„Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni krefst þess, að aldraðir fái nú þegar greidda afturvirka hækkun á lífeyri sinn eins og ráðherrar, alþingismenn og embættismenn fengu. Það er meiri þörf á því að aldraðir lífeyrisþegar fái greidda hækkun afturvirkt en framangreindir hálaunamenn,“ segir í ályktun sem samþykkt var á fundi nefndarinnar á fimmtudag. Ennfremur segir: „Ekkert hefur komið fram við aðra umræðu um frumvarp til fjárlaga um, að ríkisstjórnin ætli að verða við kröfu eldri borgara um afturvirkar kjarauppbætur. Kjaranefndin ítrekar kröfu sína um, að lífeyrir aldraðra verði hækkaður um 14,5% afturvirkt hjá þeim, sem verst hafa kjörin og að lífeyrir hækki hlutfallslega hjá öðrum lífeyrisþegum.“
Það má svo rifja það upp að breytingatillögur stjórnarandstöðunnar á þingi þess efnis að bætur ættu að hækka afturvirkt til samræmis við þær launahækkanir sem samið var um á árinu voru felldar við aðra umræðu um fjárlögin. Eini stjórnarþingmaðurinn sem var efins var Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki en hann sat hjá þegar greidd voru atkvæði um tillögur stjórnarandstöðunnar um afturvirka hækkun. Ásmundur sagði við það tilefni að hann hefði marg oft lýst þeirri skoðun sinni að kjör elli- örorkulífeyrisþega þurfi að bæta. „Það er stóra verkefnið,“ sagði hann og bætti við „Sanngjarnar kröfur um afturvirkar hækkanir nást ekki fram en ég hef fullvissað mig um að það er ríkur vilji til að bæta kjör þessara hópa.“ Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra sagði við aðra umræðu um fjárlög að ólíkt því sem haldið hefði verið fram á þingi, í algjöru kæruleysi, að jöfnuður hefði ekki mælst meiri á Íslandi en í tíð ríkisstjórnar hans.„Munur á kjörum fólks hefur ekki verið jafn lítill og nú, í tíð þessarar ríkisstjórnar, kaupmáttur bóta hefur ekki verið meiri. Að sjálfsögðu höldum við áfram að bæta þar í, en það gerum við af skynsemi og með þeim aðgerðum sem lýst er í fjárlögunum,“ sagði forsætisráðherra.