Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá Líkamsrækt JSB skrifar:
Núna er hann kominn þessi árstími þegar okkur finnst að allt eigi að vera upp á sitt besta. Heimilið þarf að vera skínandi hreint og skreytt og borð þurfa að svigna undan kræsingum. Smekklegar og vel valdar gjafir eru tilbúnar og innpakkaðar tímanlega, öllum sem við þekkjum sendum við vel orðaðar og hugheilar kveðjur og enginn gleymist. Í ofanálag er eintóm gleði og slökun við völd og við verjum tímanum í góðra vina hópi, ýmist á tónleikum, í bæjarrölti, eða á hlaðborðum, að sjálfsögðu í okkar fínasta pússi og flottasta formi.
Þegar þessum væntingalista er stillt svona upp glottum við kannski út í annað og segjum að það sé nú óþarfi að standa í stórhreingerningum í svartasta skammdeginu. Nóg sé að setja kanil á eldavélahelluna, tilbúið kökudeig í ofninn og spreyja svo hreingerningalegi út í loftið. Það er líka stórgott ráð til þess að gera jólalegt á þremur mínútum. Hins vegar óma þessar væntingaraddir allt um kring og oftast beinast þær að kvenfólkinu. Ósjaldan finna konur til hvínandi sektarkenndar á þessum árstíma og reyna af fremsta megni að klípa af allt of naumum tíma sínum til að mæta hátíðavæntingunum svo að fjölskyldur þeirra geti upplifað gleði- og friðarjól.
Oftar en ekki hafa það verið konur (leyfi ég mér að fullyrða) sem hafa séð um að búa til jólin og gera enn. Á þessum árstíma setja þær því oft eigin velferð í biðstöðu. Líkamsrækt á því til að sitja á hakanum, svo að handhægt dæmi sé nefnt, þar sem hún er hvort eð er ástunduð í þessum takmarkaða frítíma kvenna. Afleiðingin er sú að orkan minnkar og þreytan eykst sem er því miður þvert á það sem til stendur.
Ég ætla ekki að koma með enn eina klisjuna og brýna fyrir fólki að slaka bara á, slá af öllum þessum kröfum og koma svo með eitthvert sniðugt trix í lokin til að auðvelda jólaundirbúninginn. Auðvitað vilja allir gera sitt besta til að þessi stórhátíð takist sem best. Við getum hins vegar reynt að þagga niður í svæsnustu væntingaröddunum sem enn hljóma óáreittar aftan úr myrkustu fortíð og beinast eingöngu að konum.
Ekki reyna að gera það sama og heimavinnandi konur gerðu á árum áður fyrir jólin. Gleymum ekki sjálfum okkur og mikilvægi þess að hafa næga orku til að geta glaðst til jafns við aðra í fjölskyldunni. Gefum okkur tíma til að leggja rækt við okkur, það skilar sér margfalt til baka.
Gleðilega hátíð!