum í Sydney fyrir hönd Kanada. Eftir að íþróttaferlinum lauk starfaði hún sem dansari og loftfimleikamaður og kom meðal annars fram í tónlistarmyndböndum hjá Taylor Swift og í kvikmyndinni, La La Land. Nú rekur hún eigið fyrirtæki sem framleiðir fatnað fyrir dansara.

Í hlutverki Seifs í nýrri þáttaröð um grísku guðina, Kaos.

Áður en þau kynntust hafði Jeff verið tvígiftur, fyrsta kona hans var Patricia Gaul en þau kynntust við tökur á myndinni Silverado og voru gift í fimm ár, frá 1980-1985. Hann kynntist Geenu Davis þegar þau léku saman í myndinni Transylvania og þau giftu sig í nóvember 1987. Hjónabandið endaði með skilnaði þremur árum síðar. Hann og Emilie hittust hins vegar í líkamsræktarstöð sem bæði sóttu árið 2011. Þau tilkynntu trúlofun sína þremur árum síðar og giftu sig sama ár. Þá var leikarinn sextíu og tveggja ára en þau ákváðu engu að síður að eignast börn. Drengirnir þeirra tveir, Charlie og River eru níu og sjö ára. Hjónabandið virðist mjög hamingjusamt þrátt fyrir að þrjátíu ára aldursmunur sé á parinu og Jeff hefur líkt konu sinni við vita, sagt að vitar hjálpi mönnum að finna rétt leið að sigla í skerjagörðum lífsins.

Með fjölskyldunni en hann varð pabbi mjög seint eða sextíu og tveggja ára.

Fæddur í smábæ

Sjálfur er hann fæddur í smábæ í Pennsylvaníu, West Homestead. Harold, pabbi hans, var læknir og móðir hans, Sylvia, dagskrárgerðarmaður í útvarpi og frumkvöðull. Þau voru gyðingar og söfnuður þeirra var lítill í bænum. Þetta var rólegt sveitalíf og það hentaði Jeff alls ekki. Hann hefur sagst hafa þráð að komast burtu, vitað að hann þurfti að komast burtu frá unga aldri. Hann var strax heillaður af orðum og leiklist og passaði þess vegna alls ekki inn í samfélag sem samanstóð að mestu af verkafólki í stálverksmiðjum bæjarins og börnum þeirra. Hann fékk að fara á hverju ári í sumarbúðir fyrir krakka sem höfðu áhuga á leiklist og þar fann hann sig. Hann flutti til New York og sótti um í Neighboorhood Playhouse-leiklistarskólanum og útskrifaðist árið 1973. Hann fékk fyrsta hlutverkið í kvikmynd ári síðar en það var Death Wish með Charles Bronson í aðalhlutverki og síðan má segja að hann hafi alltaf haft nóg að gera.

Jeff er þekktur fyrir að vera fylgjandi jafnrétti á öllum sviðum. Hann vann með Hillary Clinton þegar hún bauð sig fram til forseta og segir að karlmennska og mennska fari mjög vel saman sama af hvaða kyni fólk sé. Í henni geti falist heiðarleiki, gott siðferði, umhyggja og góðmennska. Þetta séu gildin sem hann reyni að hafa fyrir ungum sonum sínum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 6, 2024 07:00