Heimurinn er líka lítill úti í hinum stóra heimi

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Haustið 2018 dvöldum við hjónin í Stokkhólmi. Þegar við fréttum að góðkunningi okkar, Þórarinn Eldjárn, væri væntanlegur til borgarinnar til að lesa úr verkum sínum í íslenska sendiráðinu, höfðum við strax samband við sendiráðið og spurðum hvort við mættum koma þangað til að hlusta á Þórarinn. Sendiráðsritarinn svaraði okkur um hæl og bauð okkur velkomin.

Þegar í sendiráðið kom uppgötvuðum við að sendiherrann, Estrid Brekkan, var ekki aðeins gömul skólasystir mannsins míns, heldur hafði hún verið samtíma okkur í New York í lok sjöunda áratugarins, þar sem hún var að stíga sín fyrstu skref á farsælum ferli í íslensku utanríkisþjónustunni.

Í sendiráðinu hitti ég líka fyrrverandi atvinnuveitanda minn og yfirmann, Nönnu Hermansson, sem var forstöðumaður Árbæjarsafns um árabil, en þar vann ég sem leiðsögumaður sumarið 1975. Það urðu fagnaðarfundir, við höfðum ekki sést í áratugi og bauð Nanna okkur hjónunum í mat nokkrum dögum síðar.

Þegar við gengum inn á heimili hennar og mannsins hennar, Péturs, í rótgrónu úthverfi í Stokkhólmi, þá blasti við okkur fagurlega skreyttur leirskjöldur uppi á vegg. Við hjónin litum hissa hvort á annað, því handbragð skjaldarins kom okkur kunnuglega fyrir sjónir. Þetta var greinilega verk eftir sænsku leir-og glerlistakonuna Lenu Welander, móður fyrrverandi samstarfsmanns mannsins míns, sænska stræðfræðingsins Niklas Welander, sem dvaldi í tvö ár ásamt fjölskyldu sinni í Santa Barbara. Þegar þau kvöddu færðu þau okkur tvo fagra leirdiska eftir Lenu að gjöf, sem prýtt hafa heimili okkar æ síðan. Í ljós kom að Nanna og Pétur höfðu búið í Nyköping, heimabæ Lenu, og hafði þeim orðið vel til vina, og áttu þau fleiri fallega muni eftir hana.

Á leiðinni heim frá Stokkhólmi komum við við hjá dóttur okkar og tengdasyni í New York. Þar tóku þau okkur á listaverkaopnun í heimagalleríi í Brooklyn. Margt var um manninn og mikið skrafað. Þegar ég heyrði konu, sem stóð rétt hjá mér, segja frá því, að hún væri norskur Sami, sperrti ég eyrun. Þannig vildi til, að á meðan á dvöl minni í Stokkhólmi stóð hafði ég einbeitt mér að því að kynna mér sögu og menningu Sama á Norðurlöndum og í Rússlandi, en þegar ég nam þjóðháttafræði í Lundi á árunum 1972–1976 lásum við ekki, merkilegt nokk, staf um Sama.

Þegar færi gafst vatt ég mér að konunni og í ljós kom að hún var Sami í móðurætt en norsk í föðurætt. Hún hafði dvalið langdvölum á heimili móðurforeldra sinna í Lapplandi og hafði sem ljósmyndari helgað starf sitt því að taka myndir af Sömum við leik og störf og haldið sýningar víða á verkum sínum og þannig vakið athygli á lífi og menningu Sama.

Við ræddum saman í dágóða stund en áður en við kvöddumst sagði hún „ég þekki eina íslenska konu“. Að vonum spurði ég hana hver sú kona væri og nefndi hún þá nafn íslenska sendiherrans í Stokkhólmi. Hissa sagði ég henni að ég hefði nýverið verið í því sendiráði og hitt sendiherrann. Þá sagði hún mér að sonur hennar og sonur sendiherrans væru hálfbræður. Miklir kærleikar væru á milli þeirra bræðra og hefði hún og sonur hennar nýverið dvalið á heimili sendiherrans og syni hennar í Stokkhólmi.

Vorið 2019 tókum við hjónin upp á því að taka lest í stað þessa að keyra til San Francisco, þar sem sonur okkar býr. Ferð, sem venjulega tekur okkur fimm og hálfan tíma, tók okkur níu tíma, tíma sem við nýttum til að lesa og skrifa og njóta fagurs útsýnis út um lestargluggann.

Í veitingavagninum í hádeginu var okkur vísað til borðs með hjónum á okkar aldri. Þau reyndust vera Ástralar, búsett í Melbourne. Þegar við sögðumst vera frá Íslandi sagði maðurinn, „við þekkjum eina íslenska konu, hún heitir Inga“. Áður en hann náði að segja meira, sagði ég „Inga Árnadóttir?“ Hann leit undrandi á mig og sagði „já, einmitt“.

Hin téða Inga Árnadóttir hafði verið samtíma mér í landsprófi í Gaggó Aust veturinn 1967–1968. Leiðir okkar lágu síðan aftur saman í Boston vorið 1984, en það var einmitt þar sem hún kynntist áströlskum eiginmanni sínum, sem var í framhaldsnámi í lögfræði við Harvard. Í ljós kom að ástralskur samferðamaður okkar og eiginmaður Ingu voru samstafsmenn og nánir vinir og höfðu rekið saman lögfræðiskrifstofu í Melbourne í áratugi.

Þetta reyndust vera einstaklega skemmtileg og viðsýn hjón og var svo gaman hjá okkur, að við bókuðum saman borð um kvöldið og þau lofuðu að hafa samband við okkur næst þegar þau kæmu til Kalíforníu.

Já, heimurinn úti í hinum stóra heimi getur svo sannarlega verið lítill.

Inga Dóra Björnsdóttir júlí 26, 2021 07:30