Það var í nóvember árið 1976 sem Dabglaðið (DB) birti grein um Kákasusgerilinn eins og hann var yfirleitt kallaður í daglegu tali. Þetta var frétt sem vakti gríðarlega athygli.
Kákasussveppurinn eða Kákasusgerillinn er lífvera sem sýrir mjólk á sérstakan hátt. Verður þá úr henni sá elexír sem lengir líf manna, léttir og bætir tilveruna, að sögn þeirra sem reynt hafa. Er fullyrt að það sé þessum gerli að þakka hversu háum aldri fólk í Kákasusfjöllum nær. Herma heimildir að þar nái menn allt að 150 ára aldri. Ekki liggur þetta fólk í kör heldur nýtur lífsins, giftir sig og getur börn fram eftir öllum aldri. Við hentug skilyrði skiptir sveppurinn sér og er því vandalaust að eignast eintak ef maður þekkir einhvern sem á slíkan svepp. Kákasussveppurinn sýrir mjólk sem hann er settur út í. Verður mjólkin þá svipuð jógúrt með sérstöku, góðu bragði sem erfitt er að lýsa. Sumir segja að bragðið verði líkt og af kefír, búlgörskum súrmjólkurrétti. En það er ekki bragðið heldur áhrifin sem gera þennan svepp eða geril svo eftirsóknarverðan. Dagblaðið hefur orð greinargóðs fólks, sem neytt hefur þessarar fæðu, fyrir því að það hressist mjög og kætist þegar það borðar Kákasus-sveppinn. Sagt er að sveppurinn sé tvímælalaust heilsubætandi og gera menn sér vonir um að hann lengi lífdagana og bæti á margvíslegan hátt. Fer þessi sveppur nú sem eldur í sinu víða um land og fá færri en vilja. Þá er talið að sveppinum þurfi að sýna tilhlýðilega nærgætni. jafnvel umönnun, ef hann á að koma að fullum notum.
„Þetta er sennilega mjólkursýrugerill eða lacto-bacillus,“ sagði Guðni Alfreðsson lífeðlisfræðingur í viðtali við Dagblaðið. „Hann er einn þessara nytsömu gerla sem sundrar mjólkursykri í mjólkinni og myndar sýrur. Þessu samfara verða aðrar breytingar, svo sem á bragði. Af þeim eru til mörg afbrigði,“ sagði lífeðlisfræðingurinn.
„Það er erfitt að hrekja þessar staðhæfingar,“ sagði Guðlaugur Hannesson, sem þá var efnafræðingur hjá matvælarannsóknum ríkisins. Ég held að þetta sé ein af þessum gerjuðu mjólkurafurðum, sem taldar eru til heilsudrykkja,“ sagði Guðlaugur. „Eg hefi heyrt að til þess að beztu skilyrði náist fyrir þennan geril þurfi að hita mjólkina eitthvað. Fyrst og fremst verður þó að gæta fyllsta hreinlætis og öll ílát verða að vera tandurhrein,“ sagði Guðlaugur Hannesson. Hann bætti því reyndar við að gamaldags íslenzkt skyr væri merkileg og góð heilsufæða. Eins og frarm kemur af ofanrituðu fengust tveir sérfræðingar til þess að kannast við og ræða „Kákasusgerilinn“ þegar eftir var leitað. Dagblaðið hefur öruggar spurnir um fjölda manna sem nota þennan geril nú þegar til þess að sýra með mjólk og gerja. Fer ekki á milli mála að þeir, sem blaðið hefur haft tal af, fara mjög lofsamlegum orðum um eiginleika og ágæti þessarar fæðu. Þó nokkrir telja sig hafa fundið til mjög batnandi heilsu í ýmsu tilliti. Sjá þeir fram á lengra og betra líf en áður en þeir tóku að neyta þessarar fæðu.
Stefán Björnsson þáverandi forstjóri Mjólkursamsölunnar var einn þeirra sem rætt var við um Kákasusgerilinn og hann sagði meðal annars:
Ég hugsa að þessi mikli áhugi á gerlinum gangi yfir eins og hvað annað. Ég veit ekki til þes að hægt sé að lækan eins marga sjúkdóma með honum og af er látið. En súrmjólkin sem af honum kemur er holl ef hún er hreinlega framleidd.
En hvað með jógúrtina og íslenzka skyrið? Af hverju geta menn ekki notað það? Ef fólk vildi bara hætta að ausa sykri út á skyr og hætta að borða það með rjóma, þá er skyr einhver albezta megrunarfæða sem til er.
Viðbrögðin við greininni í nóvember 1976 létu ekki á sér standa. Það reyndist gífurlegur áhugi á þessum framandi gerli. Allir vildu eiga sinn eigin geril í ísskápnum.
Kákasusgerillinn, sem við skrifuðum um í mánudagsblaðinu hefur nú eignazt fjölmarga aðdáendur hér á landi. Símalínur blaðsins hafa verið rauðglóandi, fólk vill fá upplýsingar um hvar hægt sé að komast yfir gersemina.
Við verðum því miður að upplýsa að gerillinn er ekki falur sem stendur en til greina gæti komið að einhverjir gætu fengið af DB gerlinum þegar honum vex fiskur um hrygg. Norkkrir eru þegar komnir á biðlista.
Það er ýmislegt spaugilegt sem hefur komið á daginn í sambandi við gerilinn. Maður nokkur hringdi uppúr átta á þriðjudagsmorgun og vildi láta í ljós sína skoðun. Hann var einn af þeim heppnu sem átti eintak af gerlinum og ætlaði að prófa nýju „uppskriftina“, að nota undanrennu á hann í staðinn fyrir mjólk. Maðurinn komst að raun um að gífurlega mikil sala hafði einmitt verið á undanrennu á mánudaginn og hún var uppseld alls staðar þar sem hann spurði eftir henni.
Kona nokkur hafði samband við blaðið og sagði að vinafólk sitt hefði lent í stökustu vandræðum þegar það ætlaði í sólarlandaferð.
Þá kom upp það vandamál hvað ætti að gera við gerilinn. Börn og heimilisdýr er hægt að biðja fólk fyrir, – en tæplega er hægt að biðja einhvern að „passa“ gerilinn sinn.
Það fór fyrir Kákasusgerlinum eins og svo mörgu sem farið hefur eins og eldur í sinu um Ísland. Hann hvarf á endanum og það hefur varla heyrst af honum síðan. En í þessu sama blaði voru hins vegar auglýstar sólarlandaferðir um jólin, bæði til Tenerife og Kanarí. Þótt það séu hátt í fimmtíu ár síðan þetta var, lifa þær ferðir enn góðu lífi í lífsháttum landsmanna.