Hún var aðeins sautján ára þegar hún skaut átján þúsund öðrum stúlkum ref fyrir rass og fékk hlutverk Jóhönnu af Örk í kvikmynd Ottos Premingers. Frammistaða hennar var skotin niður af gagnrýnendum og minnstu munaði að hún væri bókstaflega brennd á báli meðan á tökum stóð. Engu að síður gafst hún ekki upp og Jean Seberg varð ein stærsta stjarna Hollywood á sjötta áratug síðustu aldar en þegar hún hóf að berjast fyrir málstað Svörtu pardusanna ákvað J. Edgar Hoover að eyðileggja líf hennar og feril. Árið 2019 var gerð kvikmynd um líf þessarar merku konu.
Jóhanna af Örk var stærsta mynd sem gerð hafði verið í Hollywood árið 1957. Stærsta hljóðsvið í Evrópu var byggt í stúdíóinu og fimmtán hundruð aukaleikarar kallaðir til. Þegar atriðið þar sem Jóhanna er brennd á báli var tekið upp klikkaði eitthvað. Eldurinn átti að brenna allt í kringum leikkonuna en aldrei komast nálægt henni en hann náði að læsast í föt hennar og hún fékk brunasár á brjóstkassann. Fjölmiðlar og gagnrýnendur hrifust ekki af myndinni þegar hún kom út og síðar átti Jean eftir að segja í viðtali: „Ég á tvær minningar um Heilaga Jóhönnu. Önnur er af því að vera brennd á báli í myndinni. Hin að vera brennd á báli af gagnrýnendum. Hið síðara var sársaukafyllra. Ég var eins og hrædd kanína og það sást á hvíta tjaldinu. Þetta var ekki góð reynsla á nokkurn hátt.“
Annað var hins vegar uppi á teningnum þegar næsta mynd Ottos með Jean í aðalhlutverki kom út eða Bonjour Tristesse, gerð eftir samnefndri skáldsögu Françoise Sagan. Hún var mjög vinsæl í Frakklandi og var í framvarðarsveit nýbylgjunnar í franskri kvikmyndagerð sem hófst um þetta leyti. Næst kom Breathless en þar lék Jean, Patriciu, dularfulla og frjálslega ástkonu Michael sem Jean Paul Belmondo lék. Myndin sló í gegn og parið varð fyrirmynd ungs fólks um allan heim og Jean Seberg leiðandi áhrifavaldur í mod-tískusveiflunni. Hún birtist á forsíðum tímarita á borð við Vogue og Life og stuttur drengjakollur varð klippingin sem allar unglingsstúlkur vildu fá.

Jean Seberg hafði áhuga á mannréttindabaráttu og vildi bæta heiminn.
Hafði þörf fyrir að bæta heiminn
Hún giftist franska kvikmyndaleikstjóranum François Moreauil árið 1958 en skildi við hann tveimur árum síðar. Rithöfundurinn og diplómatinn Romain Gary kom inn í líf hennar og þau giftu sig árið 1962. Kennedy-fjölskyldan var meðal vinfólks þeirra og Jean og Romain oft gestir í Hvíta húsinu. Eiginlega er óhætt að segja að þá hafi allt gengið henni í haginn og þessi ástríðufulla unga kona hafði veröldina í hendi sér. Það var fljótt að breytast.
Kvikmyndin Seberg var frumsýnd í Bandaríkjunum 13. desember 2019 og í Evrópu skömmu síðar. Kristen Stewart leikur Jean í myndinni og frammistaða hennar er frábær. Margir telja að Jean hafi fyrst blandað sér í pólitík þegar fór að styðja Svörtu pardusana en það er ekki alveg rétt. Hún gekk í NAACP eða National Association for Advancement of Coloured People árið 1952 þá aðeins fjórtán ára. Hún blandaði sér einnig í aðra umræðu um mannréttindi hvenær sem hún gat.
„Hún hafði þörf fyrir að bæta heiminn,“ sagði vinur hennar, Sol Serber rabbíni í heimildakvikmynd sem gerð var um hana árið 2013. „Allt sem hún þurfti að vita var að einhvers staðar væri verið að fara illa með fólk.“

