Tengdar greinar

Netþrjótar herja sérstaklega á eldri aldurshópa

Skúli B. Geirdal verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd skrifar einkar fróðlega grein um tölvutæknina og eldra fólk, í nýjasta fréttabréf Vöruhúss tækifæranna. undir fyrirsögninni Nýtum tæknina okkur í hag. Þar er því meðal annars lýst hvernig hægt er að vara sig á netþrjótum.  Pistillinn birtist hér í heild sinni.

 •  Fyrir 7 árum var enginn á TikTok.
 • Fyrir 12 árum höfðum við ekki heyrt um SnapChat eða Zoom.
 • Fyrir 15 árum fengum við ekki eina einustu tilkynningu í símana okkar frá Instagram, Messenger og WhatsApp.
 • Fyrir 20 árum lifðum við í heimi án Facebook, YouTube, Twitter, Spotify og Iphone.
 • Fyrir 25 árum síðan notuðum við ekki Wi-Fi eða Bluetooth!

Umhverfið sem ég fæddist inn í fyrir 30 árum síðan er gjörbreytt því sem við horfum upp á í dag. Já það þarf ekki að leita lengra aftur til þess að finna tímann þegar að við vorum ekki öll sítengd við netið, með fleiri klukkutíma á dag í skjátíma (símar, spjaldtölvur, sjónvörp, fartölvur o.fl.) og með áreiti samfélagsmiðla á bakinu öllum tímum sólarhringsins.

 • Ég fékk að taka út líkamlegan og andlegan þroska í friði frá pressu samfélagsmiðla.
 • Ég fékk að leika mér á skólalóðinni án þess að hafa áhyggjur af því að myndir eða myndbönd væru tekin af mér og send áfram.
 • Ég fékk boð um að vera með eftir skóla þótt ég væri ekki með aðgang á samfélagsmiðlum.
 • Ég fékk tækifæri til þess að virkja ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn þegar að mér leiddist því ég var ekki með allt afþreyingarframboð heimsins í vasanum.

Var allt betra í þá gömlu góðu daga? Þegar að við reyktum inni, keyrðum um án bílbelta og flengdum óþæg börn… meti það nú hver fyrir sig, en ég ætla ekki að ganga alveg svo langt. Nýjar, stórar áskoranir munu alltaf líta dagsins ljós og við verðum að vera tilbúin að takast á við þær sem samfélag.

Lærum að nota tæknina okkur í hag
Þótt við sem eldri erum höfum fæðst inn í heim þar sem hvergi var nettenging þá er staðan í nútímasamfélagi sú að þessi nýja tækni er orðin órjúfanlegur hluti af okkar lífi og tilveru. Sama á hvaða aldri við erum þá erum við öll að læra á þessa tækni sem er komin til að vera. Mistök eru eðlilegur hluti í lærdómsferli. Ef við lítum í eigin barm getum við öll lært af mistökum okkar, og annarra, og gert betur. Verum tilbúin til þess að læra, aðstoða aðra, vera fyrirmyndir og betri við hvert annað. Þessa nýju tækni má nota á alveg stórkostlegan hátt ef við erum tilbúin til þess að nota hana á ábyrgan hátt. Með fræðslu þá valdeflum við okkur sjálf gagnvart tækninni. Í staðinn fyrir að láta teyma okkur áfram af algóritmum og láta mata okkur af afþreyingu og upplýsingum skulum við taka stjórnina. Þannig nýtum við tæknina í okkar þágu sem samfélag.

Nokkrar punktar úr rannsókn Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd fyrir aldurshópinn 60 ára og eldri:

 • 78% nota Facebook oft á dag eða daglega
 • 84,5% nota fréttamiðla á netinu dagalega
 • 51,3% fá fréttir frá samfélagsmiðlum daglega
 • Aldurshópurinn 60 ára og eldri er sá hópur þar sem flestir nota sjónvarp, útvarp, dagblöð, tímarit og vikublöð til að nálgast fréttir
 • Elsti aldurshópurinn (60+) telur sig í mestum erfiðleikum með að bregðast við falsfréttum og er líklegri en þeir sem yngri eru til að gera ekkert þegar að þær verða á vegi þeirra. Á móti er yngsti aldurshópurinn sá sem er líklegastur til þess að leita ráða hjá öðrum.

Við óttumst það sem við þekkjum ekki og forðumst helst það sem við kunnum ekki. Tækninýjungum fylgja áskoranir og það er undir okkur komið að bregðast við þeim. Ef við gerum ekki neitt þá missum við smám saman tökin. Ef við nálgumst efnið fyrirfram sem neikvætt þá verður niðurstaðan í okkar huga næstum örugglega neikvæð. Við verðum að nálgast efnið með opnum huga og horfa á bæði tækifærin og áskoranirnar. Nýja tækni tileinkum við okkur með því að læra inn á hana. Í lærdómsferlinu gera allir mistök og það sýnir styrk fremur en vanmátt að leita sér aðstoðar.

Það er gott að fá börnin og barnabörnin í heimsókn til þess að hjálpa til með tæknina en höfum þó í huga að með því að láta alltaf aðra gera hlutina fyrir okkur þá missum við af tækifærinu til þess að læra að gera þá sjálf. Fáum þau til að aðstoða okkur frekar en að gera allt fyrir okkur. Þegar að við erum ósjálfbjarga erum við berskjölduð og þá bjóðum við hættunum frekar heim.

