Veitti eins mikinn afslátt og hægt var

Margir hafa ugglaust veitt athygli auglýsingum frá Gleraugnabúðinni í Glæsibæ, sem veitir eldri borgurum 35% afslátt af gleraugum og hefur gert alveg síðan verslunin var opnuð fyrir 11 árum.  Markus Stephan Klinger sjóntækjafræðingur stofnaði verslunina á sínum tíma.  Þá var hann búinn að reka gleraugnabúðina Sjón á Laugavegi í nokkur ár.  Hann segist strax þá hafa farið að velta fyrir sér hvaða kaupendahópur þyrfti að fá sérlega gott verð.  Það varð til þess að Sjón fór að bjóða sérstök skólatilboð fyrir skólabörn.

Skemmtilegir viðskiptavinir

Þegar hann opnaði svo verslun í Glæsibæ, segist hann hafa tekið eftir því að þar bjó mikið af eldra fólki.  Félag eldri borgara var einnig með starfsemi í Glæsibæ og hann byrjaði að ræða við fólk þar, um hvort áhugi væri á samstarfi.  Það var ljóst að eldri borgarar höfðu ekki mikið á milli handanna og ýmis fyrirtæki voru að veita þeim 5-10% afslátt  „Ég vildi fá sem flesta eldri borgara til mín, enda finnst mér þeir mjög skemmtilegir viðskiptavinir og reiknaði út hver væri mesti afsláttur sem ég gæti mögulega veitt“, segir Markus.  Hann ræddi við gleraugnaframleiðendur sem hann skipti við og fékk þá í lið með sér og segist strax hafa ákveðið að veita þeim sem eru í Félagi eldri borgara 35% afslátt.

Markus Stephan Klinger

Markus Stephan Klinger

Veitti öryrkjum sama afslátt

Markus segir að þessi viðskipti hafi gengið vel og þetta hafi mikið spurst út meðal eldra fólks. Hann segist hafa vandað sig og bjóði góð gleraugu og góða þjónustu.  Hann hafi meira að segja verið með þjónustu við fólk heima og hafi farið til dæmis á Hrafnistu. Markus rekur gleraugnaverslunina Sjón á Laugavegi í dag, en á ennþá helmingshlut í versluninni í Glæsibæ.  Veittur er 35% afsláttur fyrir eldri borgara í báðum þessum búðum.  Þegar Markus varð þess áskynja að öryrkjar fengju enga styrki eða bætur fyrir gleraugum, ákvað hann að veita þeim sama afslátt og eldri borgurum.

Foreldrunum leist betur á Ísland

Markus sem er Austurríkismaður réði sig til starfa á Íslandi þegar námi hans ytra lauk.  Hann gat líka fengið vinnu á Madagaskar, en foreldrar hans báðu hann um að fara frekar til Íslands.  Hann hefur svo ílenst hér.  „Ég er mikið náttúrubarn, mér finnst Ísland fallegt og Íslendingar skemmtilegir og svo á ég 14 ára son hér“, segir hann.  Hann vann upphaflega  í Fókus í Lækjargötu, en opnaði eigin verslun í Borgarkringlunni þegar hún tók til starfa árið 1991. Hann segist vera búinn að selja 55.000 gleraugu síðan þá. Hann segist alltaf hafa haldið sig við vönduð gleraugu frá Evrópu, sérsmíðuð.  „Það skiptir svo miklu máli“, segir Markus „því gleraugun snúast um sjónina, útlit og vellíðan“.

Eldri gleraugnaumgjarðir vinsælar

Og Markus á eftir að selja Íslendingum enn fleiri gleraugu, því hann er á næstunni  að opna Gleraugnaverslunina Retró í Kjörgarði á Laugavegi, á hæðinni fyrir ofan Bónus.  Hann keypti nefnilega Optik, elstu gleraugnabúð á Íslandi og fékk með henni 5000 gleraugnaumgjarðir frá árunum 1948-1989. Hann segir eftirspurn eftir gömlum umgjörðum og kvikmyndafyrirtæki hafi til að mynda fengið hjá sér gleraugu.  En Retró búðin í Kjörgarði verður sannarlega retró, því í henni verða „orginal“ innréttingar frá 1968.  Allar gömlu gleraugnaumgjarðirnar kosta 7.500 krónur.

 

Svona verður Retró gleraugnaverslunin

Svona verður Retró gleraugnaverslunin

Ritstjórn ágúst 12, 2015 12:15