Með Jean Paul Belmondo í kvikmyndinni Breathless.
Mannréttindabarátta og Svörtu pardusarnir
Jean kynntist starfi Svörtu pardusana þegar hún hitti Hakim Jamal fyrir tilviljun í flugvél á leið frá París til Los Angeles árið 1968. Þegar vélin lenti heilsaði hún með að lyfta krepptum hnefa rétt eins og hann og félagar hans og ljósmyndarar dagblaðanna voru ekki seinir á sér að smella af. Hún gerði sér enga grein fyrir að á þessum tíma var COINTELPRO-prógram J. Edgars Hoover í fullum gangi. Hann var með ótal FBI-fulltrúa í fullu starfi við að fylgjast með svörtum stjórnmála- og baráttumönnum. Jamal var frændi Malcolm X og ef marka má handrit leiknu myndarinnar frá 2019 urðu þau Jean elskendur. Ekkert þvílíkt kemur þó fram í heimildamyndinni og Gary McGee höfundur ævisögu hennar segir það fjarri sanni.
Hvort svo hafi verið og það reitt Hoover svo rækilega til reiði að hann ákvað að leggja feril hennar í rúst er ekki gott að segja en hann ofsótti hana sannarlega. Tveir FBI-fulltrúar Jack Solomon og Carl Kowalski eru í kvikmyndinni fulltrúar COINTELPRO og beita beinlínis öllum ráðum til að gera henni lífið leitt. En af því þetta er bandarísk mynd fær annar þeirra, Jack, bakþanka og biður hana afsökunar. Reyndin var hins vegar alls ekki sú. FBI ofsótti og hrakti Jean Seberg fram af brúninni þannig að hún fékk á endanum taugaáfall. Þetta er ekki síst undarlegt því Jean var alls ekki eina Hollywood-stjarnan sem studdi Svörtu pardusana. Jane Fonda, Paul Newman og Vanessa Redgrave voru meðal þeirra sem mættu í veislu heima hjá henni og Romain en boðið var haldið til að afla fjár fyrir pardusana. Jean gaf auðvitað sjálf rausnarlega til starfsemi þeirra og það gerðu líka Elizabeth Taylor, Marlon Brando og fleiri stórstjörnur.

Hvers vegna J. Edgar Hoover ákvað að ofsækja þessa ungu leikkonu er ekki vitað en margar aðrar Hollywood-stjörnur studdu Svörtu pardusana.
FBI-menn tóku fljótlega að fylgjast með henni og í heimildamyndinni er sagt að það hafi verið eftir símtal hennar til eins leiðtoga hreyfingarinnar, Elaine Brown. En Jean varð vör við bæði mennina sem eltu hana, símhleranir og annað sem færði henni heim sanninn um að verið væri að njósna um hana. Lengst gengu þeir þegar þeir komust að því að hún væri ófrísk af seinna barni sínu og þeir láku fölskum fréttum í slúðurblöðin þess efnis að Romain væri ekki faðirinn heldur meðlimur í samtökunum Svörtu pardusunum, þeldökkur. Jean brotnaði niður og dóttir hennar, Nina Hart Gary, fæddist fyrir tímann og lést aðeins tveimur dögum seinna. Þau hjónin fylgdu dóttur sinni til grafar og höfðu kistuna opna í kirkjunni til að slá á slúðrið. Jean fór í mál við Newsweek og vann. Henni voru dæmdar skaðabætur að upphæð 20.000 dollara.
Þetta varð þó ekki til að slá á ótta hennar og ofsóknarkennd. Hún hafði enn á tilfinningunni að fylgst væri með henni og hún var hvergi örugg. „Hún kom í heimsókn til okkar strax eftir jarðarförina,“ sagði systir hennar, Mary Ann Seberg, í heimildamyndinni. „Hún var algjörlega miður sín, hélt sig mjög til baka. Ég held að hún hafi bókstaflega ekki getað trúað því að líf hennar væri eyðilagt vegna einhvers í líkingu við þetta.“

