Þegar Samúel Örn Erlingsson hafði verið íþróttafréttamaður á Ríkisútvarpinu í 25 ár, meira en helming ævinnar, fannst honum kominn tími til að breyta til og gera eitthvað annað. Síðan þá hefur hann lagt stund á háskólanám, setið í bæjarstjórn og á Alþingi, verið fararstjóri auk þess að kenna í grunnskóla. Þá hefur hann gert sjónvarpsþætti í hjáverkum og sjálfsagt eitthvað fleira.
Skemmtilegt á Ríkisútvarpinu
„Tilviljanir réðu því að ég hóf störf á Ríkisútvarpinu. Ég ánetjaðist starfinu og fannst ég aldrei hafa gert neitt skemmtilegra. Ég byrjaði í útvarpinu og var svo bæði í útvarpi og sjónvarpi,“ segir Samúel. Síðustu fimm árin á Ríkisútvarpinu gegndi hann starfi íþróttastjóra.„Það var mjög spennandi starf og ég lærði mikið af því. Það hafði auðvitað í för með sér að ég hugleiddi að takast á við nýjar áskoranir,“ segir Samúel. „Þegar þarna var komið sögu voru mörg verkefni mín á alþjóðlegum vettvangi, skipulagning útsendinga okkar frá Ólympíuleikum allt frá 1994, samstarf við Eurovision, Evrópusamband sjónvarpsstöðva, samningar við erlenda og innlenda aðila og svo framvegis. Ég var búinn að vera í háskóla íslenskra fjölmiðla, Ríkisútvarpinu, í meira en aldarfjórðung. En ég hafði ekki gert margt af því sem ég hafði hugsað mér ungur maður,“ segir hann. Ungi maðurinn sem hér er vísað til lauk íþróttakennaraprófi um tvítugt. Sá hinn sami var á leið í háskólanám, þegar hann byrjaði í útvarpinu. Hann hafði haft áhuga á hestamennsku frá barnæsku og þótt störf í ferðamennsku heillandi. Samúel Örn fór í framboð vorið 2006 og varð varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi. Hann fór einnig í framboð til Alþingis og var varaþingmaður Framsóknarflokksins í Kraganum, 2007 -2009. Á árinu 2008 tók Samúel þrisvar sinnum sæti á Alþingi. Hann var varabæjarfulltrúi í Kópavogi 2006 til 2010, stýrði leikskólanefnd bæjarins og sat í hafnarstjórn Kópavogs.
Á þingi í hruninu
„Ég sat á Alþingi í október 2008 þegar Ísland hrundi. Það var ótrúleg reynsla. Margt í stjórnmálavafstrinu heillaði mig, sérstaklega starfið á Alþingi. Mér fannst gefandi og skemmtilegt að vinna í nefndum, að lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum. Það er flott fólk sem vinnur á Alþingi,“ segir hann. Hrunið breytti hins vegar öllu, fólk fylltist reiði og umhverfið varð fjandsamlegt. Samúel mat það svo að það yrði erfitt að koma uppbyggilegum hlutum í verk og hætti afskiptum af stjórnmálum. „Pólitík varð þannig að mér fannst enginn fá tækifæri nema í stundarfjórðung. Eftir það voru menn kallaðir þjófar og þrjótar, alveg sama hvaðan þeir komu, fyrir hvað þeir stóðu eða hvert þeir stefndu. Margir halda að fólk fari í pólitík af annarlegum hvötum. Sama hvað fólk heldur, þá fór ég í pólitík til að gefa af mér eitthvað af því góða sem ég hef verið svo gæfusamur að njóta í lífinu. Úr því að fólk sýndi því áhuga að ég ynni í almannaþjónustu á þennan hátt, fannst mér sjálfsagt að taka þeirri áskorun,“ segir Samúel. En það að hella sér út í pólitík hefur ýmsar hliðarverkanir.
