Leikur, gleði og lúxus

Í vor opnaði í Mílanó stórglæsileg sýning á verkum þeirra félaga Domenico Dolce og Stefano Gabbana. Þessi óvenjulegi dúett endurvakti og nýtti sér fornar handverkshefðir Ítalíu í verkum sínum og í raun má þakka þeim að ekki týndist margvísleg þekking og fornar vinnuaðferðir. Um er að ræða farandsýningu sem verður á flakki um Evrópu næstu árin en sýningarstóri er Florence Müller og yfirskrift hennar er Frá hjartanu til handanna eða From the Heart to Hands.

Domenico og Stefano hittust í Mílanó árið 1980 þegar þeir voru báðir að læra tískuhönnun. Þeir urðu fljótt nánir og góðir vinir og hófu að vinna saman. Tveimur árum seinna stofnuðu þeir hönnunar- og ráðgjafarstúdíó undir heitinu, Dolce & Gabbana. Það var hins vegar ekki fyrr árið 1985 að þeir komu fram með fyrstu fatalínu sína. Sama ár opnuðu þeir eigin verslun en þarna í byrjun áttu þeir ekki mikla peninga og þurftu því að leita til vina sinna með að fá lánaða alla fylgihluti á módelin, þar með talið skó, skartgripi og annað.

Stóra tækifærið kom þegar þeim var boðið að sýna á tískuvikunni í Mílanó árið 1989. Fatnaður þeirra sló í gegn og nánast umsvifalaust voru þeir orðnir meðal vinsælustu fatahönnuða stjarnanna bæði í heimalandi sínu Ítalíu og utanlands. Þeir unnu Woolmark-verðlaunin, ein virtust verðlaun tískuheimsins árið 1991 og segja má að upp frá því hafi leiðin verið greið.

Sýningunni er hins vegar ætlað að leiða áhorfendur í ferðalag um hugmyndaheim og sköpun þeirra félaga. Þeir hafa ávallt verið þekktir fyrir notkun lúxusefna á borð við silki og satín og afturhvarf til handverks fyrri tíma. Meðal annars eru föt þeirra oft bróderuð, perlusaumuð og skreytt kristöllum. Þeir eru heldur ekki hræddir við liti og föt þeirra eru gerð til að gleðja augað. Þeir sækja sér innblástur í sögu Ítalíu, bæði sögu fatnaðar og listasöguna. Sjálfir segjast þeir ávallt tala frá hjartanu og vera heillaðir af hversu listfeng mannshöndin er. Það er ástæðan fyrir yfirskrift sýningarinnar.

Ást á menningu Ítalíu

Báðir eru þeir hrifnir af menningu Ítalíu og þeirri löngu sögu sem þar liggur að baki. Þeir hafa sótt innblástur í arkitektúr bygginga, skipulag og staðfræði fornra borga, tónlist, ballettdans, óperur og málaralist. Þetta kallaði á fyrsta flokks og dýr efni og hver flík er handunnin. Þess vegna er fatnaður þeirra svo dýr að aðeins þeir ofurríku geta leyft sér að versla við þá. Til að gefa venjulegu fólki færi á að njóta lúxusins líka stofnuðu þeir merkið D&G en þar fær hönnun þeirra og vönduð úrvinnsla að njóta sín en á talsvert íburðarminni hátt.

Meðal frægustu fatalína sem þeir hafa skapað eru nokkrar sem sagt er að hafi beinlínis breytt gangi tískunnar. Það eru: Munúðarlínan eða The Sensuality Collection frá 1992, Sikileyjarlínan frá 1997, Alta Moda-línan frá 2012 og Alta Sartoria-línan frá 2016. Þeir segja að ávallt sé í forgrunni hjá þeim að skapa föt sem gefi konum sjálfstraust og þeim finnist þær fallegar í. Þeir vilja einnig gefa viðskiptavinum sínum færi á að tjá eigin persónuleika, sköpunarkraft og lífsgleði gegnum þann fatnað sem þeir velja að klæðast. Þeir segja að tískan eigi að vera skemmtilegur leikur fyrir fullorðna. Oft má sjá fötum frá þeim bregða fyrir í kvikmyndum, tónlistarmyndböndum og hátískutímaritum. Þeir eru þakklátir fyrir velgengnina og hafa í gegnum árin reynt að gefa til baka með því að leggja margvíslegum góðgerðamálum lið.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 31, 2024 07:00