Notkun kannabis-jurtarinnar í lækningaskyni hefur verið leyfð víða um heim og enginn vafi er á að hún getur gagnast mörgum við ýmsum sjúkdómum. En margvíslegar aukaverkanir geta einnig fylgt. Fylgjendur þess að leyfa notkun hennar telja að kannabis eða marijúana sé ekki verra en önnur lyf. Hér á landi hefur svokölluð CBD-olía verið til sölu og margir nota hana með góðum árangri en hún inniheldur lítið af þeim efnum er valda vímu.
Kannabis til lækninga er unnið úr plöntunni Cannabis sativa. Í henni er að finna meira en hundrað efni sem hafa margvísleg áhrif á líkamann, m.a. draga úr bólgum og verkjum, slaka á vöðvum og minnka framleiðslu streituhormóna. Þessi efni eru helst: delta-9 tetrahýdrócannabinól eða THC og cannabídíol eða CBD. THC er virka efnið sem hefur áhrif á heilann og getur létt lundina, dregið úr árásargirni og neikvæðum hugsunum. CBD slakar á vöðvum, dregur úr bólgum og hefur góð áhrif á slímhúð. Sum afbrigði Cannabis-plönntunnar innihalda meira magn CBD en THC og þau afbrigði eru þær plöntur sem ræktaðar eru til þess að vinna lyf og fæðubótarefni sem innihalda CBD.
Meðal þeirra sjúkdóma sem CBD er sagt hafa góð áhrif á eru:
Alzheimer-sjúkdómurinn
Hreyfitaugahrörnun
HIV/AIDS
Crohn’s-sjúkdómurinn
Flogaveiki og krampi
Gláka
Heila- og mænusigg MS
Áfallastreita
Krónískir verkir
Alvarleg og viðvarandi ógleði t.d. vegna krabbameinslyfjameðferðar
Meðal aukaverkana af notkun kannabis í lækningaskyni eru:
Hraður hjartsláttur
Svimi
Þokukennd hugsun og minnistruflanir
Minni viðbragðsflýtir
Aukin hætta á hjartaáfall og heilablóðfalli
Kvíðaköst
Ánetjun, þ.e. einstaklingurinn þróar með sér fíkn
Ofskynjanir
Að auki getur inntaka kannabis skapað hættu séu menn að taka önnur lyf því það virkar ekki vel með ýmsum lyfjum og þess vegna ætti alltaf að ráðgast við lækni áður en ákveðið er að nota það. Kannabis er hættulegt ófrískum konum vegna þess að það getur komið fæðingu af stað fyrir tímann og gert konum erfiðara fyrir að fæða.
Hvernig er kannabis notað?
Hægt er að anda að sér marijúanablómum muldum og blönduðum við tóbak, sem sagt reykja það í pípu, sígarettu eða gegnum vape-tæki.
Marijúana er fáanlegt í hylkjum til inntöku og það þekkist einnig og er orðið algengt erlendis að blanda það saman við gel. Þá lítur það út eins og hlaupsælgæti, gúmmíbirnir eða annað. Það er einnig hægt að blanda því saman við kökudeig og baka það.
Sumir kjósa að nota sprey og úða því upp í munninn. Þar blandast það munnvatni og er fljótt að virka.
Marijúana er einnig blandað í áburð eða smyrsl og þá er hægt að bera það á bólgna og sára líkamshluta, eins og auma liði sem eru bólgnir af gigt.
Yfirleitt virkar marijúana hraðast þegar því er andað inn þ.e. reykt. Hylkin virka hægast því þau þarf fyrst að leysa upp í meltingarveginum áður en áhrifa fer að gæta.
Munurinn á marijúana sem ætlað er til lækninga og þess sem keypt er ólöglega á götunni er að það fyrra er mun hreinna og betur unnið, enda framleitt á löglegan hátt undir eftirliti fagfólks. Það læknar engan en hefur reynst vel til að hjálpa fólki að draga úr einkennum sjúkdóma og lifa með fylgikvillum lyfja sem það verður að taka.
Kannabisplantan er einær og tvíkynja planta. Kannabínóíðar finnast bæði í karl- og kvenplöntunni en það eru kirtilhár á blómunum sem skilja út kvoðu sem inniheldur virku efnin.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.