Einmitt útaf þessari berskjöldun herja netþrjótar sérstaklega á eldri aldurshópa í netveiðum sínum. Hér koma nokkur dæmi:

 • Með fölskum notendareikningum á samfélagsmiðlum þar sem þeir þykjast vera gamlir vinir eða ættingjar í vanda.
 • Með fölskum tölvupóstum sem settir eru upp eins og þeir séu að koma frá þekktum fyrirtækjum. „Þú þarft að uppfæra uppfæra upplýsingarnar um sendinguna þína…“ eða „þú hefur borgað of mikið og átt inneign sem þú getur nálgast með því að…“
 • Með því að búa til falskar fyrirtækjasíður og senda okkur skilaboð um að við höfum unnið í gjafaleiknum þeirra.

Með tíð og tíma hafa þessi svindl orðið sífellt meira sannfærandi og skrifuð á betri íslensku. Um 90% af rafrænum innbrotum byggja á því að plata fólk. Því er mikilvægt að vera vel á verði, virkja gagnrýnu hugsunina og skoða skilaboðin mjög vel:

 • Hvert er netfang sendanda? Það er mikilvægt að skoða frá hvaða netfangi tölvupóstar eru sendir. Passar netfangið við fyrirtækið sem segist vera að senda póstinn?
 • Er um lélega þýðingu að ræða í póstinum? Stendur „útsýni“ í staðinn fyrir „view“ á hnappinum sem inniheldur hlekkinn? Er um bjagað mál að ræða í póstinum sjálfum.
 • Er erindið sennilegt? Áttir þú von á sendingu eða endurgreiðslu? Ertu kannski ekki með áskrift hjá Netflix, en ert samt allt í einu að fá póst um að þú eigir þar inni peninga? Er þetta fyrirtæki sem venjulega sendir þér tölvupósta? Allt sem vekur hjá okkur efasemdir á netinu er nóg til þess að við ættum að staldra aðeins við áður en við bregðumst við. Stoppa – hugsa – athuga

Nokkur góð ráð:

 • Hafa beint samband við fyrirtækið sem er að senda þér póstinn sem vekur hjá þér grunsemdir. Ekki smella á hlekki í póstinum heldur farðu inná heimasíðu viðkomandi fyrirtækis beint í vafra eða með hjálp leitarvélar. Finndu þar netfang eða símanúmer og hafðu beint samband við starfsfólk. Ekki svara póstinum sem þú fékkst heldur finndu rétt netfang á heimasíðu fyrirtækisins eða farðu inná www.cert.is til að tilkynna. Með því að tala beint við starfsfólk viðkomandi fyrirtækis er oftast hægt að finna fljótt út úr því hvort pósturinn kom frá þeim eða ekki.
 • Ekki opna hlekki. Ekki smella á neitt í pósti sem vekur hjá þér grunsemdir. Tilkynntu hann frekar til viðkomandi fyrirtækis eða www.cert.is.
 • Vertu alltaf með varan á. Rétt eins og að spenna beltin áður en þú keyrir af stað. Höfum kveikt á gagnrýnu hugsuninni okkar þegar að við erum á netinu.
 • Notum löng og flókin lykilorð. Pössum okkur að nota ekki alltaf sama lykilorð og breytum þeim af og til.
 • Ekki senda viðkvæmar persónuupplýsingar. Ekki senda símanúmerið þitt áfram í gegnum spjall á samfélagsmiðlum. Ekki senda myndir af skilríkjum eða kortanúmerum. Ekki deila lykilorðum með öðrum.
 • Leitum aðstoðar hjá öðrum. Það er gott ráð að spyrja fólkið sem maður treystir í kringum sig áður en maður bregst við tölvupósti sem að vekur hjá manni grunsemdir.
 • Hjálpumst að. Látum vita þegar að netveiðar og svindl verða á vegi okkur. Tilkynnum slík tilfelli og deilum því áfram t.d. inni á spjallhópum sem við erum í til þess að vara aðra við. Tilkynnum netöryggisatvik inná www.netoryggi.is.

Listarnir hér að ofan eru auðvitað ekki tæmandi. En þar er að finna ýmis góð ráð til að hafa í huga. Fyrir frekari upplýsingar um netöryggi þá mæli ég með síðunni www.netoryggi.is hjá CERT-IS, þar er að finna fróðleik ásamt netföngum til að tilkynna vefveiðar og svindl.

Frekari upplýsingar um rannsókn Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd má finna hér. Þá langar mig að lokum til þess að benda á nýja vefinn sem Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi var að opna www.midlalaesi.is. Enn sem komið er þá er fræðsluefnið sem þar er að finna helst ætlað börnum og ungmennum. Engu að síður mæli ég með áhorfi á fræðslumyndböndin sem þar er að finna fyrir alla þá sem að umgangast börn í dag. Hvort sem það eru börn þín, barnabörnin eða barnabarnabörnin. Þar er einnig að finna hugtök úr netheimum þar sem við höfum tekið saman stuttar skilgreiningar á ýmsum hugtökum eins og t.d. spjallmenni, upplýsingaóreiða, algóritmi og djúpvefur. Það er auðvelt að týnast í umræðunni þegar að hún inniheldur mörg orð sem maður skilur ekki, inná www.midlalaesi.is er að finna þessa stuttu netorðabók sem er ætluð að hjálpa okkur að fóta okkur í þessum nýja veruleika.

Ritstjórn maí 24, 2023 07:00