Það var skemmtileg Gæðastund í Listasafni Íslands í gær, þar sem nokkur hópur fólks fylgdi Ragnheiði Vignisdóttur fræðslu- og útgáfustjóra safnsins um sýninguna Nokkur nýleg verk – ný aðföng í safneign. Fyrir einhverja í hópnum var nútímalist framandi og því mikill hvalreki að fá góða leiðsögn um sýninguna, sem er ekki stór, telur 12 verk sem öll fjalla með einum eða öðrum hætti um tengsl manns og náttúru.
Verkin voru öll mjög áhugaverð. Þarna var til að mynda málverk sem heitir Almannagjá of er eftir Önnu Guðjóndóttur, en verkið byggir á æskuminningum hennar frá Þingvöllum þar sem hún ólst upp að miklu leyti. Þegar horft er á verkið má sjá Almannagjá inni í sýningarskáp, svipaðan þeim sem notaðir voru í gömlum náttúrugripasöfnum. Afar sérstakt sjónarhorn.
Stórt verk eftir Pétur Magnússon virkar í fyrstu eins og ljósmynd en er í raun stafrænn vefnaður. Myndin er sérkennileg, enda er hún svar við gátu og gerð í minningu móður listamannsins sem lést árið 2018. Hún kenndi Pétri og systkinum hans þessa gátu.
Sat ég og át
og át af mér,
át það sem ég sat
og át af því.
Svarið við gátunni er að finna á myndinni.
Á sýningunni mátti sjá málverk og innsetningar, pælingar um mannvirki sem grotna niður, leir sem flyst milli landa og ýmislegt fleira. Margrét Ásgeirsdóttir einn gestanna, kom í Gæðastundina ásamt þeim Lindu Húmdísi og Ingólfi Margeirssyni. Hún sagðist vera að uppgötva þetta og hún ætti eftir að koma oftar. Þremenningunum bar saman um að leiðsögn Ragnheiðar hefði verið bæði athyglisverð og fróðleg. „Þetta var rosalega skemmtilegt og kveikti hjá manni ljós. Maður sér annað sjónarhorn eftir að hafa fengið leiðsögn“, sögu þau. Einu þeirra hafði fundist gátan skemmtileg og öðru fannst svarta verkið í horninu mjög skemmtilegt. „Það er eins og kúlan hafi brotist út úr verkinu og lent þarna“.
Svarta verkið sem þarna var vitnað til, er eftir Guðrúnu Einarsdóttur og heitir Efnislandslag. Það er í rauninni tvö verk og engu líkara en kúlan sem er á stöpli við hlið málverksins, hafi hrokkið út út því miðju.
Það var gaman að skoða þessi nýju verk í eigu safnsins, en verkin sem safnið á eru hátt í 15.000. Mikið af safneigninni er gjafir, en auk þess kaupir safnið listaverk samkvæmt tillögum sérstakrar innkaupanefndar.
Að lokinni kynningunni var boðið uppá kaffi og meðlæti frá Brauði&co. Þeir sem blaðamenn ræddi við voru ánægðir með viðburðinn og Gæðastundirnar verða fleiri. Þær eru yfirleitt einu sinni í mánuði og það verður enginn svikinn af að sækja þær, upplagt fyrir þá sem eru komnir á eftirlaun og geta skroppið á sýningu eftir hádegi á virkum degi og setið og drukkið kaffi á eftir, án þess að þurfa að vera komnir á næsta stað eftir klukkutíma.
Næsta Gæðastund Listasafnsins verður miðvikudaginn 13. desember. Þá verður fjallað um sýninguna Egill Sæbjörnsson og óendanlegir vinir alheimsins.