Dásamleg fylling í tortilla köku – holl og bragðgóð

Hér er fylling í tortillakökur sem verður að teljast holl og óhætt er að bjóða fólki á öllum aldri og nánast hvaða matarstefnu sem þeir aðhyllast. Í uppskriftinni er ekki kjöt en auðvitað má bæta við kjúklingabitum ef óskað er. En rétturinn stendur alveg fyrir sínu eins og uppskriftin segir til um. Verði ykkur að góðu!

Tortillakökur, fást tilbúnar í stórmörkuðum. Ristaðar á þurri pönnu.

Fylling í kökur

kínóa, sjá uppskrift aftar

1 rauð paprika, skorin í smá bita
1 gulrót, skorin í þunna strimla
½ rauðlaukur, smátt saxaður
½ búnt kóríander, saxað
½ chilialdin, saxað með fræjum
safi úr ½ límónu

Blandið öllu saman í skál.

Bragðsterkt kasjúhnetukurl

200 g kasjúhnetukurl, fæst tilbúið í Krónunni
1 msk. hlynsíróp
½ tsk. cayennepipar
sjávarsalt

Þurrristið kasjúhnetur á pönnu. Þegar þær eru farnar að ilma og byrjaðar að brúnast, slökkvið á hitanum og bætið þá hlynsírópi, cayenne og sjávarsalti saman við. Hrærið þessu saman í 30 sekúndur og kælið lítillega.

Kínóa

Kinóa er frætegund, einstaklega holl og tilvalið að nota með öðru hráefni í salöt og fyllingar. Ástæðan fyrir því að kínóa er orðin svona vinsæll matur er ekki bara ljúffengt bragðið sem er létt með mildum hnetukeimi. Það er einstaklega prótein-, steinefna- og næringarríkt, er ríkt af andoxunarefnum, fer vel í maga og passar með nánast hverju sem er, bæði sætu og krydduðu. Próteinið inniheldur allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar og er því flokkað sem „fullkomið prótein“

½ dl kínóa

½ dl vatn

1 msk. sesamolía

½ tsk. cayennepipar

Látið vatn og kínóa saman í pott og hitið að suðu. Setjið þá á lágan hita í 10 mínútur. Slökkvið þá á hitanum og látið lok á pottinn. Eftir 10 mínútur er kínóa fulleldað. Látið í skál ásamt sesamolíu og kryddum. Bætið þá hinum hráefnunum saman við og endið á að toppa með kasjúhnetum. Berið fram með sýrðum rjóma og guacamole og jafnvel nachos. Það gleður yngra fólkið sérstaklega en líka þá eldri.

Ritstjórn október 8, 2021 13:46