Jean Seberg og eiginmaður hennar Romain Gary.
Lék aldrei aftur í Hollywood
Í kjölfar barnsmissisins flutti Jean Seberg til Frakklands og lék þar í kvikmyndum næstu níu árin. Hún sneri aldrei aftur til Hollywood. Hún skrifaði og leikstýrði stuttmynd en jafnaði sig aldrei til fulls andlega. Seinnipartinn í ágúst árið 1979 hvarf hún. Lík hennar fannst tíu dögum síðar vafið í teppi í aftursæti bíls hennar örskammt frá íbúð hennar í París. Vitað var að hún hafði farið úr íbúð sinni, nakin og vafin í teppi með stóra skammta af svefnlyfjum í handtösku sinni. Haldin var réttarrannsókn og dómari komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði framið sjálfsvíg en að mörgum spurningum væri þó ósvarað. Vinir hennar og fjölskylda voru þó aldrei fullviss um að hún hefði svipt sig lífi, enda voru sönnunargögnin sem lögð voru fyrir réttinn mjög þversagnakennd og gátu bent til morðs. Hún var aðeins fjörutíu og eins árs.
Stuttu eftir jarðarförina komu skjöl um ofsóknir og njósnir FBI-manna á hendur henni og skipulagða ófrægingarherferð upp á yfirborðið. Þetta var ömurlegur endir á lífi hæfileikaríkrar konu. Á ferlinum lék hún í þrjátiu og tveimur myndum og þótt hún sé í dag þekktust fyrir stutta hárið og einstaka fegurð sína er enginn vafi á að hún hafði mikil áhrif á viðhorf og tilfinningar sinnar kynslóðar. Í blaðaviðtali á Deauville-kvikmyndahátíðinni í byrjun þessa árs sagði Kristen Stewart um hlutverk sitt í myndinni: „Ég vildi gefa konu rödd sem var rænd sinni eigin meðan hún lifði. Hún var hvatvís, barnaleg á stundum, hugsjónakona en hafði aldrei neitt nema gott í huga. Mig langaði til að sanna réttmæti skoðana hennar og gefa henni gildi.“

Kirsten Stewart lék Jean í kvikmynd sem gerð var um líf hennar árið 2019.
En þrátt fyrir þessi orð Kristen er margt sem bendir til að Jean hafi hvorki verið barnaleg né óraunsæ. Hún var fullkomlega meðvituð um yfirborðsmennsku kvikmyndanna og hvernig konur voru ýmist settar á stall eða skotnar niður. Hún gerði eigin stuttmynd og sagðist gera sér fulla grein fyrir að hún væri ekki að framleiða neitt Óskarsverðlaunaefni. Árið 1974 sagði hún í viðtali við New York Times um Ballad for the Kid en hún var meðhöfundur handritsins: „Þetta verður ekki ólíkt heimagerðri mynd. Allir aðrir eru að gera svipað – hvers vegna ekki ég? Mig langar að finna út hvort þetta er eitthvað sem ég vil gera. Ég geri mér engar tálvonir ég mun ekki ganga upp á svið á Óskarverðlaunakvöldinu.“ Hún gerði sér einnig grein fyrir að þegar aldurinn tæki að færast yfir yrði staða hennar sem leikkonu erfiðari. Hún hafði skapað sér nafn fyrir að leika ungar fagrar konur, örlagavalda í lífi fólksins í kringum þær og hafði þetta að segja um það í sama viðtali: „Ég er á skrýtnum aldri hvað varðar starf mitt sem leikkona. Ég er ekki nægilega ung til að leika ungu saklausu stúlkuna og ekki nægilega gömul til að stunda karakterleik. Það er kannski gott fyrir andlega heilsu manns að færa sig inn á önnur svið.“ Þarna orðar hún í hnotskurn nákvæmlega það sem Geena Davis og fleiri Hollywood-leikkonur hafa verið að vekja athygli á og berjast við að breyta í undanfarna áratugi.
„Lengst gengu þeir þegar þeir komust að því að hún væri ófrísk af seinna barni sínu og þeir láku fölskum fréttum í slúðurblöðin þess efnis að Romain væri ekki faðirinn heldur meðlimur í samtökunum Svörtu pardusunum, þeldökkur.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.