Líklega kemur það lestrarhestum ekkert á óvart að fagurbókmenntir séu taldar lyf fyrir sálina. Allir sem þekkja þá ánægju að hverfa inn í heim bókarinnar, finna til með persónum hennar og gleðjast við góðan endi eða syrgja þegar ekki fer á besta veg, vita að bækur bæta líf manns.
Ný rannsókn vísindamann sýnir að lestur vinnur gegn streitu og kvíða. Það sýnir sig sömuleiðis að hann getur dregið úr einkennum þunglyndis. Í Englandi og Bandaríkjunum eru starfandi hjá bókasöfnum, svokallaðir bibliotherapistar sem taka á móti viðskiptavinum safnsins og benda þeim á hentugar bækur til að leysa eða vinna með vandamál sín. Hér er ekki um að ræða sjálfshjálparbækur heldur perlur úr safni fagurbókmennta heimsins. Því miður hefur lestur slíkra bóka farið minnkandi um allan heim. Í rannsókn frá árinu 2012 kom í ljós að 60% Dana las aldrei bókmenntaverk af þeirri tegund og ástandið er svipað víða um lönd.
Íslendingar kalla sig bókmenntaþjóð og hér er meira keypt af bókum miðað við höfðatölu en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. En eru allar þessar bækur lesnar? Engin könnun hefur verið gerð á því en eitt sinn bauð Forlagið fólki að skoða hversu mörg af höfuðverkum íslenskrar bókmenntasögu þeir hefðu lesið. Um var að ræða fimmtíu verk og eftir að menn höfðu merkt við gátu þeir deilt niðurstöðunni með fésbókarvinum sínum. Þetta er auðvitað ekki vísindaleg niðurstaða en miðað við útkomu vinhóps undirritaðarar höfðu ansi margir lesið þrjátíu eða fleiri þessara verka. Það verður að teljast nokkuð góð niðurstaða.
Aukin samlíðan og umburðarlyndi
Enn betri fréttir eru hins vegar þær að búast má við að þetta fólk hafi ríkari skilning á mannlegu eðli, meiri samlíðan og umburðarlyndi en hinir sem lesið hafa færri bækur. Bandarísk rannsókn hefur nefnilega sýnt að fagurbókmenntir kenna fólki að setja sig í spor annarra, víkka sjóndeildarhringinn og bætir orðaforða. Það leiðir svo til þess að þetta fólk á auðveldara með að ná til annarra og tjá tilfinningar sínar. Fagurbókmenntir geta einnig hjálpað fólki að þekkja sjálft sig betur og þannig bætt líf þess einstaklingsins til muna. Sjálfsþekking er nefnilega undirstaða þess að menn velji réttar leiðir í lífinu og taki ákvarðanir sem henta þeim.
Það að máta sig við aðstæður og persónur í áhrifamiklum bókmenntaverkum getur hjálpað þér að mála skýrar í huganum hvað þú vilt ekki, hver þín helstu lífsgildi eru og jafnvel kennt þér að meta önnur sem hingað til hafa ekki staðið upp úr. Þetta eru ekki lítil áhrif og sannarlega eftirsóknarverð. Bóka- eða lestrarmeðferð á rætur að rekja til loka fyrri heimstyrjaldarinnar. Hermenn þjáðir af áfallastreituröskun höfðu snúið heim og glímdu við afleiðingar þeirrar hræðilegu lífsreynslu sem þeir höfðu gengið í gegnum. Fljótlega tóku læknar á geðsjúkrahúsum eftir að þeir sjúklingar sem lásu voru líklegri til að ná sér. Þess vegna fóru menn að koma upp vísi af bóksöfnum á slíkum sjúkrahúsum og stofnunum og síðar að nota bækur markvisst í meðferð sjúklinganna.
