Efnt verður til útileikja í Árbæjarsafni um verslunarmannahelgina, eins og gert hefur verið mörg undanfarin ár. Sigurlaugur Ingólfsson verkefnastjóri segir að þau finni alveg fyrir því í safninu að þetta sé mesta ferðahelgi ársins, en aðsóknin í þessa leiki sé oft í meðallagi. „Við erum með leiki eins og að hlaupa í skarðið, stórfiskaleik, pokahlaup og reiptog og svo höfum við kennt krökkunum eldri leiki eins og að reisa horgemling, hoppa yfir sauðalegginn og fleiri sambærilega leiki“. Sigurlaugur segir að leikurinn að reisa horgemling sé þannig að sest sé niður með beina fætur. Síðan sé annað hnéð, til dæmis vinstra hnéð, beygt. Hægri höndinni sé svo brugðið undir hnéð og gripið með henni í eyrnasnepilinn. Með hinni hendinni taki menn í buxnastrenginn sín. Í þessari stöðu eigi fólk að standa upp án þess að missa takið. „Mér hefur ekki tekist það“ segir hann „en börnin eru svo létt og liðug að þau geta þetta“.
Að hoppa yfir sauðalegginn
Leikurinn að hoppa yfir sauðalegginn er þannig að sauðaleggur er settur á jörðina. Menn standa við legginn með fætur saman, taka í tærnar og hoppa jafnfætis yfir án þess að sleppa takinu. Sigurlaugur segir að það sé nánast ógjörningur að gera þetta. Hann segist ekki þekkja það nógu vel hvort börn séu enn að leika sér í stórfiskaleik, eða pokahlaupi í skólum og leikskólum í dag. En frá klukkan 14 á sunnudaginn og mánudaginn, geta gestir komið að spreytt sig á þessum skemmtilegu leikjum í safninu. Sigurlaugur segir að það fari eftir fjölda gesta, hvort farið sé í hópleiki eða einstaklingsleiki eins og gömlu leikina.
Húla-hringir, kassabílar og lítil lömb
Á safninu er svo fjölbreytt úrval af útileikföngum sem krökkum býðst að nota að vild, svo sem húla-hringir, snú-snú, kubb og stultur og síðast en ekki síst flottir kassabílar. Á gamaldags róluvelli verður hægt að leika í rólunum, vegasaltinu eða í sandkassanum.
Í Árbæ má kynnast sveitalífi fyrri alda og í haga er að finna hesta, folald, kindur og lömb.