Leikhúskaffi um Ungfrú Ísland

Leikhúskaffi um sýningu Borgarleikhússins á Ungfrú Ísland verður í Borgarbókasafninu,  Menningarhúsi í Kringlunni mánudaginn 6. janúar kl. 17:30-18:30. Verðlaunaskáldsaga Auðar Övu, Ungfrú Ísland, birtist ljóslifandi á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu í mögnuðu sjónarspili. Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri segir frá sýningunni á Leikhúskaffi sem fer fram á Borgarbókasafninu Kringlunni, mánudaginn 6. janúar. Í kjölfarið verður farið upp á Stóra svið Borgarleikhússins þar sem leikmyndin verður skoðuð og boðið upp á umræður og spurningar fyrir áhugasama. Leikhúskaffi á Borgarbókasafninu í Kringlunni er skemmtilegur viðburður fyrir öll sem hafa áhuga á leikhúsi og góðum sögum.

Gestum leikhúskaffis býðst 10% afsláttur af miðaverði á sýninguna.

Hjólastólaaðgengi er á viðburðinum. Öll eru hjartanlega velkomin!

Meira um Ungfrú Ísland:

Hekla þráir að skrifa en það reynist fjarlægur draumur fyrir unga konu á Íslandi rétt eftir miðbik síðustu aldar. Draumurinn er enn fjarlægari fyrir Íseyju, sem er gift og komin með barn og eru sjálfkrafa allar bjargir bannaðar. Bara að fá að vera til á eigin forsendum virðist utan seilingar og hið sama upplifir hinn ungi Jón John.

Ungfrú Ísland er kyngimögnuð saga sem gerist á barmi byltinga, fangar tíðaranda og tilfinningar. Þetta er saga um baráttu fólks fyrir höfundarétti á eigin lífi á tímum þegar sjálfstæði kvenna og hinseginleiki voru þyrnar í augum íhaldsamts samfélags, barátta sem enn er háð í dag. En þetta er einnig saga um sjálfan sköpunarkraftinn, lífsviljann og ævarandi leit að betri heimi, þar sem allt það sem ekki er orðið til kraumar undir yfirborðinu og brýtur sér leið í ljósið með tilheyrandi titringi og átökum.

Viðburðurinn á heimasíðu: https://borgarbokasafn.is/vidburdir/bokmenntir/leikhuskaffi-ungfru-island

Viðburðurinn á Facebook: https://www.facebook.com/events/1110287183604176

Ritstjórn janúar 4, 2025 07:00