Í tilfelli hermannanna var ekki bara mikilvægt að upplifa tilfinningaátök eða hlýju hversdagslífsins gegnum bækur heldur einnig að geta speglað reynslu sína í sögum af stríðsátökum úr öruggri fjarlægð. Að auki gátu þessir menn gleymt sjálfum sér um stund og lifað í heimi bókarinnar. Þeir sem þekkja vita að það er mögnuð upplifun og mikil hvíld í henni sérstaklega á erfiðum tímum. Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur sagði til að mynda frá því í viðtali við Vikuna fyrir nokkrum árum síðan að hún tæki á sorginni vegna makamissis með því að lesa bækur eftir Terry Pratchett. Sá er höfundur bráðfyndinna ævintýrasagna þar sem fáránleikinn nær oftar en ekki yfirtökunum og fyrir Vilborgu var ómetanlegt að gleyma sér um stund í þessum gerólíka heimi og hlæja sér til sáluhjálpar. Hún sótti einnig mikið í Eddukvæði og gat speglað sig í sorg Guðrúnar Gjúkadóttur sem missti sinn glæsta eiginmann Sigurð Fáfnisbana.
Leshringir eru frábærir
Stundum voru myndaðir leshringir á sjúkrahúsunum og það hjálpaði mörgum að opna sig um eigin líðan með því að tala um viðbrögð og tilfinningaumrót persóna úr skáldsögu. Lestur tekur tíma og með því að gefa sér hann gátu menn einnig kafað dýpra ofan í efnið og öðlast skilning um leið. Lesturinn einn og sér opnar eitthvað en ígrundunin eftir á, þ.e. vangaveltur um framvindu sögunnar, viðbrögð persóna og að niðurstöðu atvika sem skilar mestu. Þess vegna er mikilvægt að tala um bækur. Engir tveir upplifa söguna eins og að heyra skilning annarra getur einnig opnað margar dyr.
Einhver kann að spyrja hvort ekki sé sama hvað maður lesi? Krimmar, ástarsögur og annað léttmeti hljóti að gefa jafngóða raun. Að minnsta kosti hafi Bridget Jones glatt margar konur og hjálpað þeim til að gleyma eigin raunum um stund. Víst er það svo en í danska blaðinu Cover er viðtal við Christine Fur Fischer bókmenntaráðgjafa við bókasafnið í Gentofte og cand. mag í bókmenntavísindum. Hún segir þar að rannsóknir hafi sýnt að ekki gerist það sama í heilanum þegar fólk les svokallaðar afþreyingarbókmenntir og þegar það les fagurbókmenntir. Af hverju það er svo veit enginn nákvæmlega en vísindamenn hafa getið sér þess til að það hafi eitthvað með fyrirsjáanleika afþreyingabókmennta að gera. Hæfni góðra rithöfunda til að koma lesendum á óvart, setja óvæntan snúning á söguna eða sýna hliðar á persónum sem enginn hafði búist við geri það að verkum að lesandinn sé ætíð virkur og af honum sé meira krafist en þegar um aðrar tegundir bóka sé að ræða.
Bókaunnendur geta líka glaðst yfir að rannsóknir hafa sýnt að það gerir ekki sama gagn að lesa af skjá og að lesa af bók. Það veldur mestu að fólk er almennt lengur að lesa af síðunni og þarf að veita textanum meiri athygli. Það situr því meira eftir. Lestur krefst mikillar einbeitingar og það er hægt að þjálfa hugann og auka einbeitingartímann með því að lesa. Það er því góð leið til að hjálpa þeim sem þjást af athyglisbresti að fá þá til að lesa í tíu til fimmtán mínútur á dag. Sex mínútna lestur á dag minnkar svo streitu verulega og allir geta notið góðs af því.
Aukin og betri einbeiting
Fólk sem er að mestu hætt að lesa eftir innreið tölva með sínum samskiptamiðlum og smátækjum getur huggað sig við að það getur náð aftur fyrri lestrarhraða og einbeitingarhæfni á tiltölulega skömmum tíma. Það eina sem þarf er að taka aftur fram bók og byrja. Að auki þjálfar lestur sjónminnið og bætir hæfni manna í stafsetningu.
Lestur er því sannkallaður læknisdómur fyrir sálina og það hefur verið vitað frá því bókasafnið í Alexandríu opnaði dyr sínar fyrir fróðleiksþyrstum. Aristóteles talaði um að lestur væri alsherjarhreinsun, catharsis, hvorki meira né minna. Harmleikir gengdu því hlutverki að hreinsa okkur af eigingjörnum tilhneigingum og auka samlíðan okkar með öðrum. Í samfélagi þar sem sífellt meira er krafist af einstaklingum og þau viðhorf ríkja að menn eigi að bjarga sér sjálfir veitir sannarlega ekki af slíku.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.