Takmarkar eða eyðileggur ferilinn
„Að tengjast pólitík og ákveðnum flokki í besta falli takmarkar, eða eyðileggur feril fjölmiðlamanna sem slíkra,“ segir hann. Það urðu skil í atvinnusögu Samúels Arnar við hrunið. Hann sat á þingi í tvær vikur í október 2008 en hafði enga fasta vinnu þegar þeirri afleysingu lauk. Hann var á þessum tíma að ljúka viðbótarnámi í íþrótta- og heilsufræðum í Háskóla Íslands. „Ég notaði tímann haustið 2008 til að snurfusa lokaverkefnið mitt,“ segir hann. Hann fór líka sækja um störf, sótti um tugi starfa. En veturinnn 2008 héldu fyrirtæki að sér höndum og réðu ekki fólk til starfa nema þau nauðsynlega þyrftu. ,,Mig langaði að gera eitthvað spennandi, t.d. hjá einhverju af þessum skapandi fyrirtækjum á landinu. Sá fyrir mér að ég hefði ýmislegt fram að færa með minn fjölbreytta bakgrunn, til dæmis í almannatengslum eða samskiptum, innlendum sem erlendum. Ég er sterkur í tungumálum og hef allar götur unnið náið með fólki,“ segir Samúel.
Hefur upplifað höfnun
Spurður hvort hann hafi upplifað höfnun, játar hann því. „Höfnun er alltaf erfið og neikvæð. En það er ríkt í mér að halda bara áfram og staldra ekki um of við það sem liðið er.“ Kennaramenntun og frekara nám komu sér vel fyrir hann og honum bauðst að kenna dönsku í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ, þar sem hann kenndi næstu fjögur árin. Þá réði hann sig í Hörðuvallaskóla í Kópavogi og kennir nú þremur elstu árgöngum grunnskólans íslensku. Frá sumrinu 2008 hefur hann einnig verið leiðsögumaður erlendra ferðmanna í hestaferðum um Ísland og gert sjónvarpsþætti um hesta, aflraunir, íþróttir og íþróttafræði. Samúel finnst gaman að kenna og ekki síður gaman að fræða útlendinga um land og þjóð. Á sama tíma hefur hann lagt stund á meistaranám í fjölmiðlun. „Ég tók mér hlé frá náminu af því ég þurfti að bæta við mig vinnu. Það er löngu kominn sá tími að ég verð að ákveða hvort að ég ætla að ljúka þessu námi eða ekki. Mig langar að ljúka meistaraprófi.“
Vilja ekki fólk á miðjum aldri
Ferill Samúels Arnar markast af því að hann er alltaf að segja sögur og segja fólki til. Frétt er jú ekkert annað en örsaga með upphaf, miðju og endi. Á Ríkisútvarpinu fékk hann oftar en ekki það hlutverk að taka nýliða undir sinn verndarvæng og hjálpa þeim fyrstu skrefin. „Það er ekkert skrítið að ég hafi endað aftur í kennslunni. Hún er ástríðustarf, líkt og fjölmiðlastörfin.“ Vinnumarkaðurinn er ekki endilega hliðhollur fólki sem komið er yfir fimmtugt. „Í gegnum þetta allt og sviptingarnar eftir hrun hefur mér auðvitað orðið umhugsunarefni hvað sum fyrirtæki og stofnanir eru treg að ráða fólk á miðjum aldri til starfa. Þetta er fólk með mikla reynslu og þekkingu. Það mætir alla daga til vinnu, á uppkomin börnin og er oftast löngu búið að koma sér fyrir efnahagslega. Þessu veldur auðvitað margt. Ungt fólk er mjög vel menntað í dag.“
Æskudýrkun í samfélaginu
Samfélagið er ævinlega æskutengt, æska og kraftur eru alltaf spennandi. Svo er mikið til af frambærilegum konum, án þess að vinnumarkaðurinn endurspegli það. Hér er rosalega mikill óleiðréttur kynjakvóti. Ég held að í sumum tilfellum eigi karlar engan séns,“ segir hann og leggur áherslu á orð sín. „Svo hafa nú sumir sagt að þeir sem einu sinni tengjast pólitík þyki afar óspennandi kostur á atvinnumarkaði. Mér finnst stundum talað um fyrrverandi stjórnmálamenn eins og afsláttarhross. En ég held raunar að það sé alverst fyrir þá sem eru áfram í pólitík, en missa þingsæti eða borgarstjórnarsæti. Þeir aðilar stefna náttúrulega inn aftur og geta því virkað óstöðugur vinnukraftur sem er stöðugt á útleið. – Sjálfur hef ég hins vegar ekki áhyggjur af þessu, ég er löngu hættur og var svo stutt á þessum sleipa velli að ég festist aldrei í pólitík, “ segir Samúel Örn Erlingsson og hlær.
Úr myndaalbúmi Samúels Arnar