Að finna hinn eina rétta eftir sextugt

Flestum þykir skemmtilegt að heyra sögur af rómantískum samböndum. Og hvers vegna ekki? Þær gefa okkur von um að við getum líka fundið ástina og lifað hamingjusöm upp frá því! En hér fyrir neðan koma fimm ástæður sem gera að verkum að það getur verið erfitt að finna hinn eina rétta eftir sextugt. Þær eru fengnar af vefnum Sixtyandme og greinina skrifaði Lisa Copeland. Gefum henni orðið.

1. Þú miðar þig við ástina á hvíta tjaldinu

Ástarsögurnar í bíó láta þér líða vel, en gættu þess að þær byggjast ekki á raunveruleikanum. Ef þú hefur hugmyndir þínar um hvernig ástin eigi að vera úr Hollywood kvikmyndum er líklegt að þú verðir ráðvillt og finnir hinn eina rétta aldrei.

Ævintýralegar ástarsögur þar sem söguhetjurnar eru glæsilegar kvikmyndastjörnur villa um fyrir þér.  Enda, hver skyldi hafa förðunarmeistara, stílista og hárgreiðslufólk á hverjum fingri allan daginn? Þetta afburða útlit ástfanginna para í hvíta tjaldinu gerir það að verkum að þú tekur ekki eftir góðum mönnum sem eru bara í meðallagi þegar kemur að útlitinu.

En þeir geta verið hinir raunverulegu draumaprinsar, sem bíða þín með vínglas í lok dags, standa með þér þegar allt gengur vel og líka þegar hlutirnir ganga ekki nógu vel, elska þig eins og þú ert. Þannig er maðurinn sem þú ættir að vera að leita að.

2. Þú tekur ákvörðun útfrá skyndiskoti

Ég hef tekið eftir að flestar konur gera sér ekki grein fyrir hvers konar mann eða hvernig samband þær vilja.  Ég veit að þetta virðist augljóst fyrir marga, en ég spyr konur að því á hverjum degi, að hverju þær séu að leita. Þær segjast oft ekki vera vissar um það, en þær muni vita það um leið, hitti þær þann rétta.

Það þýðir að þær nota réttu „kemistríuna“ eða ást við fyrstu sýn sem  mælikvarða á hver sé sá  rétti fyrir þær. En það er bara ekki góður mælikvarði.

Það þýðir eingöngu að sambands hormónið oxytoci, losnaði úr læðingi þegar þið hittust. Vandinn við það er að hrifningin blindar þig og fær þig til að halda að þú getir treyst manni þegar svona lagað gerist, þegar raunin er sú, að það er kannski ekki hægt að stóla á hann.

Í stað þess að nota „kemistríuna“ eða hrifninguna til að ákveða hvort þetta er rétti maðurinn, gerðu eins og skjólstæðingar mínir. Gerðu þér skýra grein fyrir því hvernig manni þú vilt kynnast og byggðu það á að skoðanir hans rími við þínar og hvað það er sem þú myndir aldrei sætta þig við í fari hans. Hugaðu að mynstrinu sem þú hefur alltaf fallið inní þegar kemur að samböndum við karlmenn. Samböndum sem virkuðu ekki. Spáðu í, hvaða eiginleikum þér finnst að framtíðar draumamaðurinn eigi að vera búinn og hvað það er sem gerir að verkum að þér líður vel í návist karlmanns.

Skrifaðu þetta niður. Þegar þú ert komin með ákveðna mynd af rétta manninum fyrir þig, er það eins og merki út í alheiminn, um að þetta sé það sem þú vilt.

Annar kostur við það að hafa skýra mynd af þeim manni sem þú vilt kynnast er að þú verður fær um að finna hann, því þú ert opin fyrir þeim möguleika að hitta einmitt þann sem þú ert búin að ákveða að þig langi að deila lífinu með.

3. Þú leitar bara á netinu

Flestar konur stóla eingöngu á netið til að hitta karlmenn. Þegar það gengur svo ekki, sem gerist oftast, gefast þær upp og ímynda sér að það sé enginn þarna úti ætlaður þeim.

Þegar sú hugsun verður allsráðandi hjá þér, verður það yfirleitt til þess að þú gefur drauminn um að stofna til sambands á ný, alveg uppá bátinn.

Til að koma í veg fyrir að þetta gerist, er gott að búa til svokallað stefnumóta kort, sem felur í sér fjórar leiðir til að hitta karlmenn.

Það er gott að vera með tvær af þessum leiðum í gangi á hverjum tíma, ef þú hefur áhuga á að kynnst einhverjum. En þessar leiðir eru:

  • Stefnumótasíður
  • Að hitta karlmenn í raunheimum
  • Hjónabandsmiðlun. Þessi aðferð er að vísu ekki stunduð hér á landi eftir því sem Lifðu núna kemst næst, en í þessari bandarísku grein segir að það geti reynst álíka erfitt að finna einhvern þar og á stefnumótasíðunum á netinu, hafir þú ekki hugmynd um hvernig manni þú vilt kynnast.
  • Biðja vini um að kynna þig fyrir karlmönnum sem eru á lausu.

4. Þú ert með fordóma gagnvart karlmönnum

Hér koma mikilvægar ábendingar um atriði sem valda því að þér tekst ekki að finna ástina, en það eru skoðanir þínar á karlmönnum. Þær algengustu sem greinarhöfundur segist heyra eru þessar:

  • Allir karlarnir á netinu eru svo ellilegir. Þeir eru eins og afi minn eða pabbi.
  • Það er ekki hægt að finna neina góða menn yfir fimmtugu. Þeir eru allir fráteknir
  • Karlar á mínum aldri eru ekki eins líflegir og ég.
  • Karlar fara bara á stefnummót með yngri konum. (EKKI SATT)

Kannastu við eitthvað af þessu? Ef svo er, kemur það í veg fyrir að þú finnir góðan mann til að deila ástinni með. Ástæðan fyrir því að þú slærð alla þessa varnagla, er að þú ert að vernda þig, þannig að þú verðir ekki fyrir vonbrigðum. En í stað þess að vernda þig koma þeir í veg fyrir að þú getir látið drauma þína rætast.

5. Þú vilt kynnast þeim rétta á stundinni

Margar konur mæta á stefnumót með það sem ég kalla, Stefnumóta spurningalistann. Þetta eru spurningar eins og:

Hvað gerir þú?

Hversu mörg börn átt þú?

Hvers vegna skilduð þið hjónin?

Þessari spurningaskothríð er ætlað að finna það út áður en fyrsta kaffibollanum er lokið, hvort hann sé sá rétti fyrir þig. Gefðu mönnum tækifæri í stað þess að bauna á þá öllum þessum spurningum. Slakaðu á að reyndu frekar að finna út eitthvað nýtt og áhugavert um viðkomandi.

Það er hægt að gera með því að spyrja spurninga svipaðar þeim sem eru hérna fyrir neðan. Þær veita góðar upplýsingar án þess að grilla manninn algerlega.

Hvað langar þig mest að gera í lífinu?

Hvað er skemmtilegast við starfið þitt?

Hver er þín hugmynd um gott frí?

Spurningar af þessu tagi geta vakið upp skemmtilegar umræður. Þær geta fengið fólk til að hlæja, finna út hvaða reynslu það á að baki sem skarast og hvað það á sameiginlegt. Svo gera þær stefnumótin að ánægjulegri upplifun.

 

Ritstjórn ágúst 20, 2020 08:42