Bókin Uppruni eftir Saša Stanišić er áhugaverð saga unglings sem neyðist til að flýja heimaland sitt. Hún fjallar að sögn höfundar um „staðina þar sem ég á heima, þá sem lifa í minni mínu og þá sem ég hef skáldað“.
Stanišić er rúmlega fertugur maður fæddur í Visegrad í Bosníu. Foreldrar hans flúðu með hann til Þýskalands þegar hann var 14 ára gamall. Á bókarkápu segir að bókin sé áhrifamikil og frumleg, full af visku um það að missa föðurland sitt og hefja nýtt líf í nýju landi. Þema sem er áleitið í heimi þar sem stórir hópar barna og ungmenna alast upp á flótta. Fyrir bókina fékk Stanišić virtustu bókmenntaverðlaun Þýskalands árið 2019.
Uppruni er einnig kveðja höfundar til ömmu með minnisglöpin. „Á meðan ég safna minningum mínum er hún að glata sínum,“ segir hann. En grípum niður í upphaf bókarinnar.
Þetta er svona: Landið sem ég fæddist í er ekki til lengur. Á meðan landið var til leit ég á mig sem Júgóslava. Eins og foreldrar mínir sem voru úr serbneskri (faðirinn) og bosnísk-múslimskri fjölskyldu (móðirin). Ég var barn fjölþjóðaríkisins, afrakstur og játning tveggja manneskja sem löðuðust hvor að annarri og hinn júgóslavneski bræðslupottur hafði frelsað undan hömlum ólíks uppruna og trúar.
Amman með minnisglöpin er lykilpersóna í bókinni. Þegar hér er komið sögu er hún stödd á dánarári Titos, 1980.
„Tito er dáinn!“ hvíslaði amma. Hún hellti kaffinu sínu í vaskinn, þerraði á sér munninn með viskustykkinu, opnaði dyrnar fram á stigaganginn og hrópaði: „Tito er dáinn!“ Ég tók um handlegginn á henni, hún hélt áfram að tilkynna þetta, sífellt hærra. Glöð eða skelkuð? „Tito er dáinn!“
Amma hafði aldrei verið pólitísk. Stjórnmálin voru svið afa míns. Það var hann sem hafði hengt myndina af Tito á vegginn og einungis vegna þess að Tito hafði tilheyrt manninum hennar tók hún hann ekki niður aftur. Sjálf skipti hún fólki í gott og vont eftir því hvort það borðaði vel eða illa og hvort það annaðist fjölskylduna vel eða illa. Umönnunin náði líka til lífsins eftir dauðann, viðhaldsins á leiðunum og minningunum. Í fyrsta sæti voru þau sem settu fjölskylduna í fyrsta sæti.
Á ljósmyndunum var Tito vel alinn og hann annaðist hina júgóslavnesku fjölskyldu. Það hefur trúlega dugað ömmu.
Foreldrar Stanišićs settust að í Heidelberg. Þau voru vel menntað fólk en í Þýskalandi beið þeirra líf innflytjenda og störf í byggingarvinnu og þvottahúsi. Fordómarnir gagnvart þeim og því fólki sem talaði ekki þýsku leyndu sér ekkert.
Foreldrar mínir hlífðu sér ekki, en hins vegar mér. Þau héldu frá mér stærstu vandamálunum og áhyggjunum, töluðu sjaldan um það sem þeim fannst erfitt. Ég vissi ekkert um ósigra þeirra og hvað þau yrðu að láta á móti sér fyrr en nýlega. Um hvað það þýddi að þurfa á miðjum fertugsaldri að yfirgefa trygga tilveru og karpa við leigusalann um hvort við mættum planta tómötum í garðinn.
Bæði höfðu þau orðið að gefa uppá bátinn störf sem þau kunnu og fannst gaman að vinna. Í Þýskalandi hefðu þau tekið nánast hvaða vinnu sem var til þess að komast af. Í okkar júgóslavneska vinahópi var það alls staðar eins. Kaupið var lágt, yfirvinnutímarnir oftast óumbeðnir og ólaunaðir. Var þetta mismunun? Foreldrar mínir gætu ekki svarað því. Var það ömurlegt? Engin spurning.
Tekjurnar dugðu sjaldnast til að afla sér nýrrar eða aukinnar þekkingar. Fyrir tungumálanámskeið, grundvöllinn sem sagt, var lítill tími og lítil aukaorka. Engu að síður voru þau ófá sem sátu sárfætt í tvo tíma eftir vinnu og þræluðu sér í gegnum þýskar sagnbeygingar. Oft fannst þó engin leið út úr bjargarleysinu, eða það var um seinan – brottvísunin kom of snemma.
Foreldrum Stanišićs var vísað úr landi, en það er áhugavert að lesa söguna um það hvernig hann komst til mennta og fékk leyfi til að dvelja áfram í Þýskalandi – með ákveðnum skilyrðum þó.
Stanišić var gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í ágúst síðastliðnum og tók m.a. þátt í tveimur málstofum, annars vegar um stríð og frið ásamt Barböru Demick, hins vegar um mörk skáldskapar og veruleika með Vigdísi Hjorth.