Það þarf ekki að lýsa því fyrir þeim sem eru komnir um og yfir miðjan aldur, hvað jólahald hefur breyst mikið síðustu áratugina og hvað aðventan er orðin fyrirferðarmikil í jólahaldinu. Það er langur vegur frá þeim dögum þegar allt var þrifið í hólf og gólf, ný föt saumuð og gluggatjöldin meira að segja þvegin fyrir jólin. Skreytingar voru fábrotnar og stundum voru hús ekki skreytt fyrr en á Þorláksmessu eða aðfangadag. „Það hefur orðið rosaleg breyting með nýjum kynslóðum“, segir Kristín Mogensen kennari. „Nú er fólk farið að skreyta á fyrsta í aðventu. Stærstu verslanirnar eru byrjaðar með jólin um miðjan október og fólk tekur þátt í þessu“. Hún segist hafa það á tilfinningunni að margir fari mikið á tónleika og jólahlaðborð og mikil aukning hafi átt sér stað síðastliðin ár.
Kæfupartý á aðventunni
Kristín segist yfirleitt fara á jólatónleika með sinni nánustu fjölskyldu og borðar hún þá saman, annað hvort fyrir og eftir tónleika. Á annan áratug hefur hún hins vegar haldið kæfupartý á aðventunni. „Ég hef búið til kæfu að dönskum sið, eftir hundgamalli uppskrift. Ég gaf þetta vinum og vandamönnum en síðan breyttist þetta þannig að ég fór að bjóða þessum vinum og vandamönnum heim í kæfupartý. Þetta hefur verið skemmtileg aðventuveisla og allir gestirnir eru svo leystir út með kæfu“. Kristín segist steikja beikon og sveppi saman og setja ofan á kæfuna, en hún hefur líka síld og tvíreykt hangikjöt á borðum í kæfupartýinu. „Þetta hefur verið rosalega gaman og alltaf tilhlökkunarefni“, segir hún
Skrifar jólabréf á aðventunni
Jón Björnsson sálfræðingur og rithöfundur situr hins vegar og skrifar bók á aðventunni að þessu sinni. En síðustu 20 árin skrifar hann ævinlega jólabréf á aðventunni og sendir vinum og ættingjum. Hann sendir það út í umslagi með frímerkjum, ekki á tölvu, enda segir hann að þessi siður sé frá því löngu fyrir daga tölvunnar. Hann sendir milli 50 og 60 jólabréf og segir aðalmálið að koma þeim í póst þannig að þau berist viðtakendum í tíma.
Ekki að skrifa jólabók
Bókin sem Jón er að skrifa, er ekki „jólabók“ í þeim skilningi og alls ekki markmiðið að ljúka henni fyrir jól. En hún tengist samt kristinni trú. „Hún er um ferðalag sem ég fór í fyrra um frægustu pílagrímaleið Norðurlanda. Leiðin liggur frá Sundsvall í Svíþjóð til Stiklastaða í Noregi, þar sem Ólafur helgi var veginn á sínum tíma, og þaðan áfram til Þrándheims. Leiðin heitir Ólafsvegur. Eftir að Ólafur missti völd í Noregi, flúði hann til Rússlands. Hann hugðist endurheimta völdin og hélt til Noregs frá Svíþjóð. Þegar hann kom niður í Þrændalög var hann drepinn þar. Dómkirkjan í Niðarósi var reist yfir líkamsleifar hans og hann varð verndardýrlingur Noregs“, segir Jón og minnir á að saga Ólafs sé aðalefni Heimskringlu Snorra Sturlusonar.
Ekki búin að kveikja að aðventukertunum
Hildur Kjartansdóttir bókaútgefandi segist ekkert byrjuð að skreyta fyrir jólin „Ég er ekki einu sinni búin að sækja aðventu kertastjakann niður í geymslu ennþá, en ætla að gera það um helgina“. Hildur segir að þetta sé óvenjulegt en hún hafi verið svo upptekin að undanförnu á æfingum í kórnum sínum Cantabile en hann syngur á jólatónleikum í Hallgrímskirkju í næstu viku. Það eru sameiginlegir jólatónleikar fjögurra kóra sem Margrét Pálmadóttir stjórnar. „Við erum búnar að æfa stíft“, segir Hildur sem er farin að hlakka til tónleikanna sem verða 14.desember klukkan 20. „Kórarnir syngja bæði saman og sitt í hvoru lagi og svo eru frábærir einsöngvarar sem syngja með okkur. Þóra Einarsdóttir er aðalstjarnan“.
Heldur Litlu jólin
Hildur segir að á aðventunni í ár ætli hún að vera með „Litlu jólin“ fyrir son sinn og fjölskyldu hans en þau verði í útlöndum um þessi jól. „Ég bý svo til danska „leverpaastej“ um helgina, sem ég frysti. Við borðum hana svo á aðventunni. Ég undirbý líka jólamatinn á aðventunni með því að búa til bæði rauðbeður og rauðkál“, segir hún og brosir. „Smákökubaksturinn fer hins vegar fram í gæðabakaríinu Sandholt sem bakar og selur heimsins bestu smákökur!“.