Langar að vera frjáls og gera það sem ég vil

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir skrifar

Það eru vissulega tímamót að hætta formlegu starfi á vinnumarkaðinum og ég er undrandi á því að nú skuli sá dagur upprunninn að ég fari á eftirlaun. Hvernig týndist tíminn?  Ég er orðin sjötug, en fannst skrítið að taka þessa ákvörðun af því að mér finnst og hefur alltaf fundist svo gaman í vinnunni. Svo er það þannig hjá mér eins og svo mörgum að mér finnst ég ekkert eldast.  Það var sérstaklega spennandi að stofna eigið fyrirtæki og fara að reka lítinn fjölmiðil þegar ég var sextug. Ég hafði alltaf unnið hjá öðrum.

Ég hafði veitt því æ meiri athygli eftir því sem árin liðu, að lítið var fjallað í fjölmiðlum um það aldursskeið sem ég er komin á.  Aldursskeið sem sumir kalla eftirlaunaárin en aðrir þriðja æviskeiðið. Það var því virkilega gaman að einhenda sér í það verkefni, að stofna vef til að stuðla að því ásamt fleirum, að gera líf eldra fólks í landinu sýnilegra en það hefur verið. Það eldra fólk sem ég þekkti sem barn, lifði allt öðru lífi en eldri kynslóðin gerir í dag. Það flutti „í hornið“ hjá einhverju barnanna sinna og tók lítinn sem engan þátt í því sem var að gerast í samfélaginu. Ömmur klæddust peysufötum og sátu og prjónuðu.  Núna býr eldra fólk við allt annan veruleika, er sjálfstætt fram eftir öllum aldri, fer á námskeið, í ferðalög, umgengst börn og barnabörn og fær nýja augasteina og nýja hné- og mjaðmaliði.  Enginn leggst í kör lengur.

Ég var um tíma í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík,  í Gráa hernum og  stjórn Landssambands eldri borgara. Það var mjög áhugvert að kynnast starfsemi þessara samtaka og þeim margvíslegu aðstæðum sem eldra fólkið í landinu býr við. Umræðan um „skerðingarnar“ í almannatryggingakerfinu var mikil, en áður en ég tók sæti í stjórn FEB hafði ég mjög lítið heyrt talað um þetta mjög svo undarlega fyrirbæri. Samræmast skerðingarnar virkilega jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar? Að endingu ákvað Grái herinn að höfða mál til að fá úr því skorið, mál sem var á endanum vísað til Mannréttindadómstólsins í Strassburg.  Margt eldra fólk hér á landi hefur það gott, en það eru of margir sem þurfa að lifa af lágum eftirlaunum. Skerðingarnar í kerfinu byrja við alltof lága upphæð og draumastaðan væri náttúrulega að hér væru engar skerðingar. Fólk fengi allar sínar tekjur og greiddi síðan af þeim tekjuskatt, eins og aðrir í samfélaginu.

Staðan varðandi hjúkrunarheimilin er slæm. Þar eru biðlistar of langir og það væri sérstakur kapítuli út af fyrir sig að fara yfir aðstöðuna sem fólki er boðin á þessum heimilum. Ég ræddi við konu sem vann á hjúkrunarheimili. Hún var búin að taka það loforð af börnunum sínum, að þau myndu aldrei láta hana fara á hjúkrunarheimili, sem segir sitt um hennar skoðun á slíkum heimilum.  Þar er mikill skortur á starfsfólki og greinilega ekki hægt að veita viðunandi þjónustu alls staðar. Þessi mál eiga örugglega eftir að verða meira í brennidepli á næstu árum og áratugum.

Það sem réði úrslitum um að ég ákvað að „fara á eftirlaun“ var ekki það að ég vildi ekki vinna lengur, eða gæti ekki unnið lengur. En ég geri mér grein fyrir því að þegar ég er orðin sjötug, á ég 14 ár eftir til að ná meðalaldri íslenskra kvenna. Þó það sé langlífi í bæði föðurætt minni og móðurætt, er hreint ekki víst að ég verði háöldruð. Kannski er það ekki einu sinni sérstaklega eftirsóknarvert að verða háaldraður, nema fólk sé við hestaheilsu af einhverjum ótrúlegum ástæðum. En mig  langar hins vegar að vera frjáls á þeim áratug sem framundan er og þurfa ekki að mæta á ákveðnum stöðum á ákveðnum dögum og tíma.  Geta farið í frí og ferðalög ef  mér dettur það í hug.  Geta varið meiri tíma með fjölskyldu og vinum og sinnt afmörkuðum verkefnum sem tengjast blaðamennskunni, ef því er að skipta. Geta jafnvel tekið dag og gert ekki neitt, nema kannski lesa skemmtilega bók. Svo þarf auðvitað að huga að heilsunni. Ég er nýútskrifuð af skriðsundnámskeiði og vonast til að geta stundað það á „þriðja æviskeiðinu“.  En það er líklega ekki nóg og gönguferðir með vinkonum koma sterkar inn, þegar árin líða, jafnvel leikfimi fyrir sjötíu plús eða jóga!  Hreyfingin lengir ekki  endilega lífið, en eykur lífsgæðin tvímælalaust, þar sem við getum þá lengur bjargað okkur sjálf og hreyft okkur til að komast um og gera það sem okkur þykir skemmtilegt.

Það var mikið fagnaðarefni að jafn reynd fjölmiðlakona og Steingerður Steinarsdóttir skyldi hafa áhuga á að tryggja Lifðu núna framhaldslíf. Hún er nýr ritstjóri Lifðu núna og ég býð hana velkomna til starfa um leið og ég þakka lesendum og viðskiptavinum vefsins kærlega fyrir ánægjulega samfylgd í næstum áratug.

Haustfegurð í Eyjafirði

Erna Indriðadóttir október 2, 2023 09:47